Ökunám og ökukennsla
Mánudaginn 06. mars 1989

     Flm. (Kristín Halldórsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að nefna það að mér þykir afleitt að sjá hvað virðulegu stólarnir í fremstu röð eru fáliðaðir nú á þessum þingfundi og sakna sérstaklega hæstv. dómsmrh. þar sem hér á að ræða mál sem ég tel skipta miklu varðandi bætta umnferðarmenningu sem sannarlega er nauðsyn á að ræða og vildi mega óska þess að honum yrði a.m.k. gert viðvart um þessa umræðu ef hann kynni að vilja tjá sig eitthvað um þetta efni. ( Forseti: Dómsmrh. er ekki í húsinu, hann mun vera erlendis og er því ekki hægt að koma þeim skilaboðum svo að gagni komi.) Sennilega ekki, nei. Ég þakka fyrir það, ég hafði ekki frétt af því að hann væri ekki á landinu.
    Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 134 um ökunám og ökukennslu og meðflytjendur mínir eru hv. þingkonur Málmfríður Sigurðardóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir, Danfríður Skarphéðinsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir og Kristín Einarsdóttir. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að láta endurskoða reglugerð um ökukennslu, próf ökumanna o.fl., nr. 787 13. des. 1983, sbr. reglugerð nr. 448 31. okt. 1983 og nr. 116 29. febr. 1988, með það að markmiði að settar verði reglur um starfsemi ökuskóla, gerðar strangari kröfur til ökukennara og prófdómenda og að kunnátta nýliða í akstri verði aukin og bætt.``
    Þessi tillaga kom fram hér á Alþingi í nóvemberlok og þykir mér auðvitað miður að ekki skyldi nást að mæla fyrir henni fyrr en nú. Í grg. með henni er skýrt frá því að á árinu 1988, fram til þess dags sem tillagan var lögð fram, hefðu alls 25 manns dáið í umferðarslysum, þar af 13 30 ára og yngri og 7 af þeim undir tvítugu. Þar er þess einnig getið til samanburðar að allt árið 1987 urðu 22 dauðaslys í umferðinni. Hins vegar kemur það ekki fram að tala látinna í þessum 22 dauðaslysum munu vera 24 og skal því hér bætt við þessar upplýsingar. --- Nú er eins og fram kom nokkuð um liðið síðan þessi tillaga kom fram og tölulegar upplýsingar nú fyrir hendi um allt síðasta ár, en samkvæmt þeim létust alls 29 manns í umferðarslysum á árinu 1988.
    Umferðarráð kynnti nýlega skýrslu um umferðarslys á árinu 1987 og tölulegar staðreyndir um slys á síðasta ári. Samkvæmt þeirri skýrslu slösuðust 939 í umferðarslysum á síðasta ári eða 40 færri en árið á undan. Látnum fjölgaði hins vegar úr 24 í 29 eins og fram er komið og það er athyglisvert að á síðasta ári er tala slasaðra á aldrinum 7--14 ára 80, en var 108 árið 1987. Það er fyllsta ástæða til þess að reyna að gera sér grein fyrir orsökum þessarar fækkunar sem er að sjálfsögðu gleðileg og er vonandi ekki bara um tilviljun að ræða. Þeir sem urðu fyrir mjög miklum meiðslum urðu 299 á síðasta ári samanborið við 380 manns árið 1987 og er slík fækkun sömuleiðis ljós punktur í þeirri hörmulegu lesningu sem slíkar skýrslur sem þessi annars er. Að sjálfsögðu á aukin notkun bílbelta þar stóran hlut að máli. Því miður hefur svo það sem af er þessu ári ekki liðið áfallalaust eins og mönnum er kunnugt. Það höfðu

ekki margir dagar liðið af árinu þegar fyrsta banaslysið varð í umferðinni og nú munu þau vera orðin þrjú. Það er því deginum ljósara að leita þarf stöðugt leiða til úrbóta gegn þeim voða sem sífellt sækir að okkur í umferðinni.
    Það er svo enn einn óhugnaðurinn sem birtist í því að samkvæmt líkindareikningi eiga 20--25 piltar af hverjum 500 á aldrinum 17--18 ára það á hættu að slasast lífshættulega í umferðinni, þ.e. á fyrsta ári með ökuréttindi. Sem sagt: 20--25 piltar af hverjum 500 á aldrinum 17--18 ára eiga það á hættu að slasast lífshættulega, örkumlast eða jafnvel deyja. En á þessum aldri eiga 10--12 stúlkur af hverjum 500 hið sama á hættu. Fleiri tölur þarf ekki að nefna. Við hljótum að leita orsaka og úrræða.
    Það er skoðun okkar sem flytjum þessa tillögu að ökukennslan hljóti að ráða miklu um aksturslag unga fólksins og að góð ökukennsla sé það veganesti í orðsins fyllstu merkingu sem stjórnvöldum beri að tryggja. Almenningur hefur alls ekki verið nægilega kröfuharður í þeim efnum og stjórnvöld hafa sofið á verðinum og því er þessi tillaga borin fram til þess að ýta við þeim. Þeir sem hafa knúið á um úrbætur eru fyrst og fremst ökukennarar sjálfir sem hafa ítrekað krafist endurskoðunar og endurskipulagningar bæði ökukennslu og ökukennaranáms.
    Það er einnig rétt að minna á nál. allshn. Nd. við afgreiðslu umferðarlaganna í apríl 1987, en þar standa m.a. þessi orð, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin telur nauðsyn á að setja nýjar reglur um ökukennslu og ökunám, annaðhvort í sérstökum lögum eða reglugerð þar sem ítarlega verði fjallað um menntun ökukennara og námsefni og lágmarksfjölda kennslustunda til ökuprófs, en mun strangari ákvæði gilda annars staðar á Norðurlöndum í þessum efnum en hér á landi.``
    Ekki er mér kunnugt um að neitt hafi gerst í þessu efni þannig að eftir standa aðeins þessi orð í nál. allshn. Nd.
    Í grg. með þáltill. okkar er gerður nokkur samanburður á þessum kröfum sem eru varðandi ökukennaranám á Norðurlöndunum og það upplýst að þar sem fæstra námsstunda er krafist undir ökukennarapróf er þó um fjórfalt fleiri stundir að
ræða en hjá íslenskum ökukennurum. Það er fremur ótrúlegt að það sé svona margfalt flóknara og erfiðara að kenna akstur í grannlöndunum. Nú er kennslustundafjöldinn vitanlega ekki fyrir öllu, en ég held að þessar tölur sem nefndar eru hér í grg. sýni að það er nauðsynlegt að endurskoða alla tilhögun og áherslur í ökukennaranámi hér á landi, ekki síst með tilliti til breyttra aðstæðna í umferðinni. Hygg ég að fáir muni fagna þeirri endurskoðun meira en ökukennarar sjálfir sem hafa ýmsar tillögur fram að færa í þessum efnum.
    Enn mikilvægara er þó að taka ökunámið sjálft fastari tökum en þar er augljóslega pottur brotinn. Í því sambandi má minna á að ökunám og ökupróf koma vissulega við pyngjuna og umhugsunarvert er hvort það á ekki sinn stóra þátt í því hvað nýliðar í

akstri eru oft illa undirbúnir. Heildarkostnaðurinn getur verið á bilinu frá 15 þús. til 40 þús. kr., allt eftir fjölda ökutíma, og mun algengast að kostnaðurinn nemi 27--30 þús. kr. og má nærri geta að það munar um minna hjá lágtekjufólki. Það er mikill þrýstingur á ökukennara að hafa ökutímana sem fæsta og yfirvöld eru þeim því miður lítill bakhjarl. Afleiðingin sú að við sendum unga fólkið okkar út í umferðina með heldur merglítið veganesti. Þetta ástand er engan veginn sæmandi og kallar á tafarlausar úrbætur.
    Ökunám á ekki að vera fólgið í biturri reynslu. Setja þarf reglur um lágmarksfjölda ökutíma og búa svo um hnútana að nemendur fái þjálfun í akstri við fjölbreytilegar aðstæður, t.d. á sérhönnuðum akbrautum. Það er vissulega athugandi að færa hluta ökukennslunnar inn í framhaldsskólana. Þá þarf að taka til gaumgæfilegrar athugunar hvort ástæða er til að hækka bílprófsaldur eða veita bráðabirgðaskírteini og setja skilyrði um akstur undir eftirliti reynds ökumanns fyrsta kastið eftir ökupróf. Fjölmargt fleira mætti að sjálfsögðu gera til þess að stuðla að bættri umferðarmenningu, t.d. er nauðsynlegt að efla rannsóknir á umferðarslysum svo að auðveldara verði að greina orsakir og bæta úr vandanum. Þá þarf að auka og samræma kennslu í umferðarmálum, bæði í grunnskólum og í framhaldsskólum. Og hér er við að bæta að við nánari athugun þótti okkur rétt að benda á þann möguleika að koma á fót aðfaranámi til ökuprófs í 9. bekk grunnskóla þar sem unnt er að ná til allra skólanemenda og um það flytjum við sérstaka þáltill. á þskj. 494 undir forustu hv. þingkonu Jóhönnu Þorsteinsdóttur.
    Það þarf að auka og bæta fræðslu í fjölmiðlum sem oft hafa reynst drjúgir í áróðri gegn umferðarslysum en því miður einnig haft áhrif á hinn veginn þar sem iðulega er ýtt undir hraðadýrkun í margvíslegu fjölmiðlaefni. Þá gætu tryggingafélög stuðlað að meiri aðgát nýliða í akstri, t.d. með því að verðlauna þá sem aka fyrstu tvö árin án þess að valda tjóni. Einnig er nauðsynlegt að hafa öfluga umferðargæslu.
    Fjölmargar ábendingar varðandi þessi mál hafa komið fram bæði í ræðu og riti sem er sjálfsagt að hafa til hliðsjónar við framkvæmd þessarar till. til þál. Skal þar sérstaklega bent á samantekt ráðstefnu um ökukennslu og umferðarmenningu sem haldin var 18. nóv. 1987, en setning á bls. 78 í því riti getur verið lokaorð þessa ræðustúfs, þar sem svo segir:
    ,,Það er afleitt að fá lélega kennslu í mannkynssögu en það getur verið lífshættulegt að fá lélega ökukennslu.`` Geta það verið einkunnarorð þessarar tillögu okkar.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég til að till. verði vísað til síðari umr. og hv. allshn.