Textasímaþjónusta við Landssímann
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegur forseti. Í fyrra flutti ég ásamt fleirum þáltill. þess efnis að komið yrði upp textasíma við Landssímann til að þjónusta heyrnarlausa og heyrnarskerta. Sú tillaga flæktist einhvern veginn til og frá og dagaði svo uppi. Þó er hér um tiltölulega einfalt og ódýrt mál að ræða en mjög mikilvægt fyrir þann hóp fatlaðra sem getur ekki nýtt sér hið almenna símakerfi, ekki einu sinni í neyðartilfellum. Það verður að flokkast undir sjálfsögð mannréttindi í nútímaþjóðfélagi að geta a.m.k. náð í hjálp þegar svo stendur á. Æskilegt væri auðvitað að textasímar væru sem víðast, en það er ekki í augsýn og ég vona að það stafi af einhverjum misskilningi en ekki skilningsleysi að þetta sjálfsagða öryggis- og mannréttindamál fékk ekki farsæla lausn. Textasímar kosta um það bil 12.500 kr. og enga sérþekkingu þarf til að nota þá, ekki meira en t.d. að læra á almennt skiptiborð. Ekki þyrfti að ráða sérstakan starfsmann því að varla yrðu símalínurnar rauðglóandi því hér er einungis um að ræða nokkur hundruð manns og einungis ætlað til þess að sinna neyðartilfellum.
    Mér er sagt að uppi sé einhver ágreiningur um tæknilegar lausnir í þessum málum, þ.e. hvort eigi að nota textasíma eða tölvur. En það er illt til þess að vita að slíkur ágreiningur tefji málið væntanlegum notendum til baga. Það eiga margir heyrnarskertir og heyrnarlausir þegar textasíma og fá aðstoð frá Tryggingastofnun til að kaupa slíkt tæki.
    Nú kann vel að vera að tæknimöguleikar tölvunnar séu meiri en textasímans, en fáir heyrnarskertir hafa þegar eignast slíkar tölvur og ef textasími yrði nú tekinn upp við Landssímann og síðan kæmi í ljós einhvern tíma í náinni framtíð að betra væri að skipta yfir í tölvu gerði það ekki mikið til því að oft hefur nú stærri summa farið í súginn en 12.500 kr. Í almenna síma- og fjarskiptakerfinu þykir sjálfsagt að skipta um tæki og búnað jafnóðum og tæknin verður fullkomnari.
    Því vil ég spyrja hæstv. samgrh. hvort hann hyggist beita sér fyrir lausn þessa máls, í fyrsta lagi að koma upp neyðarsíma við Landssímann fyrir heyrnarskerta og í öðru lagi hvort hann hyggist beita sér fyrir því að fleiri opinberar stofnanir komi upp slíkri þjónustu til að spara heyrnarlausum spor og fyrirhöfn. Þeir eiga rétt á því eins og aðrir þegnar þjóðfélagsins að geta nýtt sér þá þjónustu sem samfélagið hefur upp á að bjóða og textasíminn er fyrir þá jafneðlileg krafa og almenn ákvæði um aðgengi fyrir fatlaða.