Sjónvarpssendingar um gervihnetti
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að athygli mín var vakin á þessari umræðu, að hún færi fram núna, og segi það að útvarpslög eru til endurskoðunar. Útvarpslaganefnd skilar áliti reyndar í kvöld eða fyrramálið. Þar er tekið á mörgum málum, m.a. að því er varðar sjónvarpssendingar um gervihnetti. Ég er hins vegar ekki sammála því að það eigi að fella niður þýðingarskyldu. Ég vil ganga eins langt í því og unnt er tæknilega. Mér er ljóst að á því eru nokkur vandkvæði að hrifsa geislann utan úr geimnum og snara honum á okkar tungu jafnharðan. Það er ljóst hvaða vandkvæði fylgja því. Hins vegar hef ég verið þeirrar skoðunar að það ætti að ganga þarna eins langt og tæknilega og fjárhagslega er kleift.
    Þetta leiðir hugann að þeirri staðreynd að við erum með verulegan hluta af okkar sjónvarpsefni á erlendum tungum, einkum ensku, sem er stóralvarlegt mál, þannig að okkar börn, okkar yngsta kynslóð vex upp í framandi hljóðumhverfi, allt öðru en því sem við ólumst upp í. Það leiðir hugann að því hvaða aðstæður þau munu hafa til að innræta sínum börnum þær forsendur sem við kynntumst varðandi máluppeldi og málrækt.
    En eins og ég sagði áðan, virðulegi forseti: Þessi mál koma hér vafalaust til umræðu og athugunar mjög fljótlega þegar frv. að nýjum útvarpslögum verður lagt fyrir Alþingi.