Umræður um vinnubrögð í Seðlabanka
Miðvikudaginn 08. febrúar 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það voru greinilega mistök hjá forustu Sjálfstfl., sem hér hefur talað nánast öll, að óska ekki eftir því að þessi umræða færi fram á þann veg að ræðutími væri ótakmarkaður svo Alþingi hefði tóm til að ræða þetta merka mál sem helgar sérstaklega vörn Sjálfstfl. fyrir Seðlabankann. Mig langar þess vegna að koma þeirri ábendingu á framfæri að kannski væri æskilegt að finna tíma í störfum þingsins svo að Sjálfstfl. geti virkilega fengið að njóta sín hér í þinginu og fengið þann tíma fyrir það sem hann telur mikilvægast vegna þess að á fyrstu þingdögum eftir langt þinghlé er þetta það mál sem Sjálfstfl. leggur mesta áherslu á.
    Ég sakna þess t.d. að ummæli mín um seðlabankastjórann á þessum fundi skuli ekki hafa komist hér til umræðu vegna tímaskorts. Ég vænti þess að þau þyki líka einhverrar umræðu verð. Hafi það farið fram hjá hv. formanni Sjálfstfl. og hv. varaformanni Sjálfstfl. og hv. siðgæðisverði Sjálfstfl., Geir Haarde, hver þau voru skal ég endurtaka þau hér. Þau voru á þann veg að Jóhannes Nordal væri menntaður maður og vitur mjög, sérstaklega hefði hann gott vit á bókmenntum. Nú vildi ég benda hv. þm. Friðriki Sophussyni á það hvort hann vildi ekki flytja í sama dúr fyrirspurn til hæstv. menntmrh. um álit hans á þessum ummælum mínum svo hægt sé að halda áfram að rekja fundinn yfirlýsingu fyrir yfirlýsingu.
    Ég vil svo að lokum geta þess, af því að Sjálfstfl. hefur löngum viljað láta kenna sig við lýðræði, að lýðræðið snýst um vilja fólksins og samþykki fólksins og á fjölmennasta stjórnmálafundi sem haldinn hefur verið á Akureyri í áraraðir, yfir 400 manna fundi, voru engin ummæli á fundinum sem vöktu eins mikla hrifningu fundarmanna og nutu eins mikils stuðnings, m.a. með dynjandi langvarandi lófataki, og sú yfirlýsing hæstv. utanrrh. sem hér hefur verið til umræðu þannig að það var alveg ljóst á þeim sem á fundinum voru að þessi skoðun hæstv. utanrrh. naut mikillar lýðhylli á þessum fjölmennasta stjórnmálafundi sem haldinn hefur verið á Akureyri. En kannski er Sjálfstfl. hættur að hlusta á fólkið í landinu og er meira orðið annt um að passa æðstu stofnanir ríkisvaldsins. ( EG: Var fjmrh. sammála þeim ummælum?) Já, fjmrh. var sammála þeim vegna þess að á hverjum fundi sem fjmrh. hefur komið á í Seðlabankann, sem eru nú að vísu ekki mjög margir, hefur þess rækilega verið gætt af hálfu Seðlabankans að blýantar séu við hvers manns disk.