Deilur Ísraels og Palestínumanna
Mánudaginn 06. mars 1989

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. frsm., 2. þm. Austurl., þá hefur margt gerst og margt af því mjög jákvætt frá því að umræður fóru fram utan dagskrár í sameinuðu þingi um málefni Ísraels og Palestínumanna þann 11. nóv. sl. Það sem einkum hefur gerst jákvætt er að þjóðarráð Palestínumanna hefur samþykkt þau grundvallaratriði sem fram komu í ályktunum Sameinuðu þjóðanna nr. 242 og 338 frá árunum 1967 og 1973 þar sem kveðið er á um grundvallaratriði, þ.e. um að falla frá andstöðu við tilverurétt Ísraelsríkis, um nauðsyn þess að tryggja öryggi landamæra Ísraels og jafnframt um nauðsyn þess að viðurkenna sjálfsákvörðunarrétt Palestínumanna. Á því hafði staðið lengi vel í viðleitni þeirra aðila sem komið hafa að þessum viðkvæmu deilumálum og reynt að efna til viðræðna milli deiluaðila að frumkvæði og á forræði Sameinuðu þjóðanna og fyrir tilverknað þeirra stórvelda sem einkum hafa látið málið til sín taka. Þar með voru opnaðar leiðir til þess fyrir ýmsa aðila, þar á meðal ýmsa meðal forustumanna Alþjóðasambands jafnaðarmanna, til þess að reyna að beita sér með virkum hætti fyrir beinum viðræðum fulltrúa Palestínumanna annars vegar og hins vegar samtaka gyðinga í Bandaríkjunum, eins og hv. frsm. vék að að utanrríkisráðherra Svía hefði gert að lokinni þessari samþykkt.
    Á hitt er svo að líta að stjórnmálaþróun innan Ísraelsríkis hefur orðið á þann veg að þau öfl sem lengst ganga eða harðdrægust eru í þessum deilum hafa styrkt pólitíska stöðu sína og óljóst er um afstöðu núverandi stjórnvalda til þess hver gætu orðið næstu skref. Það telst einnig til mjög merkra nýmæla að Bandaríkjastjórn hefur efnt til beinna viðræðna við fulltrúa Palestínumanna, en þær viðræður voru í fyrsta lagi teknar upp vegna yfirlýsingar þjóðarráðsins um viðurkenningu á tilverurétti Ísraels og snúast að sjálfsögðu um það að reyna að fylgja fram tillögum sem utanríkisráðherrar Bandaríkjanna, fleiri en einn, hafa reynt að fá stuðning við, þ.e. tillögum um alþjóðlega ráðstefnu um þessi deilumál byggða á þessum grundvallarreglum um land fyrir frið, öryggi landamæra og sjálfsákvörðunarrétt. Þær viðræður eru yfirstandandi og þeim er ekki lokið og kannski nokkuð óljóst hvernig þeim lyktar.
    Að vísu er það rétt að ýmsir talsmenn Frelsissamtaka Palestínumanna hafa tekið skýrt fram að viðurkenning á tilverurétti Ísraels og samþykki við þá grundvallarstefnu, sem fram kemur í þessum ályktunum Sameinuðu þjóðanna, bindi ekki hendur PLO sem slíkra til þess að efna til aðgerða gegn Ísrael og þess vegna fer kannski nokkuð tvennum sögum af því hversu óyggjandi skuldbindandi yfirlýsing þjóðarráðsins er en á það hefur a.m.k. enn ekki reynt. Þetta er jákvæð þróun og umtalsverð breyting í grundvallaratriðum frá því sem var þegar við ræddum þessi mál á sl. hausti.
    Ég tel í alla staði eðlilegt, eins og mig minnir reyndar að ég hafi skýrt frá í þessum umræðum, að

Alþingi Íslendinga álykti um þessi mál og lýsi vilja sínum til þess að stuðla að friði og sáttum í þessum heimshluta. Á sínum tíma voru nokkrar deilur um það að á seinasta allsherjarþingi sátu fulltrúar Íslendinga hjá við tillögu um einhliða fordæmingu á Ísraelsríki. Í þeim umræðum lýsti ég þeirri skoðun minni að að væri til lítils gagns að hafa uppi einhliða fordæmingu á öðrum deiluaðilanum og vitnaði í því efni til ýmissa annarra ályktana á alþjóðlegum vettvangi, t.d. Evrópuráðsins og ályktana Alþjóðasambands jafnaðarmanna um málið sem hefði verið með talsvert öðrum hætti. Með leyfi forseta vil ég rifja það upp --- og þá er ég að vitna til samþykktar Alþjóðasambandsins sem gerð var í Madrid um mitt ár 1988, en þar sagði m.a.:
    ,,Við áréttum stuðning okkar við alþjóðlega friðarráðstefnu sem verði haldin á vegum Sameinuðu þjóðanna og á grundvelli Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og á grundvelli tillagna öryggisráðsins nr. 242 og 338, þ.e. frá árunum 1967 og 1973, um það að fá lausn sem tryggði öryggi Ísraels og sjálfsákvörðunarrétt Palestínumanna.``
    Síðan segir í grg. tillögunnar:
    ,,Á þessari ráðstefnu skyldu allir aðilar málsins, þar með talið Palestínumenn sem ættu að hafa rétt til þess að velja sér eigin fulltrúa, taka þátt.``
    Síðan kom fram í þessari ályktun bein áskorun sem ég, með leyfi forseta, vitna til og er á þessa leið:
    ,,Alþjóðasamband jafnaðarmanna beinir því til allra deiluaðila og til gyðinga og til fólksins í Arabalöndunum að foraðst ofbeldi og allar athafnir sem brjóta í bága við alþjóðalög og mannréttindi. Meðan yfir stendur hernám Ísraels á þessum svæðum hvílir sérstök skylda á herðum hernaðaryfirvalda Ísraels. Við fordæmum harðlega það ofbeldi sem Ísrael hefur sýnt á hernumdu svæðunum. Á sama tíma fordæmum við harðlega skæruliðaárásir Palestínuhópa eða annarra samtaka gegn borgaralegum fórnarlömbum innan Ísraelsríkis.``
    Virðulegi forseti. Eins og ég sagði, þá ber tillagan þess kannski nokkur merki að hún er fram sett áður en þær breytingar hafa orðið sem hv. frsm. reifaði í sínu máli og ég hef vikið að nokkrum orðum. Ef spurt er um mína
afstöðu til þessarar till., þá er hún á þá leið að ég tel í alla staði eðlilegt að Alþingi marki stefnu eða lýsi afstöðu, lýsi friðarvilja og lýsi því eftir hvaða leiðum við teljum helst árangurs að vænta í að leiða deiluaðila að samningaborði og fá fram varanlegar lausnir. Í því efni mundi ég fyrst og fremst benda á að það bæri að skoða texta ályktunartillögunnar á þann veg að hún væri ekki einhliða fordæming heldur meira í anda þeirrar ályktunar, sem ég vitnaði til áðan og kennd er við Alþjóðasamband jafnaðarmanna sem er áskorun til deiluaðila um það að forðast ofbeldisverk á báða bóga en einbeita sér að því að finna pólitíska lausn á þessum erfiða pólitíska vanda. Aðrar athugasemdir er ýmsar hægt að gera sem ég sé ekki ástæðu til að gera nú en væri eðlilegt að yrði komið á framfæri og fengi umfjöllun þegar málið væri

komið í nefnd.