Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 17. mars 1989

     Guðrún Helgadóttir:
    Virðulegur forseti. Nú á þessu vori verður það vonandi hlutskipti okkar þingmanna að gera enn einu sinni allróttækar breytingar á húsnæðislánakerfinu. Undan því verður ekki skorast þótt öll fyrri fyrirheit um 1000 ára ríkið í húsnæðismálum svífi mönnum óneitanlega fyrir hugskotssjónum á þessari stundu. Það hefði líka verið mér hugnanlegra að vinna nú frekar að heildarendurskoðun húsnæðiskerfisins með það fyrir augum að efla hina félagslegu kosti og tengja þá hinum almenna hluta húsnæðiskerfisins í samfellt lánakerfi þar sem öllum einstaklingum og fjölskyldum sé tryggt húsnæði á kjörum sem eru í samræmi við tekjur þeirra og aðstöðu að öðru leyti. Aðstoðin við fólk yrði mun markvissari en nú er þegar fólki er veitt lán á lágum vöxtum til rúmlega 40 ára til kaupa á húsnæði úr Byggingarsjóði verkamanna án tillits til þess hvernig tekjur þeirra og aðstaða breytast á tímabilinu. Þetta er að sjálfsögðu gæfa þeirra sem njóta þess, en þeir eru bara svo margir sem standa utan kerfisins og það hlýtur að vera skylda okkar gagnvart þeim að tryggja að fjármagn til félagslegs húsnæðis nýtist með markvissari hætti og að í slíku kerfi sé húsnæðisöryggi fjölskyldunnar haft að leiðarljósi en ekki einhverjar óljósar séreignarhugsjónir.
    Í húsbréfakerfinu sem nú er að fæðast getur falist mikilvægur vísir að nýskipan mála í þessum efnum. Í fyrsta skipti er með skipulegum hætti tekið á því að fólk með háar tekjur og miklar eignir hafi ekki í krafti aðstöðu sinnar forgang að þeirri fyrirgreiðslu sem hið opinbera veitir vegna húsnæðiskaupa þannig að vaxtakostnaður hinna efnuðu af húsbréfum verður sem næst því sem þeir þyrftu að borga annars staðar á markaðnum. Ríkið ber því takmarkaðan kostnað af fjárfestingum þeirra andstætt því sem nú er.
    Í öðru lagi gefur þessi tenging við tekjur og eignir færi á að tengja saman séreignakerfið og hið félagslega kerfi með þeim hætti að stórir hópar fólks lendi ekki milli skips og bryggju í húsnæðiskerfinu eins og nú gerist. Í framhaldi af þessu er eðlilegt að gera hið félagslega kerfi sveigjanlegt með svipuðum hætti.
    Í þriðja lagi getur kerfið létt þeim yfirþrýstingi sem nú ríkir á Húsnæðisstofnun þannig að hægt sé að fela henni aukin verkefni í uppbyggingu hins félagslega íbúðakerfis. Í þessu sambandi má og ekki gleymast að víða á landsbyggðinni hafa nýbyggingar séreignahúsnæðis gersamlega stöðvast þrátt fyrir að víða ríki húsnæðisekla og menn á þessum stöðum líta nær eingöngu til félagslegra lausna eins og t.d. búseta- og kaupleiguíbúða.
    Við verðum að gera okkur glögga grein fyrir því að við getum ekki komið á fót húsnæðiskerfi þar sem eignalaust fólk með meðaltekjur og þar undir getur gengið inn af götunni og fest sér kaup á húsnæði. Forsendan fyrir því að húsbréfakerfið fái staðist er að menn séu frjálsir að því að ákveða hvenær þeir vilja kaupa húsnæði og undirbúa það með sparnaði og öðrum þeim hætti sem gerir þeim kleift að standa

undir þeim skuldbindingum sem þeir takast á hendur. Þannig er ljóst að ef við nýtum ekki það svigrúm sem tilkoma húsbréfakerfisins gefur okkur til þess að endurskipuleggja og styrkja hið félagslega íbúðakerfi erum við að stefna fólki í stórum hópum út í fen greiðsluerfiðleika. Búseturéttaríbúðir, kaupleiguíbúðir, verkamannabústaðir og leiguíbúðir verða að vera til sem valkostir fyrir þá sem ekki ráða við fjármögnun húsnæðis á hinum almenna markaði án þess að reisa sér hurðarás um öxl.
    Endurskoðun hins félagslega húsnæðiskerfis hefur dregist úr hömlu og það er ein af ástæðum þess að sífelldar stíflur eru í hinu almenna lánakerfi sem hafa haldið mönnum föngnum. Eðli húsbréfakerfisins er þannig að það skapar sveigjanleika og svigrúm fyrir einstaklingana til þess að laga húsnæðiskaup að sínum eigin fjárhagslegu forsendum, en það refsar þeim hart sem takast á hendur vanhugsaðar fjárskuldbindingar vegna þess hve fjármagnskostnaðurinn verður hár þegar menn reka sig upp úr þakinu sem sett er á endurgreiðsluhluta vaxtakostnaðar.
    Ég fæ ekki varist því að mér finnst umræðan um húsbréfakerfið hafa farið eilítið á svig við veruleikann síðustu vikurnar. Það er eins og það sé eitthvað nýtt að hluti húsverðs sé greiddur með skuldabréfum til einhverra ára. Öðru nær. Það eru hins vegar mörg ár síðan Stefán Ingólfsson verkfræðingur benti á að áhrifaríkasta leiðin til að minnka fjármagnsþörfina í eldra húsnæði væri að lækka útborgunarhlutfallið, þ.e. gera þá kröfu til þeirra sem eru að selja skuldlítið eða skuldlaust húsnæði að þeir lánuðu verulegan hluta íbúðaverðsins. Þegar núverandi lánakerfi var komið á fót gleymdist þetta atriði algerlega með þeim afleiðingum að nú stefnum við hraðbyri í að skuldbinda okkur til þess að lána fjármagn á niðurgreiddum vöxtum til að fylla alla ónýtta veðrétti á eldra húsnæði í landinu. Það er öllum ljóst að á því höfum við engin efni og auk þess er tilgangurinn með slíkri ráðstöfun afar vandséður nema fyrir þær kynslóðir sem eignuðust þetta húsnæði á tímum óverðtryggðra lána.
    Meginrökin fyrir húsbréfakerfinu tel ég einmitt vera þau að það gerir kröfur
til seljenda eldra húsnæðis um að taka þátt í fjármögnun viðskiptanna í stað þess að rétta þeim allt upp í hendurnar eins og nú er gert. Jafnframt því sem húsbréfakerfið gerir þannig auknar kröfur til seljenda kemur hið opinbera til móts við þá með því að veita nokkurs konar ríkisábyrgð á bréfin og með því að tryggja að ávallt verði hægt að selja slík bréf þannig að seljendur fasteigna geti verið óhultir með bréfin sín þótt þau séu gefin út til svo langs tíma sem ætlunin er.
    Kjör þeirra sem kaupa eldra húsnæði með húsbréfum geta við fyrstu sýn sýnst lakari en í núverandi kerfi. Samkvæmt þeim dæmum sem ég hef séð þarf þó svo ekki að vera því að hér geta kaupendur fengið hærra hlutfall kaupverðsins lánað til langs tíma og enn fremur koma vaxtabætur á móti hærri vaxtakostnaði hjá þeim sem eiga eignir og hafa

tekjur undir ákveðnum mörkum. Þannig getur aðstoð hins opinbera vegna húsnæðiskaupa orðið mun markvissari en nú er og komið þeim til góða sem raunverulega þurfa hennar með. Það byggir hins vegar á samþykkt þess frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt sem nú liggur fyrir á þskj. 638. Þar liggur í raun lykillinn að því hvaða kjör verða búin þeim sem ráðast í fasteignakaup og hvernig haldið verður utan um kerfið þannig að það verði ekki ný uppspretta bruðls og óráðsíu fyrir peningastéttirnar í landinu.
    Um það þarf umræðan að snúast vegna þess að það skiptir verulegu máli að menn geri sér grein fyrir því að húsbréfin eru bara eins og hver önnur verðbréf. Tilkoma þeirra skapar möguleika til þess að snúa sig með skynsamlegum hætti út úr þeirri glötuðu stöðu sem skapast hefur í lánakerfinu. Hins vegar leysa þau engan vanda nema menn hafi pólitískt þrek til að fylgja þeim eftir og fylgja eftir þeim markmiðum sem hér hefur verið lýst.
    Margt hefur verið rætt um hugsanleg áhrif húsbréfanna á peningamarkaðinn og vaxtastigið í landinu. Ég neita mér alfarið um að hafa uppi nokkrar spár í þeim efnum, enda ekki öllum hnútum kunnug í musterum víxlanna. Hins vegar lýsi ég ánægju minni með að samstaða skuli hafa tekist meðal stjórnarflokkanna um að fara varlega af stað í vel skilgreindum áföngum þannig að ekki sé hætta á kollsiglingu. Það er einnig sjálfsagt réttlætismál að þeim sem nú halda í vonina í biðröðum hins almenna húsnæðislánakerfis sé gefinn nokkur forgangur í hinu nýja húsbréfakerfi.
    Ég á sæti í hv. félmn. Nd. og mun hafa þar tækifæri til að fjalla ítarlegar um þetta flókna mál en hingað til hefur gefist kostur til. Ég hef í máli mínu lýst stuðningi við þær hugmyndir sem liggja að baki frv. til laga um húsbréfaviðskipti. Því er einfaldlega eins farið með húslánakerfið og annan rekstur í þessu landi að ef takmarkað fjármagn er til ráðstöfunar verður að nýta það með markvissum hætti og leita nýrra lausna. Ég tel að þessar tillögur um húsbréfakerfi ásamt tillögum um breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt séu heiðarleg tilraun í þá átt. Ég mun þess vegna leggja mig fram í hv. félmn. Nd. að greiða fyrir því að þetta frv. verði að lögum á þessu þingi.
    Ég hef lokið máli mínu, virðulegur forseti.