Leigubifreiðar
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Herra forseti. Þetta frv. er eitt þeirra sem koma í skæðadrífu þingmála þessa dagana. Manni gefst eiginlega ekki tími til að kynna sér þau eins vel og þyrfti. Ég verð nú að segja það að ég hef ekki getað kynnt mér þetta eins vel og ég hefði viljað og ég vil fara fram á að Kvennalistinn eigi áheyrnarfulltrúa í samgn. þegar þetta kemur til umfjöllunar þar.
    En mér sýnist að hér sé verið að setja skýrari reglur um eitt og annað sem sennilega er full þörf á að gera og í fljótu bragði er eiginlega ekki nema tvennt sem ég hefði viljað gera athugasemd við og hvort tveggja er í rauninni búið að nefna. Ég vil láta í ljós þá skoðun okkar kvennalistakvenna að þessum málum þurfi að breyta frá því sem er í frv. Það er þá fyrst í 9. gr. í sambandi við atvinnuleyfið sem fellur úr gildi við andlát leyfishafa. Þó má dánarbú hans eða eftirlifandi maki nýta leyfið í eitt ár.
    Í þeim lögum sem nú eru í gildi hefur eftirlifandi maki leyfi til að nýta atvinnuleyfið í þrjú ár og getur sótt um að nýta það í eitt ár í viðbót. Mér er tjáð að slíkri beiðni hafi yfirleitt aldrei verið hafnað. Rökstuðningurinn fyrir hugsuninni á bak við þetta var sá að vegna lélegra lífeyrissjóða, sem leigubifreiðastjórar hefðu aðgang að, væri þetta gert til að létta undir með eftirlifandi maka og í öðru lagi væri þetta líka vegna þess að það væri kannski þörf á að nýta hugsanlega nýkeypta bifreið. Þá væri þetta í rauninni sanngirnismál. Ég sé ekki að það hafi neitt breyst í þjóðfélaginu nú sem réttlætti brottfall þessara réttinda ekknanna.
    Í öðru lagi var það að mér sýnist að hér sé eiginlega gengið á rétt launþega eða þeirra sem aka leigubifreiðum og taka laun fyrir hjá eigendum. Þeir hafa litið á það þannig að þeir ættu rétt á að hafa einhvern umsagnarrétt um t.d. úthlutun atvinnuleyfa og slíkt og þeir ættu rétt á því að fá aðila í umsjónarnefnd fólksbifreiða. Mér sýnist að þetta sé sanngirnismál fyrir þá.
    Að öðru leyti hef ég á þessari stundu ekki neitt frekar við þetta að athuga. Eins og ég segi hefur mér ekki gefist tími til að skoða þetta neitt nálægt því nógu vel. En ég ítreka að ég óska eftir því að Kvennalistinn fái að hafa áheyrnarfulltrúa í samgn.