Vegaframkvæmdir á Vesturlandi
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Flm. (Skúli Alexandersson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hér hafa komið og tekið undir þessa tillögu mína sem flestir og allir held ég hafi gert af þeim sem hér hafa komið og fjallað um tillöguna. Aðeins vil ég þó nefna nokkur atriði sem ég tel rétt að svara eða vekja aukna athygli á af því sem hefur komið fram í umræðunni.
    Hv. þm. Ólafur Þórðarson benti á að svo mundi vera um vegamálin og afstöðu manna til vegamála að þar mundu menn ekki skiptast mjög eftir því hvort þeir væru stjórnarsinnar eða stjórnarandstæðingar. Mér láðist að geta þess í framsöguræðu minni með þáltill. að þessi tillaga var flutt á síðasta þingi þegar við báðir flm. vorum stjórnarandstæðingar. Nú flytjum við enn þessa tillögu saman, annar stjórnarsinni, að sagt er a.m.k., og hinn stjórnarandstæðingur.
    Ég tók það nokkurn veginn svo hjá hv. 2. þm. Vesturl. að honum hefði fundist þessi tillöguflutningur okkar kannski svolítið sérstakur vegna þess að hann taldi ástæðu til að nefna að það væru þingmenn Vesturlands nr. 4 og 5. Ég hef reyndar ekki oft heyrt hv. þm. ávarpaða þannig, en vera má að það hafi verið vegna þess að hann hafi talið það svolítið sérstakt að 4. og 5. þingmaður væru að flytja mál sem snertu beinlínis kjördæmi eitt án þess að jafnvel hv. 1., 2. og 3. þingmenn kjördæmisins væru flm. með. Ég held að það sé rétt að upplýsa að þegar þessi tillaga var undirbúin á síðasta ári bauð ég þessum þingmönnum öllum að vera meðflm. að tillögunni, 1., 2. og 3. þm. Vesturl. Ég taldi því ekki ástæðu til þess í haust, þegar þessi tillaga var endurflutt, að breyta þar um og ég bauð þessum hv. þm. ekkert upp á að vera meðflm. núna. En þetta breytir vitaskuld ekkert málinu. Ég veit að þessir hv. þm. eru allir meira og minna sammála þeirri tillögu sem hér hefur verið til umræðu.
    Ég get tekið undir það með hv. 2. þm. Vesturl. að nokkuð vel hefur unnist sums staðar á síðustu árum. Það væri ekki rétt að viðurkenna ekki það. En þó að nokkuð vel vinnist er það oft og tíðum þannig að það er ekki nógu mikið fyrir því og staðreyndin er sú einmitt í vegamálum að við erum komnir óralangt út úr þeim tíma, sem við erum að hrærast í, að vera með meginhluta af landsbyggðasvæðum, eins og um Borgarfjörð, um Snæfellsnes, um Þingeyjarsýslur, Austfirði og Vestfirði, í því ástandi sem ég var að lýsa áðan. Þess vegna hefur ekki unnist nógu vel á undanförnum árum í þessu þó að það sé hægt að viðurkenna að sums staðar hafi góðir hlutir átt sér stað. Það sæti síst á mér að tala um að það hefði ekki sums staðar unnist vel. Ég vil enn, sem ég hef gert áður hér úr ræðustól, minna á stórverkefnið undir Ólafsvíkurenni, stórkostlega merkilegt og gott verkefni sem leyst hefur verið einmitt á því tímabili sem við erum hér um að ræða.
    Mér þykir miður að hv. þm. Friðjón Þórðarson er ekki í salnum, en ég vildi aðeins benda honum á að þó að honum leiðist heildaráætlanir og áætlanir er staðreyndin sú að ég held að vegamálin hefðu ekki þokast eins og þau hafa þokast á síðustu árum ef við

hefðum ekki haft langtímaáætlun. Hún var ramminn sem hægt var að þrýsta á eftir og framkvæma eftir. Þess vegna er þessi tillaga flutt að nauðsynlegt sé að áætlanir um skipulagðar framkvæmdir eins og hér er verið um að ræða séu fyrir hendi. Annars verða hlutirnir meira og minna handahófskenndir.
    Ég get tekið undir með hv. þm. Friðjóni Þórðarsyni, þó ég sé ekki að beina því nú til hæstv. samgrh. og ekkert að ætlast til þess að hann svari því endilega nú, að við Vestlendingar þurfum að spyrja um framtíðaráætlanir um veg yfir Gilsfjörð og brú yfir Gilsfjörð. Við þurfum líka að spyrja um hluti eins og þá hvernig hefur farið í sambandi við málaferlin um framkvæmdirnar á Laxárdalsheiði. Ég ítreka þetta og bendi hæstv. samgrh. á að þetta eru áhugaverð verkefni fyrir okkur Vestlendinga og sjálfsagt fleiri og bið hann um að huga að því að eiga svör fyrir okkur um þessi mál.
    Hv. þm. Egill Jónsson sagði að ég hefði verið að tala um svik í sambandi við fjárveitingar til vegamála. Ég nefndi aldrei svik í minni ræðu og það er langt frá því að ég vilji orða það þannig að þarna hafi verið um svik að ræða. ( EgJ: Þú hefur oft gert það.) Ekki í síðustu ræðu minni. Aftur á móti benti ég á að það hefði ekki verið staðið við framtíðarheitin í sambandi við langtímavegáætlun og það erum við hv. þm. Egill Jónsson vissulega sammála um. Við getum deilt og deilum sjálfsagt á öðrum tíma um af hverju það var ekki og af hverju nú er enn dregið að manni virðist úr fjármagni til vegagerðar og að nú er í fyrsta skipti, því miður, tekið af bensínfé, þungaskattsfé beinlínis í þann kassa sem heitir ríkissjóður. En við verðum að vona að það sé aðeins af sérstökum tímabundnum ástæðum vegna þess hvernig komið er með okkar þjóðarbú og vegna þess hvernig haldið hefur verið á málum á undanförnum árum og frá því verði horfið og að þessum fasta tekjustofni til vegagerðar, sem var á undanförnum árum bættur með beinu framlagi frá ríkinu, fáum við í framtíðinni að halda óskertum.
    Ég endurtek að ég þakka hv. þm. fyrir undirtektir við tillögu mína.