Skipti Íslendinga við varnarliðið
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Hv. 17. þm. Reykv. spyr hvernig skilja beri ákvæði stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að skipti Íslendinga við varnarliðið verði endurskipulögð. Svarið er að þessi orð ber að skilja eftir orðanna hljóðan. Þannig er ætlunin að fram fari úttekt á öllum skiptum við varnarliðið sem máli skipta fyrir Íslendinga. Þetta starf er þegar hafið og ég vil gjarnan nota tækifærið í tilefni af þessari fsp. til að skýra það með nokkrum dæmum.
    1. Unnið er að athugun á tilhögun verktöku fyrir varnarliðið. Það er fyrst og fremst um að ræða starfsemi Aðalverktaka, en jafnframt verður unnið að athugun á þætti annarra verktaka og gerðar tillögur um breytingar gefi niðurstöður athugananna tilefni til. Tryggt verður að íslenskum reglum verði fullnægt í öllum framkvæmdum á vegum varnarliðsins.
    2. Verslun og viðskipti við varnarliðið verða skoðuð vandlega, m.a. í því skyni að freista þess að fá varnarliðið til að kaupa meiri hlut af íslenskum landbúnaðar- og iðnaðarvörum en nú er.
    3. Viðræður eru hafnar og vinnuhópur er að störfum með aðild sveitarfélaga og varnarliðs um frambúðarlausn á vatnsbólum fyrir svæðið vegna yfirvofandi mengunarhættu. Langt er komið forhönnun þeirra mannvirkja. Þetta mál hefur m.a. verið tekið til umræðu á fundum utanríkisráðherra Íslands og Bandaríkjanna.
    4. Viðræður eru hafnar við varnarliðið um afhendingu varnarsvæða neðan þjóðvegarins að nýju flugstöðinni til sveitarfélaga á svæðinu.
    5. Langt er komið samningum um aukna hlutdeild varnarliðsins í rekstri heilbrigðiseftirlits og mengunarvarna á svæðinu.
    6. Áhersla verður lögð á að draga úr umhverfisspjöllum af völdum varnarliðs og flugvallarins og verða holræsa- og sorpeyðingarmál sérstaklega athuguð í því sambandi.
    7. Haldið verður áfram athugunum á því með hvaða hætti og að hvaða marki rétt er og skynsamlegt að Íslendingar taki sjálfir yfir ýmis eftirlitsstörf, svo sem þegar hefur verið gert að því er varðar rekstur ratsjárstöðva.
    8. Hafin er úttekt á vegum utanríkis- og fjármálaráðuneyta á starfsemi lögreglustjóraembættisins á Keflavíkurflugvelli.
    9. Haldið verður áfram umræðum, sem reyndar eru stöðugt í gangi, um ýmsa þætti flugöryggismála á Keflavíkurflugvelli og miða að því að tryggja að flugvöllurinn uppfylli ýtrustu kröfur um öryggisbúnað.
    Virðulegi forseti. Ég vona að þessi dæmi gefi hugmynd um það sem felst í ákvæðum stjórnarsáttmálans um skipti Íslendinga við varnarliðið. Ríkisstjórnin hefur ekki í hyggju að breyta né bregðast þeim skyldum sem Íslendingar hafa tekið á sig með aðild að Atlantshafsbandalaginu sem telst hornsteinn íslenskrar utanríkisstefnu, en vill tryggja íslenska hagsmuni sem best í skiptum við varnarliðið.