Kosning í fastanefndir í Nd.
Miðvikudaginn 12. október 1988

     Forseti (Kjartan Jóhannsson):
    Samkvæmt 49. gr. þingskapa er það svo að þegar atkvæði falla jöfn með þessum hætti skal varpa hlutkesti um listana. Ég hafði hugsað mér að framkvæma það með þeim hætti sem hefð er fyrir hér í þinginu að dregnar yrðu kúlur úr boxi og sú tala sem hærri væri teldist vinningur, ef ég má orða það svo, þ.e. sá sem drægi hærri töluna hefði þá hlotið sæti. Í samræmi við hefð hef ég gert ráð fyrir að þeir þingmenn sem verið er að varpa hlutkesti á milli drægju kúlurnar úr kassanum.
    Ef svo skyldi fara að varpa þyrfti hlutkesti oftar en einu sinni sýnist mér að eðlilegt sé að einnig sé einhver regla á því hvor skuli draga fyrr kúlu úr kassa. Ég ætla þá að leyfa mér að framkvæma það með þeim hætti að í fyrsta skipti sem hlutkesti fer fram með þessum hætti verði það fulltrúi á A-lista sem dragi á undan úr kassanum, en í næsta sinn verði það fulltrúi af B-lista. Vona ég þá að alls réttlætis sé gætt. Ég vænti þess að hv. deild geti fallist á þessa aðferð við hlutkestið, og ég sé að svo er.
    Vil ég þá biðja þá tvo hv. þm., sem nú skal varpa hlutkesti á milli, að ganga hér fram, hv. þm. Páll Pétursson og hv. þm. Friðrik Sophusson. Dregur hv. þm. Páll Pétursson á undan.