Launavísitala
Þriðjudaginn 07. febrúar 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Ég skal vera stuttorður. Ég bað um orðið vegna þess að mér barst þessi úrskurður núna og ég hafði áður sagt að ég vildi gjarnan koma honum hérna á framfæri. 23. jan. ritar Seðlabankinn til úrskurðarnefndar samkvæmt lögum og þar segir svo í bréfi, með leyfi forseta:
    ,,Viðskrn. hefur nú gefið út reglugerð sem breytir grundvelli lánskjaravísitölu frá því sem ákveðið var með auglýsingu Seðlabanka Íslands frá 27. ágúst 1983.
    Þess er hér með farið á leit við nefndina að hún úrskurði hvort tenging milli grundvallanna samkvæmt sérstöku fylgiskjali sé í samræmi við ákvæði tilvitnaðrar reglugerðar. Fylgir eintak af henni hér með ásamt tilkynningu Seðlabankans sama efnis.``
    Síðan berst úrskurðurinn samdægurs og þar segir:
    ,,Seðlabanki Íslands hefur með bréfi í dag óskað þess að nefnd skv. 44. gr. laga úrskurði hvort tillaga bankans um umreikning milli breyttrar lánskjaravísitölu samkvæmt reglugerð um lánskjaravísitölu til verðtryggingar sparifjár og lánsfjár frá 23. jan. 1989 og áður gildandi lánskjaravísitölu sé í samræmi við ákvæði framangreindrar reglugerðar.
    Tillaga Seðlabankans er að lánskjaravísitalan verði reiknuð sem hér segir ...`` og svo fylgir hér með einföld stærðfræðileg formúla þar sem gert er ráð fyrir þessum þremur vísitölum og segir síðan: ,,Nefndin hefur fjallað um mál þetta og úrskurðar að sú reikningsaðferð sem Seðlabankinn leggur til sé í samræmi við ákvæði ofangreindrar reglugerðar.`` Undir þetta rita Hallgrímur Snorrason, Guðmundur Guðmundsson og Helgi V. Jónsson.
    M.ö.o., við þetta átti ég þegar ég sagði að nefndin hefði samþykkt þessa reikningsaðferð sem Seðlabankinn ákveður hér og mér sýnist það vera staðfest í þessum úrskurði.
    Ég skal ekki lengja þetta mál, en ég vil þó aðeins koma að því að hv. þm. taldi að við hefðum breytt þessari vísitölu til að --- hvað ég á að segja --- falsa verðbólguna, ef ég má orða það svo. Verðbólguna má að sjálfsögðu mæla á ýmsa mælikvarða. Hún er mæld á framfærsluvísitölu sem að sjálfsögðu verður ekki breytt. Hún er mæld á byggingarvísitölu sem að sjálfsögðu verður ekki breytt. Lánskjaravísitalan, fyrst og fremst, ákveður greiðslu af verðtryggðum fjárskuldbindingum og við töldum satt að segja, eða a.m.k. var ég einn í þeim hópi sem taldi satt að segja feng að því að skuldbindingar lántakenda, fjölmargra einstaklinga og fyrirtækja, í landinu hækkuðu minna en gamla vísitalan gerði. Samkvæmt gömlu vísitölunni hefði höfuðstóll lána átt að hækka um 2,22, en samkvæmt þeirri nýju um 1,67. Og það tel ég, að fenginni reynslu ekki síst frá misgengisárunum 1983--1984 afar mikilvægt og tel því að lánskjaravísitala sem stuðlar að minna misgengi á milli launa og fjármagnskostnaðar sé mjög æskileg. Og þegar ég fyrir mitt leyti samþykkti í málefnasamningi að gengið yrði lengra að þessu leyti með vægi launa, þá er það með þetta í huga sem ég gerði það. Hins

vegar töldu menn við nánari athugun að þriðjungsvægi hverrar vísitölu væri eðlilegri viðmiðun og eflaust hefur hv. þm. komist að sömu niðurstöðu á sínum tíma sem forsrh. Ég er ekki að efa það að fyrrv. forsrh. hefði farið að tillögum Seðlabankans. Ég minntist þess ekki að talað væri þá um reglugerðarbreytingu, en ég er ekki að gefa til kynna að hv. þm. og þáv. forsrh. hefði ekki farið að slíkum ráðum.