Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Síðan 1964 hafa gilt þær reglur að auk erlendra sendiráða hafi eftirtaldir aðilar heimild til að fá áfengi á kostnaðarverði: Forseti Íslands, handhafar forsetavalds, ríkisstjórn, ráðuneyti, Alþingi, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, forstjóri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, Eimskipafélag Íslands, Ríkisskip, Fríhöfnin á Keflavíkurflugvelli. Til ársins 1971 höfðu einstakir ráðherrar og forsetar Alþingis einnig þessa heimild, en hún var afnumin með sérstakri samþykkt ríkisstjórnar 14. okt. 1971.
    Í þeim reglum sem settar voru 1964 var það tekið fram að handhafar forsetavalds hefðu aðeins rétt til slíkra áfengiskaupa þann tíma sem forsetavaldið er í þeirra höndum og áfengi það er Eimskipafélag Íslands og Ríkisskip fái keypt með þessum skilmálum sé einungis selt í siglingum milli landa og kæmi ekki til neyslu innan lands. Enn fremur að Fríhöfnin seldi aðeins farþegum flugvéla við brottför þeirra úr landinu og kemur því ekki til neyslu innan lands áfengi það sem hún selur samkvæmt þessum reglum.
    Þetta eru þær reglur sem Áfengis- og tóbaksverslunin hefur farið eftir og þeim hefur verið beitt í þágu þeirra kvaða, sem hafa verið lagðar á þær stofnanir og þau embætti sem hér hafa verið talin upp, að standa fyrir opinberri risnu.
    Hv. þm. er kunnugt um þá umræðu sem hefur farið fram um þessar reglur og fyrir nokkru ákvað ríkisstjórnin að óska eftir tillögum frá Ríkisendurskoðun um breytingar á þessum reglum og mun ríkisstjórnin þess vegna taka það mál til skoðunar þegar hún hefur haft tíma til að hugleiða þær tillögur um breytingar á reglunum sem Ríkisendurskoðun setur fram.
    Ástæða þess að leitað er til Ríkisendurskoðunar er sú að það er sú stofnun sem ætlað er að tryggja að ekki eigi sér stað misnotkun á meðferð opinberra fjármuna og þess vegna talið eðlilegt að leita eftir tillögum frá henni.
    Það er rétt einnig að geta þess að samkvæmt langri hefð, sem að vísu hefur verið endurnýjuð með sérstakri samþykkt fjmrh. á hverju ári, tíðkaðist það að starfsmenn Stjórnarráðsins fengu keyptar tvær áfengisflöskur á kostnaðarverði eða rúmlega það í tengslum við starfsemi starfsmannafélags Stjórnarráðsins, en sú heimild verður ekki veitt af núv. fjmrh. þannig að sú skipan mun ekki gilda meðan ég gegni þessu embætti.