16.04.1942
Efri deild: 34. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

25. mál, íþróttakennaraskóli Íslands

*Frsm. (Jónas Jónsson):

Eins og hv. þdm. muna, var óskað eftir því, af því að Sjálfstfl. hafði ekki haft mann í menntmn. á fyrsta fundi hennar, að málið yrði aftur tekið til athugunar. Það var í raun og veru heppilegra, þar sem hér var ekki aðeins einn félagsskapur, heldur fleiri félög, sem þurftu að athuga málið vel. Einn nm., hv. 2. þm. Eyf., hefur verið fjarverandi, en við hv. þm. Vestm. höfum haldið áfram starfi n. Við höfum í framhaldsnál. borið fram 2 brtt. og látum fylgja því þrjú fylgiskjöl, eitt frá Íþróttasambandi Íslands, annað frá Íþróttakennarafélagi Íslands og hið þriðja frá sambandsstjórn U.M.F.Í. Allir leiðandi menn í þessum félögum eru hlynntir frv. og munu leggja mikla áherzlu á, að það nái fram að ganga.

Hv. 1. þm. Reykv. benti á það við 1. umr., hvort þessi stofnun yrði ekki að vera hér í Reykjavík. Stjórn Í.S.Í. er á þeirri skoðun, að svo geti vel farið, að nauðsynlegt yrði, að þessi stofnun væri í höfuðstaðnum, þegar allt íþróttalíf er búið að fá hér aðra aðstöðu, sem síðar mun koma. Að öllu athuguðu verður að telja rétt að hafa skólann á Laugarvatni, a.m.k. fyrst um sinn.

Svo var annað atriði, sem n. átti erfitt með. Að þessum málum standa mörg mismunandi félög, og þó að þau vinni að sama takmarki, er stöðugur reipdráttur þar á milli. “Nú gera öll 3 félögin, sem skrifað hafa n., kröfu til að hafa hvert um sig fulltrúa í skólanefnd íþróttaskólans. Við hv. þm. Vestm. höfum talið heppilegast, að ríkisstj. gæti á hverjum tíma valið slíkan mann til að eiga sæti í skólanefndinni, og gætu félögin þá fengið að hafa fulltrúa þar til skiptist. Fræðslumálastjórinn vildi helzt, að íþróttalæknir ætti sæti í skólanefndinni, og það atriði er tekið upp í 2. brtt. Íþróttafrömuðir vildu hafa fleiri kennara við skólann heldur en við höfðum lagt til. Við sáum ekki ástæðu til að taka þetta til greina að svo stöddu, og mundi koma seinna tækifæri til þess, enda er svo gert ráð fyrir í frv., ef Alþ. veitir fé til aukakennslu.

Ég get ekki annað sagt en að málið hafi fengið góðan undirbúning, þó að það sé ekki stjfrv. En það er rétt að útskýra, út af þessu skólanefndarmáli, að heppilegast þótti að hafa einn mann frá héraðsskólunum í skólanefndinni. Það er nú svo í tvíbýli, að aðilar verða oft að þoka hver fyrir öðrum. Skólarnir gætu risið upp hver gegn öðrum og það gæti verið óþægilegt, ef ekki væri tengiliður þar á milli til að jafna alla árekstra. — Ég held, að ég hafi svo ekki meira að segja um þetta mál.