Samgöngur á Austurlandi
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Jón Kristjánsson:
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um samgöngur á Austurlandi. 1. flm. tillögunnar var Jónas Hallgrímsson, sem sat hér á haustdögum sem varamaður á hv. Alþingi, en meðflm. eru hv. þm. Jón Kristjánsson, Kristinn Pétursson, Egill Jónsson og Hjörleifur Guttormsson.
    Það er nú orðið nokkuð langt um liðið síðan þessi tillaga var flutt hér á hv. Alþingi, en af orsökum sem ég hirði ekki um að rekja hefur hún ekki komist að á dagskrá þingsins fyrr. En tillgr. hljóðar þannig:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram rannsóknir á möguleikum til að koma á vegasambandi milli byggða á Austurlandi og gera áætlun um framkvæmdir, einkum við þá fjallvegi um miðbik Austurlands sem erfiðastir eru yfirferðar á vetrum, m.a. með því að beita nútímatækni í jarðgangagerð. Við rannsóknina skal haft samstarf við Samband sveitarfélaga á Austurlandi, Byggðastofnun, Vegagerð ríkisins og aðra þá sem hafa þekkingu á þessum málum. Við mat framkvæmda verði tekið fullt tillit til ávinnings atvinnulífs og félagslegrar þjónustu af bættum samgöngum.``
    Í grg. tillögunnar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Tillaga þessi var flutt á síðasta þingi en hlaut ekki afgreiðslu og er nú endurflutt. Hún er fram komin vegna ríkjandi aðstæðna í samgöngumálum Austurlands og þess mikilvægis sem þau hafa í hugum manna þar um slóðir. Er hér einkum átt við þá fjallvegi um miðbik Austurlands sem erfiðastir eru yfirferðar á vetrum, en ætla má að með nútímatækni í jarðgangagerð megi ryðja slíkum samgönguhindrunum úr vegi án þess að kostnaður fari fram úr hófi. Miðhluti Austurlands ásamt Vopnafirði er, sem kunnugt er, mjög afskiptur með samgöngur á landi bæði milli fjarða og frá fjörðum til Fljótsdalshéraðs. Fjallvegir eru í um og yfir 600 metra hæð og því næsta erfitt og jafnvel ófært um lengri eða skemmri tíma að halda uppi eðlilegum samgöngum í miklum snjóavetrum svo sem dæmin sanna.``
    Þær raddir hafa orðið æ háværari meðal íbúa Austurlands, jafnt kjörinna fulltrúa sveitarstjórna og Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi og ekki síður hjá hinum almenna borgara, að þennan vanda beri að leysa til frambúðar með þeim hætti sem tillagan gerir ráð fyrir, könnun á möguleikum jarðgangagerðar og í framhaldi af því samræmdri framkvæmdaáætlun.
    Hér er um mjög mikil verkefni að ræða og það er mikil nauðsyn á að undirbúningur sé sem bestur og hann sé byggður á rannsóknum, bæði jarðfræðilegum og athugunum á hagkvæmni slíkrar vegagerðar, sem ekki eingöngu eru byggðar á talningu umferðar dagsins í dag heldur reyni menn að gera sér grein fyrir þeim breytingum og hagkvæmni sem öruggar samgöngur allan ársins hring hafa í för með sér.
    Haustið 1986 skipaði Matthías Bjarnason þáv. samgrh. nefnd sem skyldi ræða jarðgangagerð og næstu verkefni í þeim efnum. Nefndin skilaði áliti í mars árið 1987. Hún komst að þeirri niðurstöðu að

eðlileg röð framkvæmda í jarðgangagerð væri að hefja framkvæmdir í Ólafsfjarðarmúla. Síðan kæmi röðin að jarðgöngum á Vestfjörðum og þá Austurlandi. Framkvæmdir í Ólafsfjarðarmúla eru nú hafnar og mikið rannsóknar- og undirbúningsstarf hefur verið unnið á Vestfjörðum, m.a. fyrir frumkvæði heimamanna. Eðlilegt er að slíkt átak verði gert á Austurlandi þannig að tími og ráðrúm gefist til vandaðs undirbúnings framkvæmda sem getur skipt sköpum að vel takist til í þessum stóru verkefnum.
    Eftir að þessi tillaga var flutt í haust skeði það að skipuð var nefnd til að fjalla um þetta mál svo segja má að undirbúningur sé þegar hafinn að framkvæmd á efni tillögunnar. Samgrh. skipaði fulltrúa í samstarfsnefnd heimaaðila og ráðuneytis sem vinna skal í þessum málum og eins og ég kom að var það gert skömmu eftir en þessi tillaga kom fram á Alþingi. Ber að þakka þetta og fagna því alveg sérstaklega að skilningur hefur aukist í þessum efnum. Eigi að síður á þessi tillaga fullan rétt á sér því að það er nauðsynlegt að Alþingi fylgist vel með framvindu þessara mála, ræði þessa tillögu, hún fái þinglega meðferð og jákvæða afgreiðslu, því ætíð er það að framkvæmdir og framkvæmdaáætlanir koma til meðferðar Alþingis að lokum.
    Hér er gripið á stórmáli sem getur skipt sköpum um búsetu á Austurlandi og möguleika þessa landshluta í atvinnumálum og félagsmálum. Áhugi heimamanna í þessu efni er mjög mikill og vaxandi og lái þeim það hver sem vill. Íbúar fjölmennra byggðarlaga á landsbyggðarmælikvarða, eins og Vopnafjarðar, Seyðisfjarðar og Neskaupstaðar, sem njóta ekki vetrarsamgangna sem annars staðar þykja sjálfsagðar, velta því mjög fyrir sér hvernig hægt sé að brjótast út úr þeirri skel. Þar að auki mundu jarðgangaframkvæmdir breyta aðstæðum á miðhluta Austurlands gífurlega. Það hefur á seinni tímum verið rætt mikið um vaxandi verkaskiptingu og samstarf í atvinnulífinu og samruna fyrirtækja, ekki síst á þessum síðustu erfiðleikatímum. Bættar samgöngur milli byggðarlaga mundu auðvelda samskipti af nýju tagi sem óþekkt eru nú og samvinnu fyrirtækja. Þær mundu tengja saman bestu hafnir á landinu og væntanlegan flugvöll á Egilsstöðum sem nú er verið að byggja upp. Þarna eru gífurlegir möguleikar sem er í þágu landsins alls og allrar þjóðarinnar að nýta.
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu fer ég fram á að málinu verði vísað til hv. allshn.