Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Forseti (Kjartan Jóhannsson):
    Af þessu tilefni vil ég biðjast velvirðingar á því út af því að hv. þm. taldi að dregist hefði að hann fengi svör við þessum fyrirspurnum sínum, en það hefur verið í ýmsu að snúast. Ég bið samt velvirðingar á því að hann hafi ekki fengið svör við þessum fyrirspurnum sínum fyrr.
    Varðandi það hvort menn geti verið ánægðir með svörin eða ekki, þá er það auðvitað svo að skoðanir sem eru ekki í samræmi við það sem menn hafa kannski ímyndað sér sjálfir eða þær skoðanir sem menn hafa þykja mönnum kannski stundum verri en þau svör sem þeir eru samþykkir. En þetta er að yfirveguðu ráði. Hins vegar vænti ég þess að hv. þm. skilji að ég get ekki farið að nafngreina menn sem ég hef rætt við þegar ég hef ekki aflað neins leyfis frá þeim og ég tel að það sé ekki mergur málsins. Að hinu leytinu skal ég heita hv. þm. því að að morgni skal ég skoða þetta mál nánar. Ég hef áður gert það hér í þinginu þegar um álitamál hefur verið að ræða að skoða þau nánar og reyndar skipt þá um skoðun í einu tilteknu máli sem ég vona að hv. þm. muni eftir. Ég mun skoða þetta með opnum huga, en ég sé ekki að ég geti það fyrr en að morgni því að þeir sem ég mundi bera mig saman við hafa væntanlega tekið á sig náðir um þetta leyti og ég mundi ekki kunna því vel að fara að vekja þá upp. Ég er sem sagt reiðubúinn til þess að skoða þetta mál nánar að morgni og láta þá í ljós frekara álit eftir því sem tilefni gefst til.