Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð um þetta viðamikla mál sem hér er komið í 2. umr. Í 1. umr. fór ég fram á áheyrnaraðild fyrir hönd Kvennalistans að hv. félmn. þar sem við eigum ekki fulltrúa og ég átti þess kost að fylgjast nokkuð með afgreiðslu málsins þar. Ég tel að margar þær breytingar sem gerðar hafa verið séu til bóta en hins vegar vil ég lýsa yfir sömu efasemdum og ég gerði við 1. umr. Þær fjalla um hag dagvistarheimila, skóla og reyndar tónlistarskóla. Ég tel að sú valddreifing sem boðuð er í þessu frv. sé mjög mikilsverð. Ég tel líka að það sé afar mikilsvert að draga skýrari línur á milli verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga eins og hér er gert og málsaðilar hafa orðið ásáttir um. Það styð ég heils hugar.
    Hins vegar lýsi ég yfir efasemdum um að fela t.d. rekstur dagvistarheimila eingöngu sveitarfélögunum. Efasemdir mínar eru ekki gagnrýni á getu eða vilja sveitarfélaganna heldur fyrst og fremst ótti um það að ekki verði haldið uppi lágmarksstaðli alls staðar þannig að börn hljóti ekki sömu menntun og þjónustu alls staðar á landinu. Það muni fara eftir fjárhag sveitarfélaga eða jafnvel annarra sem munu taka að sér að reka dagvistarheimili á vegum sveitarfélaga. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að það séu ákvæði í þessum lögum sem tryggi það að menntmrn. hafi umsjón og eftirlit með þessum rekstri að einhverju leyti, ekki til þess að auka miðstýringu og skipta sér af heldur einungis til þess að tryggja lágmarksstaðal. Það finnst mér vera meginefnið.
    Varðandi tónlistarskólana þá er það mál sem á sér ýmsar hliðar en hinu ber ekki að neita að ríkið hefur víða stutt og lyft metnaði sveitarfélaga til þess að efla tónlistaruppeldi og það gildir sama sjónarmiðið þar að tryggja ákveðinn lágmarksstaðal, reyndar ætti í þeim efnum lausnin að vera sú að tónlistaruppeldi og kennsla flytjist inn í grunnskólana, en sé ekki einungis í sérskólum þannig að allir grunnskólanemendur eigi þess kost að njóta tónlistaruppeldis sem aðeins um 45% grunnskólanema fá nú.
    Þetta eru meginathugasemdir við frv. Ég tek reyndar undir með hv. 4. þm. Vesturl. í hans athugasemdum sem komu fram á fundi með fulltrúum Sambands ísl. sveitarfélaga sem haldinn var með félmn. beggja deilda. Það væri hægt að gera athugasemdir við ýmsa aðra þætti en mun ekki lengja mál mitt með því en legg þó megináherslu á það að þessum lágmarksskyldum gagnvart börnum varðandi uppeldi þeirra og þjónustu sé sinnt með því að tryggja það í þessum lögum eins og gert er í öðrum sérstökum lögum, t.d. þeim sem varða dagvistarheimili.
    Að öðru leyti lýsi ég yfir stuðningi við málið.