Launavísitala
Miðvikudaginn 22. febrúar 1989

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Matthías Bjarnason):
    Herra forseti. Vinnubrögðin hérna eru orðin forkastanleg. Hér eru daglega fundir í fjh.- og viðskn., alla morgna, og í dag var hann til klukkan að verða tvö. Við rétt komumst hingað út í þinghúsið til þess að ná í fundarsetningu. Maður er að hamast við að koma nefndarálitum frá og það hefst ekki undan. Ég tel að svona óðagot og læti séu alveg fyrir neðan allar hellur og bið nú virðulegan hæstv. forseta að fara að hægja heldur á þannig að menn geti með skaplegum hætti komið nefndaráliti sínu fram. Það væri sitt hvað eða hvort menn væru að leika sér að því að draga framlagningu nefndarálita. Ég spyr hæstv. forseta: Telur hann að sömu menn geti bæði setið alveg lon og don fundi og þingfundi og eigi líka jafnframt að ganga frá 4--5 nefndarálitum á sama tíma? Það er ekki á mínu meðfæri, ég verð að segja það, og ég held að það sé ekki á meðfæri flestra manna ef þeir vilja vinna af einhverri vandvirkni að þeim málum sem lögð eru hér fyrir þessa hv. þingdeild.