Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1989

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég er einn af meðflm. að frv. Ég tel að efni þess sé mikið réttlætismál fyrir heimavinnandi fólk eða þann sem er á heimilinu hvort sem hann kallast karl eða kona og þær fjölskyldur sem hafa valið það form að annar makinn sé heima.
    Í nýafstöðnum stjórnarmyndunarviðræðum lögðum við borgaraflokksmenn áherslu einmitt á þetta atriði að persónufrádráttur yrði 100% og samkvæmt útreikningi Þjóðhagsstofnunar og hagdeildar fjmrn. er þarna um 500 millj. að ræða sem ég taldi raunar að væri miklu hærri fjárhæð, en þetta er niðurstaða beggja þessara stofnana. Raunar áætlaði hagdeildin 300--500 millj. en Þjóðhagsstofnun 500 millj., þannig að ekki er þarna um þær fjárhæðir að ræða að réttlætt geti þennan mismun.
    Þá vildi ég koma inn á að á árinu 1987 sat milliþinganefnd um endurskoðun á lögum um staðgreiðslu skatta. Þar voru allir nefndarmenn sammála um að persónufrádrátturinn ætti að vera millifæranlegur 100% á milli maka en þáv. fjmrh. taldi ekki stætt á þessu og breytti frv. sem kom frá nefndinni á þann veg að það yrðu ekki nema 80%.
    Í mínum huga er þarna verið að lögfesta mismunun, að fólki er ekki gert jafnhátt undir höfði eftir því hvaða hátt fólk velur að hafa á í sinni sambúð, hvort báðir aðilarnir vinna úti eða hvort annar aðilinn vinnur úti og hinn er þá oftast að gæta barna fjölskyldunnar sem í mörgum tilvikum er ekki aðeins gott fyrir börnin sjálf, heldur sparar þjóðfélaginu og þá oft og tíðum sveitarfélögunum stórar fjárhæðir í formi dagvistunargjalda og fleira.
    Þetta vildi ég að kæmi fram og ég er mjög ánægður með það að hv. 8. þm. Reykv. skyldi leggja fram þetta frv. Ég hafði raunar hugsað út í það að gera það sjálfur, en varð því mjög feginn þegar ég sá þetta frv. og þakka þm. fyrir að leyfa mér að vera á frv. En eins og ég sagði er þetta í mínum huga mikið réttlætismál og ég tel að Alþingi eigi virkilega að taka afstöðu til þess en ekki eins og verið hefur, óháð öllu fordæmi og óháð öllu sem áður hefur verið rætt um. Þetta er mikið hagsmunamál fyrir einmitt þær fjölskyldur sem hafa valið það að annar makinn skuli vera heima og það er ekki af fjárhagslegum forsendum sem þetta er oft að annar makinn sé heima heldur er þetta oft af neyð og því að dagvistarrými eru ekki fyrir hendi og fleira mætti telja til í því sambandi.
    En ég sem sagt styð frv. enda er ég einn af meðflm.