Afgreiðsla þingmála
Mánudaginn 12. desember 1988

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hv. 3. þm. Vesturl. er svo utan við sig að hann veit ekki einu sinni hvað sagt er beint fyrir framan hann, enda hefur það alloft komið fyrir að hann fari verulega rangt með það sem sagt er annars staðar. ( Gripið fram í: Og ekki undarlegt.) Ég minntist ekki einu einasta orði á ofbeldiskvikmyndir og að blanda barnavernd og öðru slíku inn í þessar umræður er auðvitað mjög undarlegt, óviðeigandi, smekkleysa. Hins vegar er það í samræmi við málflutning þessa hv. þingmanns yfir höfuð að tala þegar hann kemur hingað upp sem einhver hneykslunarhella. Honum er mjög gjarnt að hneykslast. Það er líka að sumu leyti eðli þess stjórnmálaflokks sem hann tilheyrir að vera alltaf að hneykslast á hlutum sem þeir gera sig svo óðar seka um sjálfir. Ég hygg að af tvennu séu flestir sammála um að þekkilegra sé það að nota sögnina að fokka þegar við á fremur en hitt að ætla mönnum hluti út í bláinn, jafnvel meiðandi hluti, án tilefnis. Ég hlýt því, herra forseti, að ætlast til þess að hv. þm. sé víttur fyrir það orðbragð sem hann viðhafði í sambandi við vernd barna og ungmenna og ofbeldiskvikmyndir hér áðan og þær aðdróttanir sem hann hafði í minn garð í því sambandi.