Loftmengun á höfuðborgarsvæðinu
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég hef verulegar áhyggjur af þeirri mengun sem er hér á Reykjavíkursvæðinu og kom fram í máli ráðherrans að hefði verið komin upp í 90% af viðmiðunarmörkunum í lok tímabilsins sem mér þykir mjög mikið og hættulega mikið. Ég fagna því að blýmengun hafi minnkað í Reykjavíkurborg og rek það að sjálfsögðu til þess sama sem ráðherrann gerði, að notkun á bensíni sem inniheldur blý hefur minnkað. Hins vegar vek ég athygli á því að það er enn leyfður að hluta til innflutningur á bensíni sem inniheldur blý.
    Ég er mjög ánægð að heyra að á vegum Reykjavíkurborgar skuli vera farið að huga betur að þessum málum og tel það mjög til bóta. Fyrst og fremst fagna ég því, sem kom fram í máli ráðherra, að nú loksins skuli eiga að gefa út mengunarvarnareglugerð sem staðið hefur á allt of lengi og vona að hún verði til bóta, ekki bara að við setjum okkur viðmiðunarmörk heldur að við reynum að finna leiðir til að fara eftir þeim viðmiðunarmörkum og koma í veg fyrir mengunina sem hefur verið gífurleg. Þetta á einnig við um loftið í Reykjavík, ekki síst mengun af þeim hættulegu efnum sem ekki er enn farið að mæla, eins og t.d. köfnunarefnisoxíð og koloxíð.