Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Mánudaginn 19. desember 1988

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Herra forseti. Hér er sannarlega á ferðinni mikilvægt mál og ber að fagna því að frv. er þannig kynnt að þinginu gefst nægur tími til að fjalla um það og sömuleiðis að hægt sé að kynna það vel hinum ýmsu sveitarfélögum. Að vísu kom fram í máli hæstv. ráðherra og einnig í máli hv. 6. þm. Reykn. að þetta mál hefði þegar verið kynnt sveitarfélögunum. Bréf barst þó frá stofnfundi héraðsnefndar Norður-Þingeyinga, sem haldinn var á Þórshöfn 29. nóv., sem skoraði á stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga að kynna rækilega þegar í stað stöðu mála varðandi verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og virðast a.m.k. þeir hreppar í sveitarfélaginu norður þar ekki hafa fengið næga kynningu á þessu máli. Víst er það jákvætt að sveitarfélögunum gefist bæði gott rúm og næg tækifæri til þess að fjalla um hinar ýmsu hliðar málsins því þetta er sannarlega mál sem á sér margar hliðar sem allar er vert að gaumgæfa.
    Ég verð hins vegar að segja að mér finnst þetta afleitur tími til að kynna málið og verð að telja það óheppileg vinnubrögð að leggja það fram svona rétt í þinglok í miklum önnum þar sem ekki gefst nægur tími til að gaumgæfa það eins og það á skilið við 1. umr., jafnvel þó svo það hafi verið til umfjöllunar á undanförnum áratugum eins og hv. 6. þm. Reykn. tók fram. Ég verð einnig að nefna að mér finnst óheppilegt að frv. sé lagt fram í Ed. þar sem félmn. Nd. og Nd. höfðu málið til umfjöllunar í fyrra og höfðu lagt ómælda vinnu í að kynna sér hin ýmsu atriði þess og rætt það bæði á fundum í deildinni og eins í nefnd. Mikil forvinna hefur þannig verið lögð í málið þar en hér er það hins vegar í frumvinnu. En þetta er viðamikið mál sem hefur ýmsar hliðar og margar umdeildar.
    Frv. sem lagt var fram í fyrra var að ýmsu leyti ekki nægilega vel undirbúið og var gagnrýnt þess vegna, einkum hvað varðar umfjöllun um verkefni sem fyrst og fremst voru flutt af ríkinu yfir á sveitarfélögin en hlutur ríkisins var látinn liggja á milli hluta. Í þessu frv. er hins vegar tekið tillit til beggja aðila og er það vel og þar með raunverulegrar verkaskiptingar gætt og betri skil gerð milli þessara stjórnunaraðila. Sömuleiðis fylgir hér frv. um tekjustofna sveitarfélaga og er málið því nú mun fullkomnara og betur lagt fram og ber að fagna því.
    Í frv. eru gerðar veigamiklar breytingar hvað varðar skiptingu stofnkostnaðar og rekstrarkostnaðar, t.d. í skóla- og heilbrigðismálum, og er margt að athuga í þessum efnum.
    Það hefur lítill tími gefist til að athuga frv. og fylgifrv. þess en ég vil þó nefna nokkur atriði sem vert er að gefa gaum.
    Uppbygging skólamannvirkja, heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa er mjög misjafnlega á veg komin í hinum ýmsu sveitarfélögum. Má t.d. minnast á höfuðborgarsvæðið hvað varðar uppbyggingu heilsugæslustöðva, ekki síst vegna þess að hér í deildinni var einmitt í dag mælt eina ferðina enn fyrir frv. um frestun gildistöku laga um heilbrigðisþjónustu.

Þetta frv. varðar uppbyggingu heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu sem hefur verið vanrækt hingað til og hafa samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu t.d. gert athugasemdir vegna þessa. Hin ýmsu sveitarfélög eru þannig afar misvel stödd þegar þeim er ætlað að taka að sér breytt og aukið hlutverk hvað varðar fjármögnun.
    Hins vegar finnst mér það að mörgu leyti góð hugmynd sem fram kemur í 4. gr. frv. þar sem sveitarfélögunum er ætlað að taka að sér ríkara hlutverk í sambandi við stofnkostnað heilsugæslustöðva. Ég held að það sé til bóta. Það hefur verið uppi gagnrýni á það að sveitarfélög hafa ráðist í of veigamiklar eða viðamiklar framkvæmdir vegna þess að mikill hluti stofnkostnaðar var greiddur af ríkinu en sveitarfélögin gátu síðan ekki staðið undir rekstrarkostnaði þegar fram í sótti.
    Hvað varðar 5. gr. er þar atriði sem ég tel líka til bóta sérstaklega hvað varðar samrekstur heilsugæslu og sjúkrahúsa þar sem um slíkt er að ræða.
    Ég vil aðeins nefna hér örfá atriði í frv. þó að vissulega væri ástæða til að minnast á fleiri. Ég vil gjarnan minnast á 60. gr. X. kaflans sem varðar rekstur dagheimila. Mér þætti eðlilegt að ríkissjóður greiddi þar laun forskólakennara eða fóstra eins og gert er í grunnskólum. Sömuleiðis tel ég í sambandi við 68. gr., er varðar tónlistarskóla, að í fyrsta lagi sé eðlilegt að tónlistarkennsla verði tekin inn í grunnskólana og tónlistarkennurum því greidd svipuð laun og grunnskólakennurum.
    Hvað varðar 61. gr., sem snertir byggingu og fyrirkomulag á rekstri dagheimila og að sveitarstjórnir ákveði rekstrarfyrirkomulagið, þá tel ég mjög mikilvægt að dagheimilin geti fylgt ákveðinni uppeldisáætlun sem nú þegar er til fyrir dagvistarheimili. Mér er t.d. ekki ljóst af þessu frv. hvort menntmrn. geti haft hönd í bagga með ákvörðun fyrirkomulags á dagheimilum til þess að tryggja lágmarksstaðal. Ég held að það sé mjög mikilvægt.
    Þetta eru fáein atriði sem þarf að huga að og örugglega eru mörg önnur sem gera mætti athugasemdir við en ég sé ekki ástæðu til þess nú, bæði vegna þess að það hefur ekki gefist nægilegur tími til að gaumgæfa þessar breytingar í lokaönnum þingsins og ég vil ekki tefja fyrir framgöngu málsins því ég tel
mjög nauðsynlegt að það komist til nefndar. Það hafa verið nokkur mál á ferðinni hér í deildinni sem orðið hefur að fresta eða tefja einmitt vegna þess að það vantar nánari skilgreiningu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
    Í meginatriðum tel ég frv. til mikilla bóta og tek heils hugar undir þau markmið sem koma fram í athugasemdum, markmið þeirra nefnda sem unnu að málinu upphaflega. Þar er lögð megináhersla á aukna valddreifingu og sjálfstæði sveitarfélaga, fjárhagslega ábyrgð, jafnframt því sem ákvarðanataka fer fram heima í héraði. Það varðar auðvitað öllu að sveitarfélögunum sé tryggt nægilegt fé þannig að þessi ákvarðanataka verði ekki marklaus. Það hlýtur að

þurfa að gæta vel að því að Jöfnunarsjóðurinn verði í raun til tekjujöfnunar og geti stutt sveitarfélögin til þeirra framkvæmda sem nauðsynlegar eru.
    Þar sem Kvennalistinn á ekki fulltrúa í hv. félmn., en ég tel mjög nauðsynlegt að við getum fengið að fjalla um þetta mál og leggja þar okkar af mörkum, vil ég biðja um áheyrnaraðild að nefndinni fyrir hönd Kvennalistans þegar þetta mál verður tekið til umfjöllunar þar.