Aðfaranám til ökuprófs
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Valgerður Sverrisdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég lýsi stuðningi við meginefni þeirrar tillögu sem hér er fram komin og vil geta þess í því sambandi að á nýafstöðnu Norðurlandaráðsþingi var samþykkt tillaga þar sem því var beint til ráðherranefndarinnar að komið verði á stofn norrænum umferðarkennaraskóla. Við hv. 13. þm. Reykv. vorum meðflm. að þeirri tillögu. Við höfum áhyggjur af slysum í umferðinni og það er eins með nágranna okkar á hinum Norðurlöndunum. Þar þykir mönnum mjög vera pottur brotinn og þá kannski sérstaklega varðandi ökukennsluna eða ökukennaranámið ef svo mætti að orði komast.
    Ég vildi með þessum örfáu orðum lýsa því yfir að ég held að hér sé ágætismál á ferðinni. Þetta er mál sem verður að taka á hér á landi. Það er ekki einleikið hvað við missum marga í umferðinni. Það er vandi að keyra bíl, það þarf engum blöðum um það að fletta, og það hlýtur því að þurfa að vanda vel til kennslunnar.