Lokun sendiráða
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir hans svör þó þau hafi reyndar ekki verið mjög afgerandi og satt að segja afar varfærnisleg eins og kannski er eðlilegt um ábyrga ráðherra. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að mér virðist komið nokkuð annað hljóð í strokkinn hjá hæstv. ráðherra frá því sem var fyrir nokkrum mánuðum þegar hann var fjmrh. Þá gerði hann m.a. tillögur og lagði fram blöð um ýmsar breytingar á starfsemi sendiráðanna. Ég veit ekki hvort honum hefur snúist hugur eða hvort hann hefur komist að þeirri niðurstöðu að slíkar hugmyndir hafi verið óraunhæfar, en hvað sem því líður langar mig til að vitna örlítið í skjal sem ég hef undir höndum sem hæstv. núv. utanrrh. lagði fram meðan hann var fjmrh. á sl. hausti þegar verið var að vinna að gerð fjárlaga. Skjalið heitir ,,Ábendingar og tillögur um lækkun útgjalda í fjárlögum 1989`` og þar segir, með leyfi forseta, um sendiráðin:
    ,,Kostnaður við leiguhúsnæði fyrir útsenda starfsmenn verði endurskoðaður og komið á virku eftirliti, staðaruppbætur kannaðar með tilliti til hvort nettótekjur starfsmanna séu umfram það sem ella gerist hjá ríkinu. Kanna þarf með hvaða hætti gert er ráð fyrir lífeyris- og öðrum kjarabundnum greiðslum vegna staðarráðinna starfsmanna.`` Og síðan, virðulegi forseti: ,,Kanna ætti hvort ekki ætti að loka sendiráðum í Osló, Stokkhólmi og París, en efla starfsemi í Kaupmannahöfn fyrir Norðurlönd og í Brussel vegna efnahagsbandalaga í Evrópu.``
    Þetta voru hugmyndir ráðherrans á sl. hausti. Það er nú gjarnan svo að hugmyndir um lækkun ríkisútgjalda og breytingar á starfsemi einstakra ráðuneyta eða stofnana stranda á mótstöðu svokallaðra fagráðherra. Þáv. fjmrh. er hins vegar kominn í nokkuð einstaka aðstöðu núna sem fagráðherra að geta framkvæmt þær tillögur sem hann lagði til sem fjmrh. Nú mun á það reyna hvort hann hyggst standa við það eða hvort honum hefur algjörlega snúist hugur. Ég geri ráð fyrir því að það sendiráð sem ég síðast nefndi sé ekki lengur inni í þeirri mynd sem ráðherrann var með hér í haust og ég hygg að ekki þurfi mikla glöggskyggni til þess að sjá hvers vegna.