Hjúkrunarheimili fyrir heilaskaðaða
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Skúli Alexandersson):
    Virðulegi forseti. Fyrir nokkrum árum flutti Helgi Seljan hér á hv. Alþingi þáltill. um að reist yrði umönnunar- og hjúkrunarheimili fyrir hin verst leiknu fórnarlömb umferðarslysanna, þá sem hvort tveggja höfðu misst andlegt og líkamlegt atgervi sitt. Alþingi vísaði málinu til ríkisstjórnar en það gerðist ekkert. Þessir einstaklingar eiga sér enn í dag engan þann fasta samastað sem þeim er þörf á með umönnun við hæfi, endurhæfingu og aðra þá aðstoð til sem allra eðlilegastra lífshátta.
    Löngu er viðurkennd hin brýna og óhjákvæmilega nauðsyn fyrir sérheimili, hjúkrunarheimili fyrir þetta fólk svo það megi njóta þess sem í mannlegu valdi stendur að veita því. Hér er um fámennan hóp að ræða, of stóran þó, en ekki svo stóran, þó erfiður sé, að ókleift sé að leysa vanda þess fólks betur en nú er. Páll Gíslason læknir og borgarfulltrúi segir svo um vanda og stöðu þessa fólks í blaðagrein, með leyfi forseta:
    ,,Einn er sá vandi sem þjóðfélag okkar hefur ekki leyst. Hann er sá að mikill skortur er á viðunandi aðstöðu fyrir ungt fólk sem hefur orðið öryrkjar af völdum slysa eða sjúkdóma. Það er flest fjölfatlað og þarf mikla umönnun og þjálfun til að halda við þeirri getu sem það hefur náð eftir fyrstu meðferð. Hér er um að ræða ungt fólk sem hefur orðið illa úti vegna umferðarslysa og sjúkdóma og bíður þess aldrei bætur. Oft er um varanlega skemmd á heila að ræða. Ekki er því hægt að búast við neinum bata, en hægt er að halda í horfinu. Við könnun hefur komið í ljós að um 20 manns er svo farið víðs vegar á landinu, en langflestir hér á höfuðborgarsvæðinu. Þetta fólk vistast á öryrkjadeildum, sem í flestum tilfellum eru sniðnar fyrir aldrað fólk, og mikil þrengsli eru alls staðar. Í fæstum tilfellum geta þeir haft hjá sér nema minnsta magn af persónulegum munum, sem eru þeim kærir og oft er húsnæðið aðeins eitt horn í sjúkrastofu. Hér er þó ekki um neinar skammtímadvalir að ræða því að ekki er um annað að ræða en ævilanga dvöl.``
    Í ágústmánuði sl. var skipuð byggingarnefnd fyrir væntanlegt hjúkrunarheimili fyrir heilaskaðaða og því er ætlaður staður við Grensás í tengslum við hjúkrunarþjálfunardeildina þar. Til að frétta af áformum ríkisstjórnar og heilbrrh. um byggingu þessa hjúkrunarheimilis hef ég óskað eftir svörum hæstv. heilbr.- og trmrh. við eftirfarandi spurningum:
    1. Hvenær má vænta þess að framkvæmdir hefjist við hjúkrunarheimili fyrir heilaskaðaða?
    2. Hefur ráðherra áform um sérstaka fjárveitingu til þessa verkefnis?