Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Mánudaginn 19. desember 1988

     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Ég vil taka undir þá ósk hæstv. félmrh. að þetta mál fái greiða leið í gegnum umræðurnar og hægt verði að koma því til umsagnar til sveitarstjórna á meðan jólafrí þingmanna stendur yfir. Ég held að mjög nauðsynlegt sé að málið fái þá afgreiðslu. Að mörgu leyti er þessu máli þannig varið að almenn umræða hér í þinginu er kannski ekki til mikils meðan ekki liggja fyrir umsagnir sveitarstjórna um frv.
    Það má vel vera að þetta frv., og ég efast ekkert um það, sé betur unnið og markvissara en það frv. sem hér var til umfjöllunar í fyrra og, eins og hv. þm. vita, náði það ekki fram að ganga. Ég geri því ekki skóna að eins verði með þetta frv. en til þess að hægt sé að skoða þetta mál rækilega held ég að jafnnauðsynlegt sé að komnar verði umsagnir sveitarstjórna um málið.
    Rökin fyrir breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga hafa verið margvísleg og sum hver svolítið brosleg. Eitt af því sem jafnan er haldið fram, ég held ég hafi heyrt það hér í umræðum a.m.k. í tvígang, er að sum af þeim verkefnum sem sveitarfélögin hefðu með ríkinu væru á þann veg að þau væru að vissu leyti hvati til þess að sveitarfélögin gerðu meira en þau hefðu síðan raunverulega efni á að standa undir þegar búið væri að koma upp einhverjum stofnunum. Ég held að þetta sé eitt af því sem er ansi mikill misskilningur þó að þetta hafi verið notað sem rök fyrir því að það þyrfti að breyta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég held að það sé algjör undantekning ef það hefur átt sér stað að sveitarfélög hafa verið að reisa sér hurðarás um öxl á þann veg að gera meira en þörf hefur verið á að gera. Aftur á móti getur verið að sveitarfélögin hafi undir vissum kringumstæðum ekki haft bolmagn til þess að reka þær stofnanir sem byggðar hafa verið en það hefur ekki verið vegna þess að þær stofnanir hafi verið byggðar of stórar heldur vegna þess að sveitarfélögin hafa ekki haft þá tekjustofna sem hefði þurft til þess að standa undir rekstri þeirra stofnana.
    Það er vitaskuld hægt að nefna ýmsa hluti sem þarf að skoða vel og verður ábyggilega fjallað um síðar þegar málið verður rætt í nefnd og við 2. umr. í hv. deild. Ég get lýst þeirri skoðun að ég tel mjög vafasamt að færa dagvistun algjörlega til sveitarfélaganna. Mín skoðun er eins í sambandi við tónlistarskóla. Ég tel að þróunin í tónlistarkennslu úti um land hafi verið á þann veg að það sé mjög vafasamt að hverfa frá því eins og það hefur verið. Það er eitt af því fáa sem landsbyggðin getur stært sig af að hafa komist lengra áleiðis en þéttbýlissvæðið hér við Faxaflóa. Víða úti um land er meira framboð í tónlistarkennslu og tónlistarstarfi í tónlistarskólum en er hér á þessu svæði og eins og ég sagði hefur þetta verið eitt af því sem landsbyggðin hefi getað stært sig af að vera með á betri veg heldur en þéttbýlið hér við Faxaflóa.
    Ég kvaddi mér fyrst og fremst hljóðs hér til þess að benda á kaflann um landshafnir. Mér finnst nokkuð

vafasamt að það sé hægt að samþykkja lög eða ákvarða um landshafnirnar á þann veg sem lagt er til í frv. Staðreyndin er sú að þarna eru fyrir stofnanir sem ég held að sé ekki beinlínis hægt að gefa eða afhenda án þess að á undan hafi gengið samningar við þau sveitarfélög sem þarna er til að dreifa. Mér er kunnugt um það að þó að það sé ákvæði í hafnalögum um það að samgrn. eigi að hefja samninga við þessi sveitarfélög, þá er það mjög skammt á veg komið a.m.k. við þá höfn sem ég þekki best, þ.e. landshöfnina á Rifi, og ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að einmitt á næstu vikum sé gengið í þennan þátt, að gera samninga milli sveitarfélaganna sem þessar landshafnir eru í. Ég tel jafnvel að það sé komið eitthvað áleiðis í Keflavík og Njarðvík. En það er ekki hægt beinlínis að samþykkja með lögum að þetta eða hitt sveitarfélagið skuli taka á móti höfn. Ég held að þar verði að vera samkomulag beggja, ríkisins og viðkomandi sveitarfélags áður en lög eru sett um það hér á hv. Alþingi.
    Það er svo staðreynd að í sambandi við landshafnirnar hafa framkvæmdir við þessar hafnir, vegna ákvæðisins í hafnalögum um það að samgrn. skuli hefja samninga við þessar hafnir, næstum því alveg legið niðri frá 1984. Því er staða hafnanna mun verri en gera hefði mátt ráð fyrir að væri ef þetta ákvæði hefði ekki verið í hafnalögum, þetta hefði ekki vofað yfir. Menn höfðu verið að búast við því að þarna færi eitthvað að gerast og allir hlutir voru í biðstöðu. Ég taldi ástæðu til þess að benda á þetta atriði. Ég tel mjög vafasamt að það verði bundið í lögum að þessir hlutir skuli eiga sér stað í sambandi við yfirtöku hafnanna án þess að áður hafi verið gengið frá samningum við viðkomandi sveitarfélög.