Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Svavar Gestsson:
    Herra forseti. Mér finnst afar sérkennilegt í atkvæðagreiðslu eins og þessari að gagn um tónlistarfræðslu skuli tekið að litlu brotabroti til sem rökstuðningur fyrir afstöðu þingmanns. Af þeim ástæðum áskil ég mér rétt til þess að ræða þetta gagn í heild við 3. umr. málsins. Ég hef lýst því yfir að þrátt fyrir þá niðurstöðu, sem hér er að fást, og það andvaraleysi sem mér finnst birtast í henni hef ég lýst því yfir að ég muni beita mér fyrir því að hin smærri sveitarfélög og fólkið í dreifbýli landsins verði ekki fyrir skaða af þessari ákvörðun. Af því að þeirri yfirlýsingu hefur ekki verið mótmælt, jafnvel ekki af hæstv. félmrh. sem sat hér undir ræðu minni áðan, þá segi ég já. En ég mun ræða skýrsluna hér á eftir við 3. umr. málsins.