Atvinna kvenna á landsbyggðinni
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Hér er hreyft mikilvægu máli sem eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda er í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar. Það hefur verið afgreitt þannig innan ríkisstjórnarinnar að ég óskaði eftir því að félmrh. afgreiddi þetta mál og skipaði til þess starfshóp að vinna að málinu og gera tillögur eins og til er ætlast í málefnasamningi. Félmrh. tjáði mér að hún er með málið til meðferðar, en vegna þess að ýmsir hafa að þessu máli komið að undanförnu hyggst hún hefja og er hafin samantekt á málinu og því sem þar hefur verið að unnið áður. Hún taldi rétt að hafa þær upplýsingar fyrirliggjandi áður en starfshópur yrði skipaður.
    Það er rétt að þessu máli hefur verið alloft hreyft, t.d. hafa á Alþingi nýlega verið lagðar fram tvær þáltill. um þessi mál sem sýnir að sjálfsögðu þann áhuga sem málið hefur hér. Málinu hefur einnig verið hreyft á fyrri árum. M.a. 1979 var samþykkt þáltill. um eflingu úrvinnslu- og þjónustuiðnaðar í sveitum og var Framkvæmdastofnun falið að vinna að því máli, en eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið hefur þar hins vegar, því miður, ekkert gerst. Þá hefur einnig að tilhlutan Kvenfélagasambands Íslands verið starfandi hópur sem fjallar um möguleika á uppbyggingu heimilisiðnaðar í sveitum. Í þessum hópi eru konur frá Kvenfélagasambandinu, Heimilisiðnaðarfélaginu, Þjóðminjasafninu, Ferðamálaráði, Byggðastofnun, Ferðaþjónustu bænda og Heimilisiðnaðarskólanum. Það má geta þess að á sl. sumri skipaði landbrh. nefnd sem er ætlað að gera tillögur um atvinnuuppbyggingu fyrir konur í sveitum og mér er einnig tjáð að til athugunar er að koma á fót við Bændaskólann á Hvanneyri sérstakri heimilisiðnaðarbraut og braut um nýskipan á endurnýjun starfsgreina í sveitum og mun þá ekki síst atvinna fyrir konur höfð þar í huga.
    Þá er mér tjáð að konur hafa á nokkrum stöðum á landinu bundist samtökum um að stofna til atvinnureksturs í því skyni að auka á fjölbreytni í störfum kvenna. Í þá veru mun t.d. vera stóraukin ferðamannaþjónusta í sveitum sem konur hafa sinnt af miklum myndarskap víða um landið. Einnig hafa störf kvenna verið nefnd í sambandi við loðdýrarækt og fleira sem upp hefur verið tekið mætti nefna.
    Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta mörg fleiri orð, en vil endurtaka það, sem ég sagði í upphafi, að þetta er hið mikilvægasta mál. En af þeirri stuttu upptalningu sem ég hef hér gert má koma fram að ýmsir vinna að þessu máli og ég hygg að það sé rétt hjá hæstv. félmrh. að nauðsynlegt er að draga saman þær upplýsingar. Ég mun leggja á það mikla áherslu að sá starfshópur sem ákveðið er að skipa verði skipaður fljótt og gengið eftir því að hann skili niðurstöðum fyrr en ýmsir aðrir sem að þessu máli hafa komið eða átt að koma að því á liðnum árum.