Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég skal virða það samkomulag sem hefur orðið á milli þingflokkanna um það að menn séu ekki að tala hér of lengi eða með neinar maraþonræður, en ég hlýt að taka til máls um þetta frv. því þetta er einn af þeim skattapinklum sem núv. ríkisstjórn er að leggja á atvinnulífið. Það er eins og sagt hefur verið hér fyrr í umræðunni og hv. þm. Halldór Blöndal kom vel og réttilega inn á að stöðugt er verið að íþyngja atvinnulífinu með sköttum og nú er verið að fjalla hér um sérstaklega skatt sem mun leggjast hart á verslun almennt en þó alveg sérstaklega strjálbýlisverslunina.
    Hv. þm. Halldór Blöndal ræddi m.a. um verslun samvinnuhreyfingarinnar á Akureyri, KEA. Hann kom réttilega inn á það að samvinnuhreyfingin hefur verið mjög umsvifamikil í strjálbýlinu, svo ekki sé meira sagt, á undangengnum árum, hefur lagt í miklar fjárfestingar við það að byggja upp verslunarhúsnæði víðs vegar á landinu. Nú hefur það gerst, ég segi illu heilli fyrir þá hreyfingu og landsmenn í heild, að þær breytingar hafa orðið í samgöngum að þessi fjárfesting hefur ekki nýst sem skyldi. Harma ég það að sjálfsögðu þó að ég sé ekki neinn sérstakur talsmaður samvinnuhreyfingarinnar, hvorki hér á hinu háa Alþingi né annars staðar. Þess vegna er það mjög undarleg ráðstöfun af hæstv. ríkisstjórn að koma með þessa íþyngingu með þeim hætti sem birtist í þessu frv. Ég satt að segja furða mig á því að þeir sem hafa talað máli samvinnuhreyfingarinnar hér á þingi skuli ekki átta sig á því að ofan á raunir samvinnuhreyfingarinnar, sem eru miklar eins og við vitum allir hv. þm., á nú að bæta einum skattinum til viðbótar sem gerir stöðu hennar enn verri. Þetta er furðuleg ráðstöfun svo ekki sé meira sagt. Á sama tíma sem það blasir við að þessi fjárfesting hefur átt sér stað, sérstaklega hjá samvinnuhreyfingunni í strjálbýlinu, hefur velta minnkað vegna bættra samgangna, þannig að strjálbýlisfólk kemur meira til Reykjavíkur og inn á Reykjavíkursvæðið og gerir sín stórinnkaup. Ég veit ekki hvort hv. þm., sem telja sig sérstaka talsmenn samvinnuhreyfingarinnar, hafi áttað sig á þessari stöðu nægilega vel þegar þeir samþykktu það í þessu stjórnarsamstarfi að leggja þennan skatt á.
    Ég vil svo víkja nokkrum orðum að verslun hér í þéttbýlinu. Það er lenska, ég segi því miður, að alltaf þegar verslunin hefur frumkvæðið um nútímauppbyggingu, nútímaviðskiptahætti, eru hér ákveðnir menn á hinu háa Alþingi sem rísa upp og ráðast á þessar framfarir. Það kemur mér ekki á óvart þótt alþýðubandalagsmenn geri það eða svokallaðir skrifstofusósíalistar. Það eru þessir nútímastjórnmálamenn sem koma beint ég vil segja úr ýmsum stöðum hjá hinu opinbera og gerast hér talsmenn þess að skattleggja þjóðina stöðugt meira. Þessum sömu ágætu mönnum, sem greinilega ráða ferðinni í núv. ríkisstjórn, finnst sjálfsagt að fjárfesta meira hjá hinu opinbera, en þeir eru líka ætíð reiðubúnir til þess að ráðast á þær fjárfestingar sem eiga sér stað úti í atvinnulífinu, hvort sem það er hjá

verslun, sjávarútvegi eða annars staðar. Yfirleitt fjandskapast þessir menn við atvinnulífið í sambandi við uppbyggingu þess og gera meiri kröfur til þess en þeir gera til sjálfra sín.
    Ég vil þess vegna við þessa umræðu láta það koma fram að ég er eindregið á móti þessari skattlagningu yfirleitt. Ég vil afnema þessa skattlagningu á atvinnulífinu og alveg sérstaklega hlýt ég að tala gegn því að skatturinn sé þar af leiðandi hækkaður. Sú skattheimtustefna sem núv. ríkisstjórn fylgir mun keyra niður lífskjör þjóðarinnar og hún mun keyra niður stöðu margra fyrirtækja og draga þróttinn úr mönnum til athafna úti í atvinnulífinu. Þess vegna segi ég, virðulegi forseti: Það er tími til kominn að þeir menn, alla vega af stjórnarstuðningsmönnum, sem hafa sérstaklega borið fyrir brjósti stöðu samvinnuhreyfingarinnar, átti sig á hennar stöðu. Við hinir gerum okkur grein fyrir heildarstöðunni og munum þess vegna greiða atkvæði gegn þessari skattheimtu.