Textasímaþjónusta við Landssímann
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Á þskj. 492 beinir Þórhildur Þorleifsdóttir, 18. þm. Reykv., til mín fsp. í tvennu lagi.
,,1. Er ætlunin að koma á fót neyðarsíma, svokölluðum textasíma, fyrir heyrnarskerta við langlínumiðstöðina 02?
    2. Hefur samgrh. hug á að athuga samvinnu við opinberar stofnanir við uppsetningu slíkra síma?``
    Fyrri fsp. svara ég játandi. Ég hef með bréfi dags. í gær falið póst- og símamálastjóra að koma á fót neyðarsíma að næturlagi fyrir heyrnarskerta við langlínumiðstöðina 02. Þessi neyðartextasímaþjónusta verður rekin til reynslu í hálft til eitt ár og eingöngu veitt sem þjónusta í neyðartilvikum, þ.e. til að ná sambandi við lögreglu, slökkvilið, lækna o.s.frv. meðan séð verður hver verður framvinda hugmynda um allsherjarþjónustumiðstöð fyrir heyrnarskerta. Að þessum reynslutíma liðnum verður þetta mál í heild endurskoðað.
    Svar við síðari spurningunni er einnig já. Ég mun að sjálfsögðu beita mér fyrir samráði við ráðuneyti og forsvarsmenn opinberra stofnana eins og t.d. heilbr.- og trmrn. vegna Tryggingastofnunar, heilsugæslustöðva, slysadeilda og dómsmrn. vegna löggæslu. Samkvæmt upplýsingum frá Heyrnarhjálp hafa eftirtaldar stofnanir textasíma: Slökkviliðið í Reykjavík, Vélamiðstöð Reykjavíkur, Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar, Rafmagnsveita Reykjavíkur og Öryrkjabandalagið.
    Nú eru í notkun um 282 textasímar, þar af einn á hverri framangreindri stofnun. Það vekur sérstaka athygli að læknar eða læknamiðstöðvar geta ekki veitt þessa þjónustu.