143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

417. mál
[17:52]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég kem eiginlega hingað til að taka undir með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur um þær tvær nefndir sem hér er verið að tala um að fella brott og síðan að mynda starfsreglur, eins og hér stendur, „um úrræði vegna aga- og siðferðisbrota“ sem kirkjuyfirvöld telja að unnt verði að skerpa á í hvaða farveg kvörtunar- og kærumál eigi að fara.

Ég tek undir þann málflutning sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir hafði uppi um þessar tvær nefndir. Í ljósi þess sem kirkjan hefur staðið frammi fyrir á undanförnum árum, öllu heldur kirkjur, ekki bara þjóðkirkjan heldur og kirkjur og aðrir söfnuðir sem hér eru virtir, held ég að við vöndum okkur í því með hvaða hætti löggjafinn ákveður að setja í farveg jafn viðkvæm mál og hafa hreyft við kirkjunum á undanförnum árum.

Hæstv. innanríkisráðherra situr í salnum. Hún mælti fyrir þessu frumvarpi í gær, þar með að vísa því til nefndar, sem væntanlega verður allsherjar- og menntamálanefnd og að nefndinni verði falið að skoða frekar hvort ekki megi bíða með í það minnsta þær ákvarðanir sem hér á að taka þar til heildarendurskoðun laganna hefur átt sér stað. Hún hefur staðið yfir frá 2007.

Ekki eru allir kirkjunnar menn sammála hvað varðar breytingar og þess vegna hefur þetta tekið þann tíma sem sýnt er. Þá held ég að í jafn viðkvæmum málum og hafa hreyft við kirkjunni undanfarin ár og innan kirkjunnar sé betur heima setið en af stað farið. Við ættum að vanda okkur og íhuga frekar með hvaða hætti löggjafinn telur að réttur þeirra sem á sér telja brotið af kirkjunnar mönnum sé sem best varinn í þeirri lagasetningu sem stendur fyrir dyrum.