Heilbrigðisþjónusta
Mánudaginn 19. desember 1988

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 8/1988, um breytingu á lögum nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu.
    Í fyrstu lögum um heilbrigðisþjónustu, sem öðluðust gildi 1. jan. 1974 og skipuðu m.a. fyrir um starfrækslu heilsugæslustöðva, var gert ráð fyrir því að nokkurn tíma gæti tekið að koma á fót heilsugæslustöðvum og var því að finna í lögunum ákvæði til bráðabirgða er heimiluðu rekstur heilsuverndar samkvæmt heilsuverndarlögum frá 1955 og rekstur læknamóttöku. Með breytingum á lögunum sem samþykktar voru 1983, sbr. núgildandi lög nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu, var ákveðið að frestur til þess að koma á kerfi heilsugæslu skyldi renna út í árslok 1984. Frá 1985 hefur þurft að framlengja þennan frest frá ári til árs fyrir nokkur umdæmi, en þeim hefur farið fækkandi og er nú aðeins eftir að taka ákvörðun um heilsugæslu í Reykjavíkurlæknishéraði.
    Frá 1985 hefur verið hafinn rekstur heilsugæslu á Akureyri, í Kópavogi, í Hafnarfirði og frá og með næstu áramótum verður hafinn rekstur heilsugæslu í Garðabæ í samræmi við samkomulag ráðuneytisins við bæjarstjórn Garðabæjar þar að lútandi.
    Á sl. vori varð að samkomulagi milli ráðuneytisins og borgarstjórnar Reykjavíkur að hefja viðræður um lausn þessa máls í Reykjavíkurlæknishéraði. Í lok síðasta mánaðar var lagt fyrir ráðuneytið uppkast að samkomulagi sem fulltrúar ráðuneytisins og meiri hluti fulltrúa Reykjavíkurborgar stóðu að. Ég sé ekki ástæðu til að tíunda þær tillögur, sem fram komu í uppkastinu, hér og nú, en ekki vannst tími til þess að ganga frá málinu og ljóst er að svo verður ekki fyrir áramót, en þá rennur fresturinn til að koma á kerfi heilsugæslu í Reykjavíkurlæknishéraði út.
    Sem kunnugt er eru fyrirhugaðar breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og verður bráðlega lagt fram frv. þess efnis. Þar verða væntanlega lagðar til verulegar breytingar á rekstri heilbrigðisþjónustunnar þannig að hún færist í auknum mæli yfir á verksvið ríkisins. Slík breyting mála hefði í för með sér gerbreytt fyrirkomulag á rekstri heilsugæslunnar. Með skírskotun til þessa telur ráðuneytið eðlilegt að bíða með frekari tillögugerð varðandi rekstur heilsugæslu í Reykjavík, en leggur þess í stað til að fresturinn verði framlengdur í eitt ár frá og með nk. áramótum. Á vegum ráðuneytisins er verið að vinna að frv. til breytinga á lögum um heilbrigðisþjónustu þar sem m.a. verða teknar með breytingar sem eðlilegar teljast vegna breyttrar verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga og breytingar sem æskilegt er að komið verði á að fenginni reynslu undangenginna ára. Ég reikna með því að þetta frv. verði lagt fram fljótlega eftir áramót og að í því verði gerð tillaga um fyrirkomulag heilsugæslumála í Reykjavíkurlæknishéraði sem hlýtur að byggjast á því hvert eigi að vera hlutverk annars vegar ríkis gagnvart rekstri heilsugæslu og hins vegar sveitarfélaganna.

    Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta frv. frekari orðum, en hliðstæð frumvörp hafa verið árviss atburður frá 1985. Að vísu fækkar þeim stöðum frá ári til árs sem ekki hafa uppfyllt ákvæði laganna og í dag er eingöngu eftir að taka afstöðu til Reykjavíkurlæknishéraðs eins og áður segir.
    Herra forseti. Ég legg því til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og heilbr.- og trn. með beiðni um að hún hraði meðferð málsins og afgreiði það með skjótum hætti. Málið hefur þegar verið afgreitt í Nd. og þar sem margumræddur frestur rennur út frá og með nk. áramótum er bæði æskilegt og reyndar nauðsynlegt að hraða þessu máli nú.