Heræfingar varnarliðsins
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannbalsson):
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð að gefnu tilefni. Hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði í ræðu sinni hér áðan að umræðan hefði leitt í ljós að sitthvað væri athugavert við viðhorf yfirmanna varnarliðsins og þá væntanlega bandarískra stjórnvalda til Íslands og íslenskra stjórnvalda. Þannig sagði hann að þessir aðilar teldu sig ekki þurfa að upplýsa íslensk stjórnvöld eða leita formlegs leyfis þeirra og teldu sig hafa rétt til að margfalda mannafla að æfingum án þess að tilkynna það réttum aðilum. Þetta er allt saman rangt eins og umræðan hefur leitt í ljós. Bandarískum stjórnvöldum og yfirmönnum varnarliðsins er fullkunnugt um það að þeim er skylt að upplýsa íslensk stjórnvöld og þau gera það með reglubundnum hætti. Formið er það að þessi áform eru tilkynnt á fundi varnarmálanefndar, þau eru færð þar til bókar og þau eru skráð þar og sú fundargerð er síðan lögð fyrir utanrrh. og um það er algjörlega óbrigðul starfsregla.
    Það er alls ekki rétt sem sagt var að þeir telji sig hafa rétt til þess að margfalda mannafla að æfingum án þess að tilkynna þetta. Þeim er fullkomlega ljóst að þeir geta engar æfingar haldið á íslensku landi án þess að hafa fyrir því formlegt leyfi íslensks utanrrh. Hitt er svo annað mál að sú hefð virðist hafa skapast að það hafa ekki við þau tvö tækifæri sem hér hefur verið talað um, 1985 og 1987, þá hafa forverar mínir greinilega ekki séð neina sérstaka ástæðu til þess að gera athugasemdir við eða breyta þessum áformum.
    Í annan stað sagði hv. ræðumaður að sitthvað væri athugavert við starfshætti varnarmálaskrifstofu og þá sér í lagi það að hún skrásetti ekki alla fundi, það væru ekki til fundargerðir af öllum samtölum. Og í annan stað að embættismenn væru uppvísir að því að hafa ekki greint utanrrh. frá málum, ekki gefið upplýsingar. Þessu er til að svara, eins og ég hef þegar sagt, að allt sem fram fer á vegum varnarmálanefndar er skráð og bókað. Það hlýtur svo að varða fleiri en embættismenn hvaða starfsreglum ráðherra kemur á í sínu ráðuneyti um það hvort hann krefur embættismenn um að skila sér upplýsingum í formi minnisblaða eða hvort hann hefur þau vinnubrögð að taka við upplýsingum munnlega og hvort hann gefur fyrirmæli munnlega eða hvort hann temur sér það að gefa slík fyrirmæli skriflega. Þetta er spurning um vinnubrögð. En ábyrgðin er að sjálfsögðu ráðherrans á því. Ekki dytti mér annað í hug, ef ég teldi að embættismenn mínir upplýstu mig ekki með fullnægjandi hætti, en að gera aðfinnslu af því tilefni og fara fram á það að það verði þá gert með reglubundnum hætti eða öðrum þeim hætti sem ég tilgreindi. Ég tel því ekki rétt að draga af þessari umræðu þær ályktanir að það beri að gera einhverjar sérstakar galdrabrennuathuganir á starfsemi varnarmálaskrifstofunnar eða hvað þá heldur að veitast með brigslyrðum að yfirmanni hennar sem er áreiðanlega með vönduðustu og trúverðugustu embættismönnum í þjónustu íslensku þjóðarinnar.
    Loks að því er varðar óskir um það að fá ljósrit af skriflegum gögnum, þá verður það auðvitað tekið til

velviljaðrar athugunar.