Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1989

     Valgerður Sverrisdóttir:
    Hæstv. forseti. Mér finnst að hv. þm. hafi gert óþarflega mikið úr mínum orðum í upphafi minnar ræðu, að ég hafi sérstaklega verið að gagnrýna hv. 8. þm. Reykv. fyrir að leyfa sér að flytja þetta frv. Það var ekki. Ég sagði að mér hefði verið boðið að vera meðflm. sem ég hefði ekki þegið og eins það, mig minnir að ég hafi tekið þannig til orða, að það vekti hjá mér spurningar eða ég velti því fyrir mér hvers vegna hv. flm. hefði ekki flutt frv. þegar hún var í stjórnaraðstöðu því við vitum að hún var þó nokkuð mikið inni á þingi og hefur verið þar sem hún er 1. varamaður í Reykjavík, enda sagði ég að það þýddi ekki að ég væri á móti málinu þó að ég væri ekki meðflm. og það er ég ekki. Ég fékk reyndar þær upplýsingar að þessi breyting kostaði 2 milljarða, ekki 500 millj. eins og kom fram hjá hv. 11. þm. Reykv. og eins og kemur fram í grg. --- Ég er ekki að segja að ég hefði orðið með þó að ég hefði fengið réttar upplýsingar í upphafi, en þetta skiptir þó nokkuð miklu máli.
    Um það hvort við erum með tekjuskatti eða á móti. Við vitum öll að tekjuskatturinn er ákaflega ósanngjarn og þegar hefur verið fundin upp önnur leið til að afla ríkissjóði tekna sem er réttlátari skal ég svo sannarlega vera til viðræðu um að leggja niður tekjuskattinn. En því miður hef ég ekki séð að sú leið hafi verið fundin upp enn þá. Við vitum að neysluskatturinn er að mörgu leyti réttlátari, en því miður skilar hann sér ekki allur í ríkiskassann. Honum er að einhverju leyti eins og stundum er sagt stolið undan.
    Það væri hægt að halda langa ræðu um jafnréttismál yfirleitt. En mér finnst vera ákveðinn misskilningur í málflutningi hv. 3. þm. Vestf. Ég er ekki að tala um að karlmenn megi ekki hafa skoðun á uppeldismálum. Það er síður en svo. En ég er að tala um að þegar þeir tala eins og hv. 3. þm. Vestf. gerði í sinni fyrri ræðu um að konurnar eigi bara helst að vera á heimilunum og passa sín börn ( KP: Ættu að gera það kleift.) viti þeir ekki alveg um hvað þeir eru að tala því þeir hafa ekki prófað það sjálfir.
    Ég á víst að heita móðir, ég man ekki hvernig hv. 3. þm. Vestf. komst að orði, en ég ætla svo sannarlega ekki að gangast undan því að ég er móðir og hef þekkingu á móðurást og öllu sem að því máli lýtur og mér finnst mjög æskilegt að konur verði með börnum sínum meðan þau eru kornabörn eins og ég sagði reyndar áður, en mér finnst það ekki markmið út af fyrir sig að konur séu heimavinnandi þegar börnin eru komin eitthvað á kreik.
    Að ég hafi verið að mæla með að orðið þingkona væri notað er alger misskilningur og engin ástæða til að skilja ræðu mína þannig. Þegar hv. 3. þm. Vestf. kallaði fram í og sagðist ekki geta verið húsmóðir sagði ég í því sambandi hvort hann gæti ekki alveg eins verið húsmóðir og að konur gætu verið þingmenn.