Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1989

     Flm. (Sólveig Pétursdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 75 frá 1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Meðflm. mínir eru Salome Þorkelsdóttir, Egill Jónsson, Guðmundur Ágústsson, Guðmundur H. Garðarsson, Halldór Blöndal, Júlíus Sólnes og Þorv. Garðar Kristjánsson.
    1. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,2. málsl. 2. mgr. A-liðar 68. gr. laganna, sbr. 8. gr. laga nr. 97/1988, orðist svo:
    Sá persónuafsláttur, sem þá er enn óráðstafað, fellur niður nema um sé að ræða óráðstafaðan persónuafslátt annars hjóna, sem skattlagt er samkvæmt ákvæðum 63. gr., og skal þá óráðstafaður hluti persónuafsláttar annars makans bætast við persónuafslátt hins.``
    Og 2. gr. frv. hljóðar svo:
    ,,Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við staðgreiðslu gjalda á árinu 1990 og við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 1991 af tekjum ársins 1990 og eignum í lok þess árs.``
    1. gr. frv. er aðeins hluti af 2. mgr. A-liðar 68. gr., en hún hljóðar þannig óbreytt í heild sinni:
    ,,Nemi persónuafsláttur skv. 1. mgr. hærri fjárhæð en reiknaður tekjuskattur af tekjuskattsstofni skv. 1. málsl. 1. mgr. 67. gr. skal ríkissjóður leggja fram fé sem nemur allt að þeim mun og skal því ráðstafað fyrir hvern mann til greiðslu útsvars hans á álagningarárinu og því sem þá kann að vera óráðstafað til greiðslu eignarskatts hans á álagningarárinu. Sá persónuafsláttur sem þá er enn óráðstafað fellur niður nema um sé að ræða óráðstafaðan persónuafslátt annars hjóna sem skattlagt er samkvæmt ákvæðum 63. gr. og skulu þá 80% af óráðstöfuðum hluta persónuafsláttar annars makans bætast við persónuafslátt hins. Nemi þannig ákvarðaður persónuafsláttur síðarnefnda makans í heild hærri fjárhæð en reiknaður skattur af tekjuskattsstofni hans skv. 1. tölul. 1. mgr. 67. gr. skal ríkissjóður leggja fram fé sem nemur allt að þeim mun til að greiða útsvar hans á álagningarárinu og því sem þá kann að vera óráðstafað til greiðslu eignarskatts hans á álagningarárinu. Sá hluti persónuafsláttar sem þá verður enn óráðstafað fellur niður.``
    Í upphafi grg. með frv. segir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Með frv. þessu er lögð til sú breyting á ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt að persónuafsláttur verði að fullu millifæranlegur milli hjóna. Samkvæmt gildandi lögum er millifærsla takmörkuð við 80% af þeim hluta afsláttarins sem annar maki nýtir ekki. Af þessari takmörkun leiðir að verulegur mismunur verður í skattlagningu heimila eftir því hvernig tekna er aflað, hvort einungis annað hjóna aflar allra teknanna eða þeirra er aflað með vinnu beggja. Getur munað verulegum fjárhæðum í álögðum gjöldum. Sem dæmi má nefna að samkvæmt núgildandi álagningarreglum eru skattleysismörk hjóna eða tveggja einstaklinga sem báðir afla tekna á árinu 1989 1.134.627 kr. en hjá hjónum þar sem einungis annað aflar teknanna

1.021.066 kr., eða 113.461 kr. lægri mörk í síðara dæminu. Í skattgreiðslum er munurinn 42.820 kr. þeim síðarnefndu í óhag.
    Staða og réttindi heimavinnandi fólks hafa að undanförnu verið nokkuð í brennidepli. Í því sambandi hefur verið sýnt fram á ýmiss konar mismunun gagnvart þeim fjölskyldum sem háðar eru því að annað hjónanna afli tekna en hitt sé heimavinnandi. Hlýtur það að vera andstætt þeirri fullyrðingu sem oft heyrist í þjóðmálaumræðunnni að fjölskyldan sé hornsteinn þjóðfélagsins og standa beri vörð um hagsmuni hennar.``
    Þess má geta að sú fjárhæð sem hér er nefnd í grg., 42.820 kr., er 37,74% af 113.461 kr. sem er hinn skattalegi mismunur. Þetta er föst skattaprósenta og munurinn helst því óbreyttur allan skattstigann og sést m.a. glögglega á yfirliti frá Þjóðhagsstofnun sem ég fékk í hendur dags. 10. febr. 1989, en þar er borið saman núverandi kerfi og breytt kerfi sem þetta frv. hefur í för með sér. En meðalpersónuafsláttur er 18.200 kr. á mánuði hjá hjónum. Enn fremur vil ég taka það fram að þótt hér sé einungis rætt um hjón á þetta ákvæði einnig við um sambúð sem fullnægt hefur ákveðnum skilyrðum, svo sem að sambúð hafi staðið í tvö ár, parið eigi saman barn eða konan sé þunguð um áramót.
    Það eru margir sem hafa áhyggjur af stöðu hjónabandsins í dag, þar á meðal kirkjunnar menn. Sem dæmi get ég nefnt að á kirkjuþingi 1986 var samþykkt að fela kirkjuráði að láta kanna hvort vegið sé að hjónabandinu í íslenskri skattalöggjöf. Ef svo væri, að finna þá leiðir til úrbóta í samráði við þau stjórnvöld sem unnið gætu að framgangi slíks réttlætismáls. Mál þetta var nr. 28 á þinginu og fylgdi því greinargerð með útreikningum á sköttum einhleypinga, hjóna og sambúðarfólks. Í þessari greinargerð sagði enn fremur:
    ,,Á hátíðarstundum er talað um hjónabandið sem hornstein þjóðfélagsins, en með skammsýnni og óréttlátri skattalöggjöf er hægt að rífa þennan hornstein og þá hrynur húsið.``
    Í þessu sambandi má einnig nefna grein eftir Sigurð Snævarr hagfræðing sem birtist í tímaritinu Mannlífi í júní 1987 undir heitinu ,,Grafið undan
hornsteininum``. Í þessari grein rekur höfundur m.a. helstu réttindi sem einstæðir foreldrar njóta umfram hjón og telur að vegið sé að hornsteinunum. Enn fremur vitnar hann í grein eftir dr. Sigurð B. Stefánsson sem birtist í Vísbendingu í október 1986, en þar segir m.a. að álagning tekjuskatts þurfi að vera hlutlaus gagnvart því hvort einstaklingar eru í hjónabandi eða sambúð eða ekki og hún þurfi einnig að vera hlutlaus gagnvart því hvort annar eða báðir aðilar vinni utan heimilis eða ekki.
    Það er einnig ítrekað í grg. með framlögðu frv. að það sé í rauninni skylda löggjafans að sjá til þess að skattar séu lagðir á eftir almennum efnislegum mælikvarða og vissri jafnræðisreglu þannig að skattþegnum sé ekki mismunað óeðlilega. Það virðist ljóst að mjög margir eru á þeirri skoðun og telja það

mikið réttlætismál að skattaálagning á heimili eigi eingöngu að ráðast af tekjum og ekki eigi að skipta máli hvort annað eða bæði hjónin afla þeirra. Að öðrum kosti muni það vega að hagsmunum fjölskyldunnar.
    Um þetta mál hefur einnig verið rætt á hinu háa Alþingi og hafa hv. þm. nokkuð látið sig mál þetta varða, enda þótt í mismunandi mæli sé. Ýmis frumvörp og þingsályktunartillögur hafa þó verið lögð fram. Sem dæmi má nefna tillögu til þingsályktunar um jöfnun á skattbyrði hjóna, 171. mál á 107. löggjafarþingi 1984, en 1. flm. var Magnús H. Magnússon, þáv. þm. Alþfl. Meðflm. voru hæstv. núv. ráðherrar Jóhanna Sigurðardóttir og Jón Baldvin Hannibalsson og hv. þm. Kjartan Jóhannsson og enn fremur hv. þm. Karvel Pálmason og Eiður Guðnason sem báðir eiga sæti hér í hv. Ed. Tillagan hlaut ekki afgreiðslu en hljóðaði svo, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að undirbúa breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt sem feli í sér að skattbyrði hjóna verði jöfn hvort sem annað þeirra eða þau bæði vinna fyrir tekjum. Taka skal sérstakt tillit til þess ef verulegur kostnaður hlýst af því að hjónin vinna bæði utan heimilis.``
    Í grg. með till. sagði enn fremur:
    ,,Það er óverjandi að hjón þar sem annar makinn treystir sér ekki til að vinna utan heimilisins, t.d. vegna fjölda barna, vegna veikinda eða vegna umönnunar aldraðs fólks eða sjúks, skuli greiða mun hærri skatta af sömu tekjum en hjón sem bæði vinna utan heimilis. Í þessum tilvikum sparar heimavinnandi maki því opinbera oft mikið fé í stofn- og rekstrarkostnað barnaheimila, heilbrigðisstofnana og dvalarheimila aldraðra. Í stað þess að meta þetta starf að verðleikum er fólkinu refsað með hækkun tekjuskatts.``
    Í grg. með frv. sem hér er fram lagt er einnig skýrt frá tillögu sem Jóhanna Sigurðardóttir flutti ásamt fleirum árið 1986 á 109. löggjafarþingi, 54. máli, um réttarstöðu heimavinnandi fólks. Þessi tillaga hljóðaði svo, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta meta þjóðhagslegt gildi heimilisstarfa og gera úttekt á hvernig félagslegum réttindum og mati á heimilisstörfum er háttað samanborið við önnur störf í þjóðfélaginu. Skulu niðurstöður og tillögur til úrbóta liggja fyrir Alþingi eigi síðar en við upphaf næsta þings.``
    Í grg. með tillögunni er bent sérstaklega á þennan skattalega mismun á hjónum, nánar tiltekið í 2. mgr. 4. tölul. svo sem tekið er fram í grg. með þessu frv. hér, en í þessari grein segir: ,,Heimavinnandi fólk situr ekki við sama borð og aðrir þegnar þjóðfélagsins hvað varðar skattlagningu og lýsir það sér m.a. í því misrétti að heimili með eina fyrirvinnu ber hærri skatta en þar sem tekjur heimilisins eru afrakstur vinnu tveggja.``
    Þessi tillaga var ekki afgreidd úr þingnefnd en hlaut hins vegar jákvæðar undirtektir frá mörgum aðilum utan þings, m.a. Bandalagi kvenna í Reykjavík

og Jafnréttisráði. Eins og áður segir var 1. flm. þessarar tillögu núv. hæstv. félmrh., en hún hefur nú nýverið skipað nefnd sem ætlað er að kanna réttarstöðu heimavinnandi fólks. Ég tel það gott mál og vona að nefndin finni leiðir til úrbóta. Hér er þó um mjög víðtækt verkefni að ræða og gera má ráð fyrir að slík könnun taki nokkurn tíma. Hins vegar mun ekki þörf á könnun á því máli er þetta frv. tekur á því að hér er um sýnilega mismunun að ræða í ákvæðum skattalaga.
    Það er þó rétt að geta þess hér að við umræður um þetta efni hafa komið fram mótbárur, m.a. á þeirri forsendu að makinn sem teknanna aflar fái afslátt á tekjuskatti sínum vegna þess að hann er með heimavinnandi á framfæri sínu í stað þess að skoða hvern einstakling í lögum, karl eða konu, sem fjárhagslega sjálfstæðan skattaðila. Þetta virðist m.a. skoðun fulltrúa Kvennalistans og kemur m.a. fram í umræðum hjá fyrrv. hv. þm. Kvennalistans Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur er frv. um staðgreiðslukerfi skatta var lagt fyrir 109. löggjafarþing. Hún segir m.a. við það tækifæri, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Eins og ég hef hér til talið brýtur þessi samsköttunarregla í bága við sérsköttunarreglu skattalaganna og er í rauninni makalaus óvirðing við fjárhagslegt sjálfstæði tekjulægri eða tekjulausa makans, í flestum tilfellum heimavinnandi kvenna. Fjárhagslegt sjálfstæði allra einstaklinga án tillits til kynferðis og hjúskaparstöðu er grundvallaratriðið í þeirri viðleitni að
tryggja jafnrétti karla og kvenna hér á landi og því ber að virða það í skattalögum sem og öðrum lögum.``
    E.t.v. má færa einhver rök fyrir þessu sjónarmiði. Þó get ég ekki séð, né heldur mínir meðflm., að þetta skattalagaákvæði breyti nokkru um jafnréttisbaráttu til eða frá. Það eru jafnréttislög í gildi í þessu þjóðfélagi og markviss framkvæmd þeirra hefur væntanlega miklu meiri áhrif á jafnstöðu kynjanna en skerðing á frelsi hjóna til þess að ráða því sjálf hvernig tekjuöflun til heimilisins er háttað. Það er auk þess ekki rétt að mínu mati að tala einungis um konur sem séu á framfæri eiginmannsins og finnst mér ákveðin lítilsvirðing í því fólgin, auk þess að nú virðast karlar vera orðnir heimavinnandi í einhverjum mæli og er það bæði sjálfsagt og eðlilegt að makar skipti þannig með sér verkum.
    Sem betur fer virðast feður nú vera að gera sér enn betur grein fyrir ábyrgð sinni sem uppalendur enda hnígur öll réttarþróun í þá átt. Í þessu sambandi má benda á ákvæði síðustu barnalaga þar sem m.a. var lögfestur jafn réttur foreldra og óskilgetins barns til forsjár og umgengni. Þar að auki bera hjón gagnkvæma framfærsluskyldu samkvæmt lögum nr. 20/1923, um réttindi og skyldur hjóna, og þau eiga sameiginlegan og jafnan rétt yfir eignum heimilisins. Þessar eignir koma þannig til helmingaskipta ef skilnaður verður.
    Það má því segja að löggjafarvaldið hafi mjög fljótlega séð nauðsyn þess að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði maka en eins og hv. þm. er kunnugt um er

slíku fyrirkomulagi ekki til að dreifa í mörgum löndum.
    Þá hefur því einnig verið haldið fram, m.a. af hálfu fulltrúa Kvennalistans, að í stað þessa skattaákvæðis gæti heimavinnandi notið persónuafsláttarins í auknum greiðslum barnabóta. Þessi rök standast ekki að mínu mati vegna þess að þá yrði hér áfram um mismunun að ræða en bara með öfugum formerkjum. Skýringin felst í því að hjón og sambúðarfólk fá jafnháar barnabætur alveg án tillits til þess hvort bæði eru útivinnandi eða ekki. Ef þessu ætti að breyta á þann hátt að heimavinnandi fengi hærri barnabætur leiddi það fyrirkomulag ekki einungis til skattalegrar mismununar heldur yrði einnig um að ræða mismunun gagnvart hagsmunum barna eftir því hvernig heimilishögum þeirra væri háttað. Þess má reyndar geta að einstæðir foreldrar hafa fengið mun hærri barnabætur og enda þótt ýmsir hafi orðið til að gagnrýna það má leiða að því rök að ákveðin sanngirni búi þar að baki.
    Hitt er svo annað mál að frv. er engan veginn ætlað að stuðla að því að konur séu aftur reknar inn á heimilin eins og einhverjir gætu hugsanlega tekið til orða. Engin rök hníga að því að slíkar afleiðingar megi sjá fyrir. Þvert á móti er það haft að leiðarljósi að einstaklingsfrelsi sé jafnrétti í reynd en hjónaband er m.a. fjárfélag tveggja sjálfstæðra einstaklinga.
    Aftur á móti má leiða að því rök að þeim sem vilja vera heimavinnandi, t.d. við umönnun ungra barna, sé fremur ýtt út á vinnumarkaðinn með slíkri skattalegri mismunun. Það má enn fremur leiða að því rök að efnahagsaðgerðir hæstv. ríkisstjórnar hafi slíkt enn frekar í för með sér þar sem nú þarf m.a. hærri tekjur til að borga hærri skatta en samt skal dregið úr yfirvinnu um leið og kaupmáttur rýrnar og vofa atvinnuleysis blasir við.
    Samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar um kjör Íslendinga í árslok 1988 kemur berlega í ljós að mjög margar konur eru í hlutastarfi en karlar hins vegar fullvinnandi. Af þessari skýrslu má einnig ráða að um leið og vinnutími þeirra sem eru í fullu starfi hefur styst virðist vinnutími í hlutastörfum hafa aukist. Þetta er hægt að túlka á þann hátt að breytingarnar í þjóðfélaginu þýði aukna vinnu hjá konum sem þrengir þá meira að þeirra hag og barnanna sérstaklega þegar það er haft í huga að ekki fjölgar að sama skapi vistunarúrræðum fyrir börnin. Afleiðingin getur því orðið sú að börn fara að vera í meira og minna mæli ein og eftirlitslaus og því miður hafa stjórnvöld eða aðilar vinnumarkaðarins ekki komið nægjanlega til móts við þarfir útivinnandi kvenna þótt báðir foreldrar beri að sjálfsögðu þá ábyrgð.
    Nú hafa skátar og Lionshreyfingin haft forgöngu að því hjá stórum hópi grunnskólabarna að kenna þeim að sjá um sig sjálf alveg á eigin spýtur. Það er vissulega lofsvert framtak og vafalaust er þörfin mikil. Sú spurning hlýtur þó að vakna hvort við séum nú að viðurkenna, bæði fyrir okkur sjálfum og sem opinbera stjórnvaldsstefnu, að börn fái kannski ekki lengur að vera börn. Ég vona ekki. Hvað sem því líður getur

það ekki verið rétt að fólki sé refsað skattalega fyrir að vera heimavinnandi og ég beini þeim tilmælum til hv. þm. að þeir íhugi þetta mál vandlega.
    Í athugasemdum um 2. gr. frv. segir: ,,Samkvæmt þessu ákvæði kemur hið nýja fyrirkomulag ekki til framkvæmda fyrr en á næsta tekjuári. Verður að ætla að slíkur frestur sé það ríflegur að hið opinbera geti aðlagast breyttum aðstæðum að þessu leyti.`` Það er því ekki ætlunin að þetta mál komi til framkvæmda strax heldur fái fjármálayfirvöld hér góðan aðlögunartíma.
    Frv. er flutt af öllum sjálfstæðismönnum í þessari deild enda í fullu samræmi við stefnuskrá Sjálfstfl. þar sem segir: ,,Skattareglur verði þannig að skattbyrði heimilisins fari ekki eftir því hvernig fyrirvinnur þess skipta með
sér verkum við öflun tekna.``
    Báðir fulltrúar Borgfl. eru hér einnig meðflm., en þess ber að geta að fulltrúar allra hinna stjórnmálaflokkanna þáðu ekki boð um slíkt.
    Hæstv. forseti, ég hef nú lokið máli mínu. Um frekari rök fyrir þessu frv. vísa ég til grg. Að umræðu lokinni legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.