Lánasjóður íslenskra námsmanna
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð vegna þess sem kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda, að Sverrir Hermannsson hafi gefið út reglugerð á sínum tíma, þá vil ég segja að það var gert í kjölfar þess að fjvn. samþykkti á sínum tíma að breyta reglum Lánasjóðsins. Það var á vitorði ríkisstjórnarinnar og þeirra flokka sem þá fóru með völd og það var á ábyrgð Framsfl. og Sjálfstfl. sem þetta var gert. Í framhaldi af því skipaði Sverrir Hermannsson nefnd til að ganga frá breytingum á lögum um Lánasjóðinn. Ég var formaður þeirrar nefndar. Í nefndinni sat enn fremur hv. þm. Finnur Ingólfsson. Tvívegis var skrifað undir --- ég endurtek: Tvívegis var skrifað undir nál. á grundvelli tillagna Finns Ingólfssonar. Tvívegis hlupu Finnur Ingólfsson og framsóknarmennirnir frá sínum tillögum þannig að ekkert varð úr því að breyta lögum og reglum um Lánasjóðinn sem nauðsynlegt var að gera þá.
    Þetta vildi ég að kæmi skýrlega fram við þessa umræðu. Ég vil jafnframt benda á að hæstv. utanrrh. lýsti því yfir hér um daginn að Lánasjóðurinn íslenski væri lúxussjóður á borð við þá allra bestu í heiminum og jafnvel betri. Undir það tók hæstv. fjmrh. Ég vil jafnframt benda á það, virðulegur forseti, að hæstv. núv. menntmrh. ætlar ekki að standa við þau orð sem hann gaf þegar hann var í stjórnarandstöðu. Fjárlagafrv. bendir ekki til þess þrátt fyrir orð hæstv. ráðherra. (Gripið fram í.) Það eru efasemdir uppi hjá forráðamönnum Lánasjóðsins um að fjárframlagið dugi. Gert er ráð fyrir fækkun námsmanna í fjárlagafrv. Ég vil hins vegar nota tækifærið til þess að hvetja hæstv. ráðherra til þess að breyta lögunum þannig að hægt verði að klára það verk sem Framsfl. hljóp frá á sínum tíma.