Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Það tekur að halla á nóttu og ég tel því ekki ástæðu að flytja langa ræðu og skal reyna að gerast stuttorður, enda er í raun og veru óþarfi að lýsa í löngu máli þeirri andstöðu sem ég hef við þetta skattafrv. og reyndar skattafrv. ríkisstjórnarinnar yfirleitt. Ég geri mér hins vegar vel grein fyrir, eins og ég sagði hér í ræðu áðan um vörugjaldsfrv., að þetta er liður í þeim vandræðum sem við erum í með ríkisfjármálin. Það er alveg sama hvernig við förum að, við höfum misst stjórn á ríkisfjármálunum og hér er gerð örvæntingarfull tilraun til að loka ríkisfjármálagatinu með því að hugsa upp einhverjar nýjar leiðir til að afla meiri tekna. Ég spái því, og í raun og veru er alveg sama hvaða ríkisstjórn verður við völd hér að ári liðnu, að hún muni grípa til álíka örþrifaráða um þetta leyti árs til að auka tekjur ríkissjóðs. Því miður virðist þetta vera orðin þróun sem enginn ræður neitt við.
    Ég þarf ekki að hafa mörg orð um tekjuskatt einstaklinga. Við erum að ljúka fyrsta staðgreiðsluárinu og ég er ekkert að draga dul á að ég var einn þeirra sem höfðu miklar efasemdir um innleiðslu á staðgreiðslukerfi skatta. Ég taldi það stórhættulegt og það gæti einmitt orðið til þess að með dulbúnum hætti yrðu tekjuskattar einstaklinga og fjölskyldna stórauknir. Nú verð ég að segja eins og er að það kom mér þægilega á óvart að þessi breyting á skattkerfi í staðgreiðslukerfi skatta virtist takast nokkuð vel þetta fyrsta ár a.m.k. hvað mig sjálfan varðar. Mér finnst þetta vera frekar þægilegt. En ég er hræddur um að með þeim breytingum sem nú er verið að gera sé aftur verið að reyna að þyrla upp moldviðri í kringum tekjuskattinn þannig að það sé verið að reyna að gera það óljósara hver tekjuskatturinn í rauninni er. Nú er horfið frá því að verðbinda persónuafsláttinn og ýmsar bætur sem eru greiddar í staðgreiðslukerfinu og í staðinn tekin upp skattvísitalan gamla sem er gamall kunningi. Það er mjög tortryggilegt því að með skattvísitölunni er einmitt þægilegra að gabba almenning og koma á skattahækkunum í gegnum hana á laumulegan hátt.
    Hæstv. fjmrh. heldur því fram að það sé í raun engin skattahækkun, þ.e. ríkið njóti ekki neinnar hækkunar sem verður við breytingu á tekjuskatti einstaklinga og fjölskyldna því að þeir fjármunir sem koma til ríkisins umfram það sem gamla kerfið hefði skilað af sér fari allir til þess að greiða auknar barnabætur, húsnæðisbætur og persónuafslátt með meiru. Ég er mátulega trúaður á þessa staðhæfingu og á eftir að sjá að hún rætist.
    Hvað varðar tekjuskatt fyrirtækja þarf heldur ekki að hafa mörg orð um það. Hér eru tekjuskattar á fyrirtæki auknir verulega með tvennum hætti, fyrst og fremst með því að hækka álagningarhlutfallið um 2%. Það lítur í sjálfu sér frekar sakleysislega út og það er rökstutt með því að vegna þess að skattálagning á einstaklinga og fjölskyldur hækkar um 2% eigi hún að gera það á fyrirtækjunum líka. En miklu alvarlegri er sú breyting sem er fólgin í því að það er takmörkuð

sú heimild að taka 30% af skattskyldum tekjum og leggja í fjárfestingarsjóð hjá fyrirtæki. Í raun og veru er verið að hækka skatthlutfall fyrirtækja verulega með þessari einu breytingu og miklu meir en sjálf hækkunin á álagningunni gefur til kynna. Þetta er mjög alvarleg breyting og líkleg til þess að valda því að fyrirtæki muni eiga erfiðara uppdráttar í framtíðinni. Það verður erfiðara fyrir fyrirtæki að standa undir nauðsynlegri endurnýjun og nauðsynlegum viðbótum sem hlýtur að vera í öllum heilbrigðum atvinnurekstri, en öll fyrirtæki þar sem allt gengur eins og ganga á hljóta að þurfa að hafa fjármuni til þess bæði að endurnýja húsakost, vélar og tæki og bæta við sig.
    Hún er annars mjög athyglisverð umræðan um efnahagsmál sem fer fram í þessu landi. Það er alltaf verið að tala um þensluna sem einhvern allsherjaróvin okkar. Þenslan er talin valda því að efnahagslífið er yfirhitað og ríkisfjármálin í ólagi og það er skammt þess að bíða að gjaldþrotið sé fram undan. Allt er þetta þenslunni að kenna. En spurt er: Er það ekki einmitt dæmi um heilbrigðan atvinnurekstur þegar er þensla í einhverju fyrirtæki, þegar fyrirtæki blómstrar, það stækkar, það bætir við sig, það kaupir aukinn vélakost vegna aukinnar framleiðslu og það þarf aukið húsnæði vegna þess að fyrirtækið stækkar og dafnar? Þetta er ekki þensla. Þetta er merki um að atvinnulífið sé heilbrigt. En hér er verið að stuðla að hinu gagnstæða, þ.e. að íþyngja fyrirtækjunum og koma í veg fyrir að þau fái að blómgast og dafna með eðlilegum hætti. Hvaða afleiðingu hefur það svo í för með sér? Jú, það hefur þá afleiðingu í för með sér að hagnaður fyrirtækjanna minnkar og þau hljóta að þurfa að draga saman seglin og ein skelfileg afleiðing slíks er aukið atvinnuleysi því að fyrirtækin munu að sjálfsögðu reyna að fækka starfsmönnum, draga saman launakostnað o.s.frv.
    Síðan er síðasta atriðið í frv. til laga um breytingar á tekjuskatti og eignarskatti, bæði einstaklinga og fyrirtækja, sem mig langar til að gera sérstök skil, en það er eignarskattur einstaklinga sem eru taldir eiga óþarflega stórar og miklar eignir. Frv. gerir ráð fyrir að setja sérstakan
eignarskattsauka á einstaklinga sem eru með hreina eign --- eftir þær breytingar sem gerðar voru í Nd. eru þessi mörk 7 millj. kr. Það sem telst vera hrein eign umfram þá upphæð verður skattlagt með 2,7%, en hjá hjónum er þetta mark komið upp í 14 millj. Þetta kann að vera að áliti margra sanngjarnt, að þeir sem eigi svona miklar eignir séu ekkert of góðir til að borga, en ég held að það væri hollt að staldra við og velta því fyrir sér hvernig þessar eignir hafa orðið til.
    Hér er oft um að ræða fólk sem með dugnaði, eljusemi og sparnaði hefur náð að koma sér upp þokkalegu húsnæði og húsnæðið heldur verði sínu. Undanfarin ár hefur það reyndar gerst að húsnæði sérstaklega hérna á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað mjög í verði þannig að allt í einu stendur einstaklingurinn og eða fjölskyldan frammi fyrir því að sú húseign, þ.e. íbúðarhúsnæðið sem fjölskyldan á

og býr í eða einstaklingurinn, er allt í einu orðið svo verðmætt að það telst orðið nauðsynlegt að skattleggja það sérstaklega. Þetta húsnæði er upphaflega keypt fyrir fjármuni sem er búið að borga tekjuskatt af. Þetta eru þær afgangstekjur sem einstaklingurinn eða fjölskyldan lagði til hliðar eftir að hafa borgað skatt af tekjum sínum til að geta byggt annaðhvort húsið eða keypt íbúðina. Og ekki nóg með það. Einstaklingurinn og fjölskyldan hefur samhliða þessu þurft að borga söluskatt af öllum þeim búnaði og byggingarefni sem fór til íbúðarinnar. Þannig er búið að borga bæði skatt af þeim peningum sem fóru til fjárfestingarinnar og það er búið að borga sérstakan söluskatt af öllu því efni sem fór til íbúðarinnar. Svo á nú að taka sérstakan eignarskattsauka. Það má segja að þetta sé þriðji skatturinn sem er lagður á íbúðarhúsnæði þeirra einstaklinga og fjölskyldna sem lenda í þessu aukna skattþrepi.
    Þingmenn Borgfl. í Nd. hafa flutt brtt. við þessi ákvæði frv. sem miðar sérstaklega að því að gera tilraun til að jafna þetta þannig að þetta leggist jafnt á fólk hvar sem það býr á landinu, en það er alveg ljóst að þessum nýja eignarskatti er stefnt sérstaklega gegn íbúum höfuðborgarsvæðisins. Þeim er kennt um að hér skuli fasteignir vera metnar hærra til verðs en annars staðar á landinu. Það er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt. Það er svo í flestum löndum að fasteignir í þéttbýli verða oft verðmeiri en fasteignir í dreifbýli. En spurningin er sú: Er einhver ástæða til að skattleggja það sérstaklega þó að fasteignin hér í þéttbýlinu sé orðin verðmeiri en fasteignin sem er í dreifbýli eða einhvers staðar úti á landi? Þetta er íbúðarhúsnæði sem báðir aðilar búa í og þeir hafa engar tekjur sérstaklega af því þó að það kunni kannski að vera gaman að vita af því að húsið eða íbúðin skuli vera svona verðmikil.
    Ég held að þetta sé með því ósanngjarnara sem við höfum séð í þessum skattafrv. ríkisstjórnarinnar. Hér er um gífurlega skattheimtu að ræða hjá þeim sem lenda í þessu, en það munu vera um 6 þús. einstaklingar sem munu þurfa að borga skatt vegna þessa sérstaka eignarskattsauka af eignum sem eru taldar vera yfir 7 millj. hjá einstaklingum eða 14 millj. hjá hjónum.
    Við höfum gert tilraun til að jafna þetta þannig að þetta leggist jafnþungt á alla íbúa landsins með því að í stað þess að nota fasteignamat viðkomandi íbúðar eða húsnæðis verði tekið upp svokallað endurstofnverð íbúðar eða húss þannig að þessi skattur verði lagður á endurstofnverðið sem er þá eins hvar sem er á landinu. Ég veit að landsbyggðarþingmennirnir hafa mótmælt þessu kröftuglega. Þeim finnst að sjálfsögðu allt í lagi að við íbúar höfuðborgarsvæðisins borgum vegna þess að íbúðir okkar eru dýrari í verði, fasteignamat þeirra er hærra en gerist úti á landi, en þeir virðast gleyma því að þetta skiptir í rauninni engu máli því að hvort sem við búum í Reykjavík eða úti á landi þurfum við að búa í þessum íbúðum. Það eru ekki allir að flytja til Reykjavíkur, guði sé fyrir að þakka. Það er í því eina tilviki að það skiptir máli að

fasteignamatið er lægra úti á landi en í Reykjavík.
    Að lokum langar mig til að vekja athygli á því að hér á landi hefur verið að meðaltali 3% hagvöxtur allar götur síðan seinni heimsstyrjöldinni lauk. Það sem er umfram 3% hagvöxt á ári hverju má segja að fari til að standa undir auknum kostnaði vegna þeirrar fólksfjölgunar sem hefur orðið. En 3% hagvöxtur hefur staðið undir þeirri atvinnuuppbyggingu sem hér hefur átt sér stað undanfarna áratugi. Þeir nýju skattar sem hér er verið að tala um þurrka í rauninni upp þessi 3%. Þessi hagvöxtur sem hefur verið 3% að meðaltali á ári undanfarna áratugi hverfur núna með þessari auknu skattheimtu. Við sjáum í raun fram á það á næstu árum og áratugum að ef svona heldur áfram fer allur hagvöxturinn í að borga skatta, það verður enginn hagvöxtur. Fyrirtækin og einstaklingarnir gera ekkert annað en að borga skatta og hafa ekkert afgangs hvorki til að skapa ný atvinnutækifæri eða halda áfram þeirri gífurlegu uppbyggingu sem þrátt fyrir allt hefur þó einkennt þjóðlífið á Íslandi frá því að seinni heimsstyrjöldinni lauk.