Leigubifreiðar
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa orðið og ágætar ábendingar og þau sjónarmið sem hér hafa verið sett fram. Það er alltaf gagnlegt að fá þau fram strax við 1. umr. mála þannig að hv. nefnd geti kynnt sér þau sjónarmið sem hv. alþm. í fyrri deild setja fram.
    Ég byrja á því að taka það fram til að fullvissa menn um það að við samningu þessa frv. hefur að sjálfsögðu verið reynt eins og kostur er að kynna sér og hlusta á sjónarmið ólíkra hagsmunahópa. Menn mega alls ekki rugla því saman við hitt að það er svo oft þannig að það reynist ekki unnt að taka tillit til allra þeirra sjónarmiða, enda stangast þau stundum á þegar ólíkir hagsmunahópar eiga í hlut. Ég leyfi mér að fullyrða að það hefur verið reynt að þræða eftir því sem kostur er milli ólíkra sjónarmiða og ólíkra hagsmuna þannig að flestir geti sæmilega við unað.
    Það er alltaf hin erfiða list þegar verið er að setja lög sem koma inn á og snerta hagsmuni ólíkra hagsmunaaðila og hagsmunahópa sem vissulega á við hér og ég vona vissulega að menn átti sig á því að upp að því marki sem óskir eða áhugamál hinna einstöku aðila voru ólík hljóta menn auðvitað að þurfa að þræða þar einhvers staðar á milli.
    Hv. þm. Geir H. Haarde kom fyrstur ræðumanna og gerði að umtalsefni 5. gr. frv. þar sem vikið er að svonefndri skylduaðild eða þeirri setningu frv. að á félagssvæði þar sem takmörkun er í gildi skuli bifreiðastjórar í sömu grein vera í sama stéttarfélagi. Ég vek athygli manna á þessu orðalagi. Hér er um að ræða að þar sem viðkomandi félag óskar eftir því að takmörkun sé sett á um fjölda þeirra sem stunda þennan akstur og réttindi þeirra sem í greininni eru og starfa á viðkomandi svæði þannig vernduð verði þessi kvöð í gildi.
    Í þessu sambandi er kannski rétt að vekja athygli á því, eins og reyndar kom hér fram í frammíkalli og ræðu síðasta ræðumanns, hv. 1. þm. Reykv., að orðið ,,stéttarfélag`` ætti með vissum hætti að vera innan gæsalappa. Það er kannski nær að segja að hér sé átt við tiltekin hagsmunasamtök eða skipulagssamtök þeirra sem starfa í greininni á viðkomandi svæði. Hér er alls ekki um að ræða stéttarfélag í skilningi þess að um verkalýðsfélag sé að ræða.
    Ég held að menn sjái ekki aðra leið betri en að binda þessi hlunnindi eða þessi réttindi sem takmörkun af því tagi sem kveðið er á um í 5. gr. felur í sér, menn sjái ekki vænlegri leið til að skipuleggja hana en þá að allir í viðkomandi starfsgrein og viðkomandi svæði séu í einu og sama félagi.
    Hér er um það að ræða að tiltekin hlunnindi eða réttindi eru bundin kvöð. Kvöðin í þessu tilviki er sú að allir séu aðilar að sama skipulagsfélagi um starfsemina. Ég held að það verði ekki fært fram með neinum gildum rökum að þetta sé brot á félagafrelsi stjórnarskrárinnar. Það eru fjölmörg dæmi um að réttindi eða hlunnindi af þessu tagi eða öðru tagi séu

bundin kvöðum og þar á meðal er félagsaðild. Ég hygg að það megi finna þessi dæmi víða. Ég man eftir frá fyrri tíð m.a. umræðum um hvort réttlætanlegt væri að skylda alla nemendur tiltekinna skóla til að vera félagsmenn í skólafélögum, t.d. námsmenn í Háskóla Íslands að vera félagsmenn í stúdentaráði eða öðru slíku. Niðurstaða manna hefur held ég orðið sú að þar sem menn ættu frjálsa völ um hvort menn gerðust félagsmenn að viðkomandi félagsskap, tækju á sig þær kvaðir sem félagsaðildinni fylgja, fengju í staðinn tiltekin hlunnindi og tiltekin réttindi, þá stæðist þetta af því það er ekki um það að ræða að það eigi að ganga út á götur og torg í Reykjavík eða á Akureyri og velja af götunni tiltekna menn og skipa þeim inn í þetta félag. Hér er ekki um þvingaða aðild að félagsskapnum að ræða af því tagi.
    Það samspil sem hér er væntanlega á ferðinni er spurningin um atvinnufrelsi manna annars vegar og félagafrelsi hins vegar og það má út af fyrir sig segja að ef við lítum svo á að hver einasti landsmaður eigi að hafa rétt til að stunda leiguakstur og það falli undir atvinnufrelsi að svo sé sé samhengi bundinnar félagsaðildar og atvinnufrelsis orðið þannig að það varði þessi ákvæði stjórnarskrárinnar. En nú er það bara ekki svo að aðgangur manna að atvinnu af hvaða tagi sem er sé frjáls heldur er hann bundinn bæði ýmiss konar réttindum og oft og tíðum ýmiss konar takmörkunum eins og menn þekkja. Nægir að minna á t.d. aðgang að sjósókn o.s.frv. eins og þeim hlutum er nú háttað. Ég er þeirrar skoðunar og ég held að það komi fljótt í ljós ef málin eru skoðuð að þær takmarkanir sem hér eru á ferðinni séu í engu ólíkar þeim sem viðgangast mjög víða í okkar samfélagi og víða í okkar atvinnulífi. Menn geta svo ef þeir vilja haft uppi um það almenna umræðu hvort þetta sé yfirleitt gott fyrirkomulag eða rétt. Ég skildi vangaveltur hv. 17. þm. Reykv. meira á þessum almennu nótum og geri út af fyrir sig engar athugasemdir við það þó að menn ræði þetta í því samhengi, en leyfi mér að fullyrða að það frv. sem hér er til umræðu sé hvorki betra né verra, þrengra né rúmara hvað þetta snertir en ýmis löggjöf af þessu tagi.
    Ég held að það þurfi ekki að fara ofan í röksemdirnar fyrir því að skipuleggja þessa starfsemi. Þær eru vel kunnar og þekktar, ekki bara hér á Íslandi heldur nánast alls staðar annars staðar. Almannahagsmunir krefjast
þess yfirleitt að flutningastarfsemi af þessu tagi sé skipulögð. Hún er nánast alls staðar skipulögð í heiminum og þar koma ýmsir hlutir inn, bæði öryggissjónarmið, réttarvernd gagnvart þeim sem vinna í viðkomandi grein, líka trygging þess að almenningur sem notar þjónustuna fái þá þjónustu sem hann á heimtingu á og borgar fyrir. Niðurstaðan er yfirleitt sú að það sé erfitt að halda uppi þessari þjónustu nema hún sé skipulögð með einhverjum hætti.
    Hv. 5. þm. Suðurl. Guðni Ágústsson gerði líka nokkur atriði frv. að umtalsefni, þar á meðal hlut sem fleiri komu inn á og er 4. tölul. 8. gr. frv. þar sem

segir að eitt af skilyrðunum fyrir því að menn geti öðlast og haldið atvinnuleyfi til leiguaksturs sé að menn hafi það sem kallað er fullnægjandi heilbrigðisvottorð. Ég skil mjög vel að menn vilji gjarnan fá umræðu um hvað við er átt nánar og þetta er eitt af þeim atriðum sem væntanlega yrðu betur útfærð í reglugerð. Hér er fyrst og fremst vísað til þess að menn séu svo líkamlega hraustir að þeir geti sinnt þessu starfi með eðlilegum hætti og því sem starfinu fylgir, svo sem að aðstoða farþega með farangur og fleira af því tagi, en alls ekki, og það vil ég undirstrika, átt við það og það er ekki ætlunin að fólk sem kann að búa við einhverja fötlun en er þrátt fyrir hana kleift að stunda þetta starf sé útilokað eða því meinað það, síður en svo. Ég legg þann skilning í þetta ákvæði og vil skýra þetta þannig hér og það er hugsun þeirra sem að frv. standa að einmitt verði hægt á grundvelli þessa orðalags frv. að skýra og draga mörkin á milli þeirrar fötlunar og þess heilbrigðis sem til þarf að stunda þetta starf og á þeim grundvelli sé m.a. hægt að taka tillit til þess að tilteknum hópum fatlaðra hentar þetta starf. Þá lít ég svo á að lögin um málefni fatlaðra og þau ákvæði sem þar er að finna um vissan forgang fatlaðs fólks til þeirra starfa sem það getur sinnt eigi hér við. Það leiðir af sjálfu sér að mínu mati og þarf ekki frekari orðlengingar um það. Ég vísa þess vegna í þau lagaákvæði um samspil atvinnuréttinda og atvinnustöðu fatlaðra gagnvart þessum lögum og legg á það áherslu að það er einmitt ætlunin á grundvelli þessarar greinar laganna að skýra þá með reglugerðum mörkin þarna á milli og leggja grundvöll að því að fatlaðir geti eftir atvikum haft vissan forgang að störfum á þessu sviði eftir því sem við verður komið og skynsamlegt þykir.
    Í gildandi lögum hefur verið heimild til undanþágu frá öðrum almennum skilyrðum um leyfisveitingu til að veita fötluðum forgang og þær heimildir hafa verið nokkuð nýttar á undanförnum árum þannig að einhver hluti þeirra umsækjenda sem á hverjum tíma hafa fengið úthlutað atvinnuleyfum hefur komið úr hópi fatlaðra, en ég hygg að það þurfi að fara yfir allt skipulag þeirra hluta og þar á meðal hverjir skuli þá mæla með því hvaða einstaklingar úr hópi þeirra sem sækja um og þannig er háttað til með skuli þá njóta forgangs.
    Svo hefur verið nokkuð að því vikið að hlutur svonefndra leiguliða sé slakur í þessu frv. og þeirra réttindi minni en verið hefur. Ég hygg að svo sé nú ekki ef vitnað er til gildandi laga. Hins vegar geta menn rætt um hvernig þetta frv. kemur út í samanburði við þær venjur sem verið hafa og réttarstaða þessa hóps hefur fyrst og fremst byggst á vegna þess að gildandi lagaákvæði eru ákaflega fátækleg hvað þetta snertir. Hins vegar hafa bæði þær reglugerðir sem í gildi hafa verið og þær hefðir sem notaðar hafa verið haft áhrif. Ég vil aðeins ræða þetta atriði nánar þar sem ýmsir af þeim sem hér töluðu komu inn á það, hv. þm. Stefán Valgeirsson, hv. 16. þm. Reykv. og fleiri.

    Hér er lögð til nokkuð breytt skipan hvað varðar aðgang að atvinnuleyfum og skilyrði til þess að öðlast þau. Ég vek þar athygli á 5. tölul. 8. gr. laganna þar sem segir að eitt af skilyrðunum fyrir því að öðlast atvinnuleyfi sé að viðkomandi hafi starfsreynslu við akstur á fólki. Með öðrum orðum, allir þeir sem hafa starfsreynslu við akstur á fólki, þeir sem hafa keyrt leigubifreiðir, þeir sem hafa keyrt strætisvagna, þeir sem hafa keyrt fólksflutningabifreiðir, eru bærir til að sækja um atvinnuleyfi til leiguaksturs. Þetta er líkara því fyrirkomulagi sem var hér fyrir alllöngu að því er mér er tjáð af aðilum sem þekkja málin frá þeirri tíð og eru kannski einhverjir hér inni sem geta borið um það.
    Á síðari árum hafa hins vegar málin þróast í þann farveg, einkum hér á höfuðborgarsvæðinu, að eingöngu þeir sem leyst hafa af starfandi leigubílstjóra, svonefndir leiguliðar, hafa orðið gjaldgengir til að sækja um atvinnuleyfi og þá hefur starfsaldur eða starfsreynsla þeirra við þann akstur, við þær afleysingar verið lögð til grundvallar. Réttarstaða þess hóps hefur verið mjög bág. Ég tek undir það sem hér er sagt. Ég held að hún hafi verið mjög bág, bæði varðandi það sem hér var nefnt, að þessir aðilar hafa ekki verið fullgildir félagsmenn í sínum samtökum heldur átt þar einhvers konar aukaaðild og ég tel það síst til fyrirmyndar, og ýmislegt fleira mætti nefna. Ég bendi á að eins og þetta hefur þróast hafa menn ekki átt neinn annan kost, hafi þeir viljað afla sér aðstöðu til að sækja um og fá úthlutað atvinnuleyfi til leiguaksturs, en að stunda þennan afleysingaakstur og taka því sem þar hefur boðist. Það hefur orðið nánast eina leið manna til að komast í hóp leigubifreiðastjóra, a.m.k. hér á þessu svæði. Ég held að það þurfi ekki að
fjölyrða um að það hefur ekki sett þennan hóp í mjög sterka stöðu. Réttarstaða hans hefur vægast sagt verið veik af þessum ástæðum. Þeir hafa ekki haft sterka stöðu til að semja um sín kjör né starfsskilyrði að öðru leyti og held ég að þetta liggi í hlutarins eðli. Hér er sem sagt lögð til veruleg breyting á þessu sem opnar það meira þannig að fleiri aðilar sem hafa starfsreynslu á þessu sviði, þ.e. almennt við akstur á fólki, verða nú gjaldgengir og þar með verður það væntanlega svo að sú sérstaða sem hópur svonefndra leiguliða hefur haft að undanförnu minnkar. Þar er líka komin skýringin á því að gert er ráð fyrir breytingum m.a. í umsjónarnefndunum sem fjallað er um í 10. gr. Þar er fyrst og fremst verið að reyna að einfalda málin. Ástæðan fyrir því að samband sveitarfélaga er látið tilnefna þar inn menn í staðinn fyrir einstök sveitarfélög er sú að mörg svæðin spanna fjöldamörg sveitarfélög, jafnvel þannig að engin sérstök samtök viðkomandi sveitarfélaga eru fyrir hendi til að tilnefna menn í umsjónarnefndinar. Eftir sem áður hafa bæjarfélög eða héraðsnefndir sitt að segja um skipulag þessara mála og bendi ég þar á 4. gr. þar sem það er m.a. tekið fram að forsenda takmörkunar leigubifreiða á félagssvæði sé sú að til komi meðmæli viðkomandi bæjarstjórna eða

héraðsnefnda. Það ákvæði er sérstaklega sett í vald þeirra aðila á heimaslóðum.
    Varðandi það sem hér var nefnt um að breytingar hefðu orðið á frv. frá því að fundur átti sér stað með fulltrúum leiguliða í samgrn. í haust og hefur þá margnefnd Ragnhildur Hjaltadóttir verið nefnd til sögunnar sem einn af fundarmönnum, þá hygg ég að þar gæti nokkurs misskilnings því að ef ég man atburðarásina rétt var sá fundur haldinn til að ræða reglugerðardrög sem þá voru til umfjöllunar og ætlunin hafði verið að setja til að reyna að koma á betra skipulagi þessara mála. Í framhaldi af þeim fundi og fljótlega eftir það varð það hins vegar að ráði að ekki dygði minna til en heildarendurskoðun laganna sem slíkra. Nefnd reglugerðardrög voru þá lögð til hliðar og rykfalla þau nú í skúffu og bíða þess að lyktir ráðist hvað snertir það lagafrv. sem hér er nú til umræðu. Ég hygg að þar sé ruglað saman annars vegar samráði sem var í gangi um þau reglugerðardrög og þar munu úthlutunarnefndirnar hafa verið skipaðar eins og var nefnt í umræðunni, enda var þá um talsvert annað fyrirkomulag að ræða. Það hefur síðan orðið útkoman eftir þá vinnu sem lögð hefur verið í undirbúning frv. að leggja til talsvert öðruvísi fyrirkomulag og þar með skýrist sá munur sem hér er á. Menn geta síðan haft á því sínar skoðanir hvort það sé heppileg breyting eða ekki og mér finnst sjálfsagt að taka þau sjónarmið til skoðunar.
    Ég vil þó segja vegna þeirra breytinga sem hér eru lagðar til og varða stöðu leiguliða að ég er tilbúinn að beita mér fyrir því og tel koma til greina að taka upp í frv. ákvæði til bráðabirgða eða auka við 14. gr. frv. hvað snertir þann hóp leiguliða sem nú er fyrir hendi starfandi og hefur starfsreynslu vegna þess að það er augljóst mál að þeir hafa undanfarið verið að afla sér starfsreynslu og leggja á sig akstur til að auka möguleika sína á því að fá úthlutað starfsleyfum. Þar með tel ég komin rök fyrir því að veita þeim hópi sem nú er fyrir hendi og hefur aflað sér tiltekinnar starfsreynslu forgang við úthlutun leyfa fyrst um sinn með bráðabirgðaákvæði í lögunum eða heimild til að setja slík ákvæði í reglugerð. Það tel ég eðlilegt að hv. samgn. ræði og ég hygg að með slíku ákvæði mætti leysa þann ágreining sem ella kynni að verða um þetta atriði. Síðan kæmu komandi aðilar á þessu sviði til með að búa við ákvæði laganna eins og þau yrðu gagnvart framtíðinni.
    Ég hef fullan hug á því og lýsi mig reiðubúinn að reyna að tryggja að réttur þeirra manna sem nú teljast leiguliðar og hafa aflað sér starfsreynslu þegar verði ekki fyrir borð borinn og það var reyndar ætlunin að reyna að sjá fyrir því í frv.
    Ég held ég hafi reyndar farið í gegnum það helsta nema ef vera skyldi það ákvæði sem nokkuð hefur verið rætt og varðar 9. gr. og hv. 7. þm. Norðurl. e. og hv. 16. þm. Reykv. komu inn á, þ.e. spurninguna um hversu lengi dánarbú látins leyfishafa skuli hafa rétt til að nýta leyfið. Þar er í frv. sett inn eitt ár. Hér hafa verið færð fram þau sjónarmið að eðlilegra væri

að hafa þetta þrjú ár eða sambærilegan tíma og verið hefur. Ég hygg að það megi út af fyrir sig færa rök fyrir ýmsu að þessu leyti. Það fer nokkuð eftir því hvaða augum maður lítur þessi atvinnuleyfi. Ég kýs að líta á þau sem réttindi bundin viðkomandi einstaklingi sem hann hefur aflað sér. Réttindi eins og skipstjórnarréttindi eru réttindi viðkomandi einstaklings og ganga ekki í arf né eru nýtanleg dánarbúi. Hér er þó að hluta til um atvinnurekstur fjölskyldu að ræða, það er ljóst, m.a. fjárfestingu í bifreið, og auðvitað getur háttað þannig til að þessi rekstur, þetta atvinnuleyfi sé undirstaða atvinnu fjölskyldu og það er sjálfsagt að taka nokkurt tillit til þess. Ég hygg hins vegar að menn lendi í vissum ógöngum ef menn hafa þetta tímabil mjög langt. Ég spyr til að mynda: Ef maki leyfishafa á fimmtugsaldri verður fyrir því að fyrirvinna fjölskyldunnar, leyfishafi, fellur frá, hvaða munur er þá í raun og veru á því að rökstyðja annars vegar að makinn skuli hafa heimild til að nýta leyfið í þrjú ár eða hins vegar að hann skuli hafa heimild til að nýta það
t.d. til 67 ára aldurs, þar til kemur að venjulegum eftirlaunaaldri viðkomandi einstaklings? Þetta dæmi tek ég til þess að benda mönnum á að menn geta lent í vissum ógöngum ef menn fara að láta þennan tíma verða mjög langan. Ég hygg að eðlilegast sé að líta á þetta tímabil sem visst aðlögunarskeið vegna óvæntra breytinga sem kunna að verða á högum fjölskyldna þegar svona háttar og hefði talið eðlilegt að þetta sé á tímabilinu eitt til tvö eða þrjú ár. Það finnst mér sjálfsagt að ræða og er þá eitt atriðið enn sem hv. samgn. hlýtur að taka til skoðunar.
    Ég fagna því, sem kom fram hjá talsmanni Kvennalistans, að þær kvennalistakonur vilja fá áheyrnarfulltrúa í samgn. til að fjalla um þetta mál og tel það sjálfsagt og fagna áhuga þeirra á því að greiða götu þessa máls eins og ég vil gjarnan skilja þessa ósk.
    Varðandi það mál sem hv. 16. þm. Reykv. kom inn á og snertir aldursmörkin, hvort þar sé eðlilegra að miða við 70 eða 75 ár, þá er það eitt atriðið enn sem auðvitað má færa ýmis rök fyrir. Mér finnst aðalatriðið að fá þá hugsun viðurkennda að í þessu tilliti sem fjöldamörgum öðrum sé eðlilegt að miða við tiltekin aldursmörk, tiltekin starfslok. Síðan eigi einfaldlega að skilgreina þau og draga mörkin að bestu manna yfirsýn og m.a. taka þar tillit til hluta eins og lífeyrisstöðu viðkomandi hóps, atvinnuástands og öryggissjónarmiða að sjálfsögðu. Hér er náskylt atriði á ferðinni því sem á við um til að mynda starfslok flugmanna og fjöldamargra annarra stétta sem hafa ábyrgðarmikil störf með höndum þar sem öryggi bæði sjálfra þeirra og annarra er í húfi. Það eru mér ekki heilög mörk þessi aldursmörk sem þarna eru sérstaklega tilgreind, en mér finnst mikilvægt að afla þeirri grundvallarhugsun stuðnings að það sé eðlilegt að miða við tiltekin mörk og tiltekin starfslok í þessari starfsgrein.
    Ég þakka hv. 1. þm. Reykn. stuðning og áhuga á því að greiða götu frv. að lokinni vandaðri skoðun og

vona að sem flestir geti sameinast um það. Ég segi svo að lokum að ég bið hv. þm. að láta sér ekki koma á óvart þó einhver óróleiki kunni að verða í tengslum við meðferð þessa máls hér á Alþingi. Það er einfaldlega svo að hér er á ferðinni tiltölulega viðkvæmt hagsmunamál sem snertir ýmsa hópa og ég hef sjálfur áþreifanlega orðið var við í meðferð þessara mála að það er, svo ekki sé nú fastara að orði kveðið. Ég hygg að það sé ekki skynsamlegt að taka mikið meira upp í sig en að segja: Það hættir nokkuð til óróleika í kringum þessi mál þegar þau eru til umfjöllunar.