Atvinna kvenna á landsbyggðinni
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Á þskj. 107 hef ég leyft mér ásamt hv. þm. Margréti Frímannsdóttur að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. forsrh.:
    ,,Hvernig hyggst ríkisstjórnin framkvæma það ákvæði stjórnarsáttmálans að ,,sérstakt átak verði gert til að auka fjölbreytni í atvinnu kvenna á landsbyggðinni"?``
    Hér er um að ræða beina tilvísan í málefnasamning ríkisstjórnarinnar og innt eftir því með hvaða hætti unnið skuli að framkvæmd þess. Hér er um að ræða að mati okkar fyrirspyrjenda mjög þýðingarmikið mál og í rauninni brýnt og mætti rökstyðja það í löngu máli en verður ekki gert hér. Ég vísa þó til þess sem blasir við í nýútkomnum bráðabirgðatölum varðandi mannfjölda í landinu frá 1. des. sl. þar sem í ljós kemur að mjög hallar á í sambandi við skiptingu kynja úti um land sérstaklega þar sem karlar eru í öllum landsbyggðarkjördæmunum að ég hygg mun fjölmennari en konur. Ég er ekki í vafa um að ástæðurnar fyrir þessari óheillaþróun liggja ekki síst í atvinnumynstrinu úti um land, fábreyttari möguleikum kvenna til starfa en gerast hér á aðalþéttbýlissvæði landsins.
    Ég get nefnt hér tölur, t.d. Vesturland. Þar eru karlar 1. des. 1988 taldir vera 7661 en konur 7137. Þar munar yfir 500 manns í þessu ekki fjölmenna kjördæmi á körlum og konum. Á Vestfjörðum er þessi munur ekki ósvipaður. Þar eru karlar samkvæmt manntalsskýrslum 5286 en konur 4810. Á Norðurlandi vestra eru karlar 5497 en konur 5056. Það munar á fimmta hundrað. Á Norðurlandi eystra eru karlar taldir 13.192 en konur 12.913, munurinn ekki eins mikill og í hinum kjördæmunum, enda þarna þéttbýlissvæði eins og Akureyri. Og ég nefni hér, virðulegur forseti, Austurland með 6855 karla en 6308 konur, mismunur 550 eða þar um bil. Þar eru karlar um 8% fjölmennari en konur. Á Suðurlandi blasir við sama mynd, 10.512 karlar en 9585 konur samkvæmt bráðabirgðatölum yfir mannfjölda.
    Þetta talar nokkuð skýru máli um stöðuna í þessum efnum og ég vænti þess að ríkisstjórnin hafi á döfinni aðgerðir til úrbóta eins og málefnasamningur hennar kveður á um.