Ummæli viðskiptaráðherra um gróðurvernd
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Þetta mál snýst ekki um það hvort þingmenn eru sammála eða ósammála um gróðurvernd og uppgræðslu landsins. Umræðan snýst ekki um það. Hún snýst um að það liggur hér fyrir að hæstv. viðskrh. hefur lýst því yfir að það eigi að beita bændur efnahagslegum þvingunum.
    Það kann vel að vera og er alveg vafalaust rétt að við gróðurvernd og uppgræðslu landsins kann það að vera eitt af þeim ráðum sem nauðsynlegt er að grípa til að takmarka beit, en það er óafsakanlegt og fordæmanlegt þegar ráðherra í ríkisstjórn Íslands lýsir því yfir að til þess að ná því marki eigi að beita bændur efnahagslegum þvingunum. Það er sú krafa sem hér er gerð að hann biðjist afsökunar á þessum ummælum og taki þau til baka.
    Ég sé að hv. 1. þm. Norðurl. v. kinkar kolli. Ég vil hins vegar taka það fram að bæði Framsfl. og Alþb., þar á meðal hv. 1. þm. Norðurl. v., bera stjórnskipulega ábyrgð á setu hæstv. viðskrh. og bera pólitíska ábyrgð á ummælum hans þangað til þau hafa verið dregin til baka. Það er sú krafa sem er gerð hér í dag til hæstv. ráðherra að hann dragi ummælin til baka og það er það sem máli skiptir í þessari umræðu.