Hvalveiðistefna Íslendinga
Föstudaginn 25. nóvember 1988

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég tek undir þau orð hv. síðasta ræðumanns að það fer best á því í þessu máli að við tölum með gát. Ég harma þau upphlaup sem orðið hafa af þessu tilefni hér á Alþingi og mörg óvarkár ummæli sem hér hafa fallið eins og t.d. í þá veru að nýting okkar á hvalastofnum hafi stofnað þeim í hættu sem er auðvitað algjörlega rangt. Við höfum stundað hér hvalveiðar síðan 1949 og það sýndi sig, jafnvel meðan hvalbátarnir voru fjórir, að stofnarnir stóðu vel undir veiðinni þá og þeir vísindamenn sem á þeim tíma fylgdust með hvalveiðum okkar Íslendinga töldu að þær hefðu verið til mikillar fyrirmyndar, enda var innra eftirlit mikið með þeim veiðum og þess vandlega gætt að hvalir yrðu ekki of gamlir, heldur væri hægt að nýta þessar afurðir eins vel og nokkur kostur var þannig að þær yrðu sem verðmætastar í útflutningi og reynt að gæta þess að ekki bærist of mikið að í senn þannig að hráefnið skemmdist.
    Ég tek mjög undir þau sjónarmið sem hæstv. sjútvrh. hefur lýst hér úr þessum stóli og vil vænta þess að við berum gæfu til þess að leysa þetta mál þannig að það verði okkur til sóma og legg áherslu á það að utanrmn. vinni sín verk vel og að við alþm. reynum að ganga fram fyrir skjöldu á þann veg að við högum orðum okkar á engan veg með þeim hætti að skaði okkur í bráð né lengd og vara mjög við því að menn séu of fljótir að draga ályktanir eða séu með svartari liti en ástæða er til. Ég hef áður sagt að ég er þeirrar skoðunar að við eigum að halda áfram okkar vísindahvalveiðum á næsta ári og síðan verðum við að ákveða framhaldið á grundvelli þess. Ég vil einnig segja að auðvitað er nauðsynlegt, þegar um er að ræða átök eins og nú er erlend stórfyrirtæki bindast samtökum um að reyna að knýja okkur til þess að haga okkur öðruvísi en við viljum og höfum rétt til, að slíkur herkostnaður lendi ekki á þeim einstöku fyrirtækjum, heldur verði reynt að afla markaða erlendis og sjá um að það fólk sem við þau fyrirtæki vinnur verði ekki fyrir áföllum.