Ferðaskrifstofa ríkisins
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil gera athugasemdir við málsmeðferð á sölu þessa ríkisfyrirtækis. Fyrirtæki ríkisins eru ekki einkamál starfsfólks. Starfsfólk hefur ekki umfram aðra landsmenn rétt til að kaupa fyrirtæki sem það vinnur hjá. Ég verð að segja alveg eins og er, af því að mér var kunnugt um að matsverðið var miklu hærra en söluverð, að það veit enginn hvaða markaðsverð er á þessu fyrirtæki vegna þess að það var ekkert sótt eftir verðtilboðum. En mér er líka kunnugt um að söluverðið er langt undir matsverði sem var mjög lágt. Undanfarin mörg ár hefur Ferðaskrifstofa ríkisins verið með þetta 10 og jafnvel upp í 20 millj. kr. hagnað sem allur hefur farið í fyrirtækið sjálft. Hann hefur ekki runnið til ríkissjóðs. Það er búið að fjárfesta í þessu félagi hagnað sem er mörgum sinnum söluverðið á undanförnum árum. Ég tel að hér hafi verið furðulega að verki staðið og ég hef ekki heyrt í þessum umræðum neitt svar við fsp. hv. fyrirspyrjanda í þessu máli.
    Hvert var matsverðið? Ég spyr hæstv. samgrh. beint eða fyrrv. hæstv. samgrh. Var það undir eða yfir 50 millj.? Hvert var söluverðið? Það hefur ekki komið fram hérna beint. Viðskiptavild er 4 millj. sem er mjög lágt mat á slíku neti sem Ferðaskrifstofan hefur, dreifineti með nýjustu tækni eins og tölvuþjónustu víðs vegar um heim og sambönd við allar ferðaskrifstofur hingað og þangað. Það kostar svo mörgum sinnum meira að byggja það upp.
    Ég vil halda því fram að þetta fyrirtæki allra landsmanna hafi verið illa meðhöndlað við sölu.