Leigubifreiðar
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Matthías Á. Mathiesen:
    Herra forseti. Ég vil aðeins láta þá skoðun mína í ljós að það frv. sem hér er til umræðu fái afgreiðslu á yfirstandandi þingi. Þetta mál hefur verið til umfjöllunar hjá samgrn. í 2--3 undanfarin ár og hjá þeim sem við þessa löggjöf eiga að búa einnig. Það hafa komið upp ákveðin vandamál í þeim efnum og það þarf að ganga frá því og koma þessum hlutum í það horf sem skynsamlegast er talið.
    Hér hafa komið fram ýmis sjónarmið, vissar ábendingar sem nefndin kemur til með að skoða og virða fyrir sér og meta, en ég legg á þetta áherslu og þar sem málinu verður væntanlega vísað til samgn. þar sem ég á sæti mun ég gera mitt til þess að svo geti orðið.