Hvalveiðistefna Íslendinga
Föstudaginn 25. nóvember 1988

     Flm. (Árni Gunnarsson):
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram hér í Sþ. till. til þál. um endurskoðun á hvalveiðistefnu Íslendinga. Tillgr. er á þessa leið:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja þegar í stað endurskoðun á hvalveiðistefnu Íslendinga með það fyrir augum að stöðva vísindahvalveiðar um a.m.k. þriggja ára skeið. Sá tími verði notaður til að ljúka nauðsynlegum vísindarannsóknum án veiða og til aukinnar kynningar á málstað Íslendinga. Fulltrúum umhverfisverndarsamtaka verði gefinn kostur á að fylgjast með og taka þátt í þessum rannsóknum.``
    Í grg. till. segir á þessa leið:
    ,,Með þessum tillöguflutningi er réttur Íslendinga til hvalveiða ekki vefengdur. Það er hins vegar ljóst að hinar svonefndu vísindahvalveiðar hafa þegar stórskaðað hagsmuni íslenskra útflutningsfyrirtækja og þjóðarinnar í heild vegna áróðurs umhverfisverndarmanna gegn hvalveiðum. Á því er veruleg hætta að þessi áróður eigi enn eftir að auka á erfiðleika Íslendinga við sölu fiskafurða og fleiri vörutegunda á erlendum markaði og geti haft neikvæð áhrif á ferðir útlendinga til Íslands. Þó vegur það þyngst að leiða má að því gild rök að hinn góði orðstír íslenskrar þjóðar erlendis hafi beðið hnekki.
    Hvalveiðar hafa ekki lengur neina verulega efnahagslega þýðingu fyrir Íslendinga. Tekjur af sölu hvalaafurða voru á síðasta ári um 0,6 af hundraði heildarútflutnings. Tekjutap þjóðarinnar, sem má rekja beint til áróðurs gegn hvalveiðum, er hins vegar umtalsvert og mun að öllu óbreyttu fara vaxandi. Alþingi og ríkisstjórn verða að horfast í augu við þessar staðreyndir og taka ákvarðanir í samræmi við þær.``
    Virðulegur forseti. Talsvert er nú umliðið síðan þessi tillaga var lögð fram. Hér á þingi urðu nýlega talsverðar umræður um hvalveiðar okkar Íslendinga í tengslum við frv. til l. um bann við hvalveiðum. Við þær umræður tók ég skýrt fram að ég væri algerlega mótfallinn því að binda slíkt bann í lög, enda fjallar tillaga mín um tímabundna stöðvun hvalveiða.
    Megintilgangur þessarar tillögu er sá að við reynum að stöðva þann gegndarlausa áróður sem nú er beint gegn vísindaveiðum og um leið að skapa svigrúm til að koma málstað okkar á framfæri, til að útskýra afstöðu okkar til hvalveiða almennt og til að vinna samtök umhverfisverndarmanna á okkar band í stað þeirrar fásinnu að flokka aðgerðir þeirra undir glórulausa villimennsku og þá sjálfa sem hryðjuverkamenn. Ég held að það hljóti að vera einstakt að hópur fólks sem eyðir bæði kröftum og peningum til að koma í veg fyrir mengun þess hafs sem við sækjum lífsbjörgina í sé kallaður flokkur hermdarverkamanna.
    Ég er þeirrar skoðunar að í stað þess að virða samtök umhverfisverndarmanna ekki viðlits eigum við að taka aðgerðum þeirra í umhverfisverndarmálum fegins hendi og jafnvel að bjóða þeim aðstöðu hér á landi til að sinna því mikilvæga verkefni að stöðva hvers konar mengun Norður-Atlantshafsins. Við eigum

að starfa með þessu fólki en ekki gegn því.
    Virðulegi forseti. Að mínu mati erum við Íslendingar búnir að tapa stríðinu við umhverfisverndarsamtök á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum ef ekki verður stefnubreyting af okkar hálfu. Okkur mun ekki gagna að ræða við ríkisstjórnir þeirra landa þar sem veiðum okkar er mótmælt og það mun aðeins bera tímabundinn árangur að útskýra málin fyrir fiskinnflytjendum. Það er almenningur í þessum löndum sem ræður ferðinni. Látlaus áróður umhverfisverndarmanna við verslanir og veitingahús mun að lokum knýja eigendur þeirra til að hætta sölu á íslenskum framleiðsluvörum eða þá að þeir gera kröfu til þess að vörumerki Íslendinga sjáist ekki á umbúðum íslenskra vörutegunda. Íslensk stjórnvöld hafa gert virðingarverðar tilraunir til að koma málstað Íslendinga á framfæri, en ég hygg að það sé bæði of seint og of lítilvirkt. Þar að auki erum við ekki að tala við rétta aðila. Við eigum að ræða málin við samtök umhverfisverndarmanna. Það er upphafið og þar verður endir þessa máls.
    Það er mikil skammsýni að halda að milljónasamtök fólks, sem hefur ógrynni fjár til umráða, vel skipulagða hreyfingu, hæfileikafólk á sviði vísinda og áróðurs og stuðning meiri hluta þjóða að baki sér, verði brotin á bak aftur með sendinefndum stjórnarerindreka.
    Áður en lengra er haldið vil ég að það komi mjög skýrt fram að ég tel að Íslendingar eigi að halda hvalveiðum sínum áfram í samstarfi og samráði við Alþjóðahvalveiðiráðið. Ég veit að hér við land eru hvalastofnar sem með fyllsta öryggi má veiða úr dýr og nefni ég þá sérstaklega hrefnu og hnúfubak. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að vísindaveiðar okkar séu of dýru verði keyptar.
    Ég mótmæli því harðlega, sem fram hefur komið, að með því að draga í land með vísindaveiðar séum við að afsala okkur sjálfsákvörðunarrétti. Umdeilt upphaf þessara vísindaveiða er með þeim hætti að við getum með fullri reisn hætt þeim hvenær sem er á þeirri forsendu að nægra gagna hafi verið aflað, enda eigum við eftir að vinna úr talsverðu magni upplýsinga sem safnað hefur
verið. Ég skil vel sjónarmið þeirra manna sem segja að við getum ekki látið undan kröfum útlendinga um að við nýtum auðæfi hafsins á annan veg en við sjálf viljum. Sjálfur er ég ekki ýkja eftirgefanlegur þegar ég tel mig hafa réttinn mín megin, en ég álít það höfuðdyggð að taka rökum. Í þessu máli er betra að bogna örlítið en að brotna. Það má nefnilega alltaf rétta úr sér aftur.
    En lítum aðeins á upphaf vísindaveiða Íslendinga. Það var árið 1983 að Alþingi Íslendinga samþykkti með eins atkvæðis meiri hluta að mótmæla ekki samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins um bann við hvalveiðum í atvinnuskyni. Þá var það Halldór Ásgrímsson, núv. sjútvrh., sem var frsm. meiri hl. utanrmn. sem lagði til að banninu yrði ekki mótmælt. Áður en þessi ákvörðun var tekin höfðu Íslendingar orðið fyrir miklum þrýstingi og áföllum vegna aðgerða

hvalavina sem fögnuðu mjög ákvörðun Alþingis og hófu þegar herferð til að kynna þessa ákvörðun og hvetja fólk til að kaupa og borða íslenskan fisk.
    Um þessi mál ríkti síðan friður í rúmlega tvö ár. En þá gerðist það fyrirvaralítið að þáv. hæstv. sjútvrh. Halldór Ásgrímsson birti áætlun, sem sögð var frá Hafrannsóknastofnun, um hvalveiðar í rannsóknarskyni árabilið 1986--1990. Ekki er mér kunnugt um hvers vegna þessi ákvörðun var tekin eða hver var upphafsmaður þessarar hugmyndar. Og af hverju var þessi ákvörðun þá ekki tekin þegar í stað eftir að við hættum hvalveiðum?
    Fréttin um vísindaveiðarnar birtist í dagblaðinu NT, málgagni hæstv. sjútvrh., undir fyrirsögninni: ,,Hvalir verða veiddir þrátt fyrir bann.`` Sá skilningur hefur þá verið fyrir hendi að hér ríkti hvalveiðibann. Hvalfriðunarmenn urðu ókvæða við og töldu Íslendinga brjóta þær samþyktir sem þeir höfðu sjálfir ákveðið að undirgangast. Reiði í okkar garð magnaðist fljótt og aðgerðir gegn okkur hafa síðan stigmagnast. Íslendingar nutu og njóta enn virðingar fyrir verndun fiskstofna sem kristallaðist í baráttunni fyrir útfærslu landhelginnar. Þá nutum við stuðnings og samúðar þess fólks sem nú berst gegn okkur. Það er því gersamlega út í hött þegar menn eru að bera saman baráttu okkar fyrir útfærslu landhelginnar og vísindaveiðarnar. Það er eins og að bera saman svart og hvítt og telja sama litinn. Allt frá því að vísindaveiðarnar hófust hafa þær verið þjóð okkar til vandræða. Íslenskir vísindamenn, einkum líffræðingar, hafa ekki verið sammála um nauðsyn veiðanna, stór hópur talið þær með öllu ónauðsynlegar og jafnvel hefur túlkun okkar sjálfra á ályktunartillögu Alþjóðahvalveiðiráðsins verið vefengd. Reynt var að smygla íslensku hvalkjöti um Finnland til flutnings um Sovétríkin til Japans, þrátt fyrir bann finnskra stjórnvalda við innflutningi á hvalaafurðum til landsins. Umhverfismálaráðherra Finna tók á þessu máli af fyllstu hörku og fyrirskipaði að 196 tonn af hvalkjöti skyldu flutt þegar í stað frá Finnlandi og aftur til Íslands. Þetta mál tel ég að hafi orðið okkur til skammar. Ég þarf vart að nefna þá erfiðleika sem þetta mál hefur valdið í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna. Fyrst með málshöfðun grænfriðunga á hendur bandarískum stjórnvöldum og síðar með klaufalegum afskiptum bandarísks stjórnarerindreka af frjálsum viðskiptum Íslendinga og Japana.
    Eins og ég sagði áðan tel ég að orðstír okkar Íslendinga hafi beðið verulegan hnekki vegna þessa máls. Heimskunnir menn úr röðum þjóðhöfðingja, vísindamanna og stjórnmálamanna hafa legið okkur á hálsi fyrir þessar veiðar og fjölmiðlar um allan heim hafa dregið upp heldur ófélega mynd af Íslendingum. Einn af þekktustu hvalasérfræðingum samtímans, dr. John Gulland, segir í grein í tímaritinu New Scientist 29. október sl., og verður hann að teljast óhlutdrægur í þessu máli: ,,Óski hvalveiðiþjóðir þess að halda áfram hvalveiðum vegna viðskiptahagsmuna er þeim að líkindum fyrir bestu að horfast í augu við afleiðingar þess fremur en að klæða veiðarnar í

vísindalegan búning.`` Gulland rifjar upp að þegar hvalveiðiþjóðum þótti gengið á sinn hlut á sínum tíma hefðu þær teflt fram valkostinum um vísindaveiðarnar. Hann segir að vísindalegt gildi slíkra veiða sé í flestum tilvikum lítið. Engar rannsóknir sem lagðar hafi verið til séu líklegar til þess að efla umtalsvert vísindalega þekkingu á hvölum.
    Virðulegi forseti. Það er ekki á mínu færi að draga í efa vísindalegt gildi hvalveiða okkar en hvalaafurðir seldum við engu að síður á síðasta ári fyrir um 300 millj. kr. Á sama tíma seldum við niðurlagðar sjávarafurðir fyrir 1 milljarð 113 millj. kr., en það er einmitt lagmetið sem verst hefur orðið fyrir barðinu á þeim viðskiptahömlum sem á okkur hafa verið lagðar.
    En það eru ekki eingöngu erlendir vísindamenn sem telja vísindaveiðar lítils virði og gera því skóna að um sé að ræða veiðar í atvinnuskyni. 21 íslenskur líffræðingur hefur undirritað áskorun til ríkisstjórnar Íslands þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta: ,,Rannsóknir Hafrannsóknastofnunar á lifandi hvölum eru líklegar til að bæta verulega þekkingu á fjölda, útbreiðslu og atferli hvala og gera kleift að meta veiðiþol hvalastofna við landið. Sama verður ekki sagt um ,,vísindaveiðarnar``. Þrátt fyrir söfnun gagna með hvalveiðum í áratugi hefur ekki reynst unnt að ákvarða stærð og veiðiþol
hvalastofna hér við land. Núverandi veiðar í vísindaskyni breyta þar litlu um. Hvalveiðar okkar Íslendinga eru því ekki réttlætanlegar eins og á stendur og við teljum rangt að kenna þær við vísindi.``
    Við hljótum því að spyrja: Hvers vegna er svona mikið lagt í sölurnar til að halda þessum veiðum áfram? Er þetta þrjóska eða þjóðarstolt sem byggir á hæpnum kenningum um þjóðernisvitund þeirra réttlátu og þjóðníðingshátt þeirra ranglátu, fljótfæru og eftirgefanlegu? Hverjar eru afleiðingar áróðursins gegn okkur og stífni okkar sjálfra? Íslensk framleiðslufyrirtæki í sjávarútvegi hafa þegar orðið fyrir alvarlegu áfalli og þá um leið þjóðin öll. Forustumenn útflutningsfyrirtækja hafa tjáð mér að á því leiki enginn vafi að samningsaðstaða Íslendinga við erlenda kaupendur hafi stórversnað og að þetta mál kunni að hafa haft óbein áhrif til verðlækkunar á íslenskum afurðum. Áróðurinn gegn Íslendingum sé notaður til að þrýsta verði niður í harðri samkeppni. Við höfum ekki átt svar við áróðrinum gegn okkur. Starfsemi íslenskra sendiráða á erlendri grund er ekki mikil á markaðssviði, enda mannafli og fjárráð lítil.
    Sjálfur tel ég að ímynd okkar hafi beðið hnekki, fjármunum og vinnu til markaðsöflunar hefur verið eytt og sú hótun vofir yfir að áratuga starf verði að engu gert. Íslensk fyrirtæki í niðurlagningu hafa orðið fyrir verulegu áfalli. Erlend fyrirtæki hafa hætt að skipta við okkur. Í Bandaríkjunum má nefna Burger King með 50 þúsund veitingastaði, Long John Silver, Shop and Stop verslanakeðjuna í Boston, skólamötuneyti í Boston og víðar. Grænfriðungar telja einnig upp í áróðursbæklingum sínum Shony's-veitingahúsin sem eru 600 og Jerico með 1600 sölustaði sem hafi sagt upp 9 millj. dollara

samningi. Í Vestur-Þýskalandi má telja upp Tengelmann, Nordsee, Hans Warnholtz í Hamborg, Aldi-stórfyrirtækið hætti við að hætta en hefur nú óskað eftir því við Sölustofnun lagmetis að hún hætti að merkja framleiðsluvörur sínar með nöfnum sem minna á eða tengjast Íslandi.
    Íslensk fyrirtæki hafa farið inn á þá braut að selja undir erlendum merkjum, nota t.d. North Atlantic í staðinn fyrir Icelandic. Þetta þykir mér niðurlægjandi og nokkur ógnun við mitt þjóðarstolt. Vesturþýska fyrirtækið Igloo hefur beint viðskiptum annað en til Íslendinga. Lubbert í Hamborg lét í það skína í fyrradag að ekki yrði keypt af Íslendingum ef hvalveiðum yrði ekki hætt. Undir höndum hef ég skeyti og telexa sem sýna þetta svart á hvítu.
    Hvað er það sem fiskkaupendur óttast, hvort sem það eru verslanir eða veitingahús? Þeir óttast auðvitað að tapa viðskiptum og peningum. En fyrst og fremst vilja þeir ekki láta draga nöfn sín inn í áróðursherferðir umhverfisverndarmanna og skaða viðskiptavildina. Hvort sem þeir selja eingöngu fisk eða fisk og aðrar vörutegundir vita þeir að viðskiptavinir forðast að lokum sölustaði þar sem þeir verða fyrir stöðugu áreiti og hafa það á tilfinningunni að þeir séu að gera eitthvað rangt þótt vitneskja þeirra og þekking á Íslandi, hvalveiðum og íslenskum málstað eða málstað umhverfisverndarmanna í viðkomandi máli sé nákvæmlega engin.
    Lögmál viðskiptanna eru flókin og markaðir viðkvæmir, það þekkjum við best frá ormafárinu í Þýskalandi. Nú stöndum við frammi fyrir viðvarandi og vaxandi fári, svokölluðu hvalafári, endurteknum aðgerðum í Vestur-Þýskalandi 15. desember nk., í Bretlandi í þessum mánuði og næsta og í Bandaríkjunum í byrjun næsta árs. Keppinautar okkar á fiskmörkuðum eru varla harmi slegnir vegna þessara atburða.
    Þeir íslenskir menn, sem stunda útflutning, þekkja lögmál markaðarins og utanríkisviðskipta og hafa tekið þátt í samkeppninni, hafa miklar áhyggjur sem þeir hafa lýst opinberlega og í einkaviðræðum. Sama hafa Íslendingar búsettir erlendis gert. Þannig segir ungur háskólanemi í Freiburg í Vestur-Þýskalandi í blaðagrein: ,,Það er mikill misskilningur að andstaða við hvalveiðar takmarkist einvörðungu við illa upplýsta Bandaríkjamenn. Í Bretlandi og hér í Vestur-Þýskalandi er hún engu minni og jafnvel meiri og virðist vera sama hvar í stétt manna er borið niður. Raunar eru hvalveiðarnar eitt af því fáa sem kemur Íslandi í fréttir hér á landi og þær fréttir eru sannarlega ekki jákvæðar.``
    Félag íslenskra iðnrekenda hefur sent þingmönnum yfirlýsingu þar sem segir m.a.:
    Að mati stjórnar Félags íslenskra iðnrekenda virðist nú um tvo kosti að ræða í ljósi atburða að undanförnu. Annar kosturinn er að auka verulega kynningu á stefnu Íslendinga í þessu máli og röksemdum fyrir henni. Ef þetta verður ekki gert hlýtur hinn kosturinn að vera sá að taka núverandi stefnu til endurskoðunar.

    Á það er minnt að á undanförnum árum hafi framleiðsla á lagmeti farið ört vaxandi. Áætlað útflutningsverðmæti á þessu ári sé um 1,5 milljarðar kr. og sé það rúmlega þreföldun útflutningsverðmætis á síðustu sex árum, reiknað á föstu gengi. Á sama tíma hafi störfum í lagmetisiðnaði fjölgað úr 300 í rúmlega 400, auk þess sem talsverður fjöldi sjómanna afli hráefnis til þessarar
framleiðslu. Áætlað er að um helmingur lagmetisframleiðslunnar fari á Þýskalandsmarkað eða fyrir um 750 millj. kr. --- Virðulegur forseti. Ég á dulítið eftir af þessari ræðu. Ég skal reyna að hraða lestri mínum á henni, ella mun ég reyna að semja um það að fá að flytja það sem eftir er í síðari ræðutíma mínum, en þessu skal ég reyna að hraða eftir mætti. --- Sem dæmi er nefnt að fyrst árið 1986 hafi tekist að ná sölusamningi við fyrirtækið Tengelmann eftir margra ára tilraunir. Þetta fyrirtæki hafi nú ákveðið að stöðva kaup á íslensku lagmeti. Nú sé til í landinu fullunnin og frágengin vara, rækja og kavíar, að verðmæti 45 millj. kr. sem átti að fara til þessa fyrirtækis. Ekki er talið unnt að selja þessa vöru til annarra fyrirtækja eins og nú horfir. Verksmiðjurnar sem framleiddu þessa vörur eru Hik hf. á Húsavík, Pólstjarnan á Dalvík, sem nú hefur lokað, K. Jónsson og Co. á Akureyri, niðursuðuverksmiðja Böðvars Sveinbjarnarsonar á Ísafirði, Arctic hf. á Akureyri og ORA hf. í Kópavogi.
    Þá segir orðrétt: ,,Öll þessi fyrirtæki hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna þessa máls. Tjónið í framtíðinni gæti hins vegar orðið langtum meira og þá ekki aðeins í Þýskalandi heldur einnig á öðrum mörkuðum.``
    Í Fiskifréttum, 25. október, lýsa fiskvinnslumenn áhyggjum sínum. Ég ætla ekki að rekja þær. Það er nokkuð langt mál og vil ég ekki lengja ræðu mína með því. Þetta eru Jón Páll Halldórsson, framkvæmdastjóri Norðurtangans, og Vilhelm Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Akureyringa, ásamt Finnboga Jónssyni, framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.
    Virðulegi forseti. Ég get ekki látið hjá líða að gera að umræðuefni þann málflutning sem heyrst hefur, að við getum einfaldlega hætt að selja fiskafurðir til Evrópu og jafnvel Bandaríkjanna og snúið okkur að nýjum markaði í Asíu, einkum í Japan. Þetta er sagt á sama tíma og við erum að undirbúa viðræður við Efnahagsbandalagið um viðskipti okkar við innri markað bandalagsins eftir 1992. Það styrkir varla samningsstöðu okkar þegar ráðamenn hér láta að því liggja að við munum bara snúa okkur til Japana af því að Evrópumenn séu okkur svo vondir. Evrópubandalagið hefur átt í látlausu stríði við Japana og innflutning þeirra til Evrópu, þvingað þá til að draga úr innflutningi með kvótum vegna erfiðrar samkeppnisstöðu evrópskra fyrirtækja við japönsk. Sama gildir raunar um Bandaríkjamarkað. Í öllu frelsinu hafa Bandaríkjamenn nú vaxandi áhyggjur af stöðugt auknum ítökum Japana í bandarísku bankakerfi, kaupum þeirra á bandarískum fyrirtækjum.

Í tímaritinu Business Week frá 14. nóv. sl. er því haldið fram að Japanar ætli að nota Bandaríkin sem eins konar bakdyr inn í Evrópu. Þessar tilraunir Japana eru ekki til vinsælda fallnar í Evrópu né í Bandaríkjunum, en í báðum þessum heimsálfum eru áhyggjur ráðamanna vaxandi vegna fjármálalegrar útþenslu og áhrifa Japana. Íslenskir ráðamenn ættu að huga að þessari staðreynd áður en þeir hvetja til þess að við berum öll okkar egg í einni körfu, gefum hinum sígilda markaði okkar langt nef og leitum á vit Japana sem þegar hafa gert talsvert vart við sig hér á landi.
    Virðulegi forseti. Ég er alveg að ljúka máli mínu. Það væri vel þess virði að stikla á stóru um starfsemi náttúruverndarsamtaka á borð við grænfriðunga. Samkvæmt skoðanakönnunum njóta þessi samtök stuðnings yfirgnæfandi meiri hluta Vestur-Þjóðverja eða 65%. Sama gildir í fleiri Evrópulöndum. Grænfriðungar hafa komið við sögu í mjög mörgum umhverfisverndarmálum sem snerta okkur beint eða óbeint og gæti ég rakið það í löngu máli og mun gera það síðar.
    Barátta þeirra nýtur stuðnings og því miður hefur okkur ekki tekist að sannfæra grænfriðunga og önnur umhverfisverndarsamtök um það að okkar vísindaveiðar séu í góðu lagi. Ef einhverjum dettur í hug að miðað við óbreyttar forsendur takist okkur að vinna sigur í baráttunni við þessi samtök þaá tel ég það mikinn misskilning. Nú eigum við að rétta fram sáttarhönd og segja: Vegna þess að miklar áhyggjur hafa komið fram hjá umhverfisverndarmönnum víða um heim um að við Íslendingar stefnum hvalastofnum í útrýmingarhættu með vísindaveiðum viljum við sem fyrr sýna verndunarsjónarmið okkar í verki og lýsa yfir frestun hvalveiða næsta sumar a.m.k. án þess að afsala okkur nokkrum rétti. Við munum bíða eftir fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í San Diego næsta sumar og lýsa því yfir að við munum hlíta niðurstöðum hans sem og öðrum skynsamlegum niðurstöðum sem byggja á staðreyndum um hvalastofna. Jafnframt eigum við að bjóða umhverfisverndarmönnum til ærlegs samstarfs og kynna málstað okkar. Um þá kynningu hef ég sjálfur margar hugmyndir sem ég gæti lagt á borð nú þegar.
    Að lokum, virðulegur forseti. Það er öllum ljóst að við getum ekki haldið áfram óbreyttri stefnu.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. atvmn.