Umhverfismál
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Guðni Ágústsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil hér í upphafi taka undir margt af því sem hæstv. forsrh. sagði í máli sínu þegar hann mælti fyrir þessu frv. Hann taldi að við ættum mikla möguleika að geta okkur gott orð í heiminum að störfum umhverfismála. Þetta er rétt. Hreinleikinn og hin óspillta náttúra gerir þetta að verkum. Hann taldi baráttuna við örfoka land okkar stærsta umhverfisvandamál. Undir það skal einnig tekið en minnt á að skilningur á þessu vandamáli hefur vaxið á síðustu árum. Nú eru allir reiðubúnir að leggja sig fram til baráttunnar við að stöðva gróðureyðinguna. Því er nú mikilvægt að taka ekki kollhnís í þessum málaflokki sem mundi leiða af sér deilur.
    Ég fann það vel að hæstv. forsrh. þekkir vel hvar kvikan liggur í málinu. Hann gaf það að vísu til kynna að hann vill málið fram og telur að hér sé þræddur hinn gullni meðalvegur til að samræma sjónarmið. Hugmenn gera sér ekki alltaf grein fyrir því hvað tíminn er naumur. ,,Betri er krókur en kelda`` og engin leið er að reyna ekki að samræma sjónarmið hinna mörgu sem þetta mál varðar. Atvinnuvegirnir, sveitarfélögin, stofnanirnar og áhugamannahóparnir munu vilja fjalla um málið og gera athugasemdir. Margir yrðu ósáttir og jafnvel reiðir ef keyrslan væri slík hér í gegnum þingið.
    Hæstv. forseti. Hér er lagt fram á síðustu dögum þessa þings þetta stjfrv. um umhverfismál. Um þetta mál sem mörg önnur eru skiptar skoðanir, eins og ég sagði, þó flestir geti tekið undir að á ýmsum sviðum þarf að samræma stjórn umhverfismála. Ég er þeirrar skoðunar að rétt hafi verið hjá ríkisstjórninni að leggja þetta mál fram á þessu þingi, koma því til nefndar og út til hinna ýmsu aðila sem þetta mál varðar til umfjöllunar og umsagnar. Ég tel hæpið að heppilegt geti talist að afgreiða málið sem lög frá þessu þingi. Ekki það að starfsöm nefnd getur auðvitað með vinnu sniðið mestu vankantana af þessu frv. og svo hitt, sem hér hefur komið fram í máli manna, ef menn vilja lengja þinghaldið.
    Ég tel að þrátt fyrir að margt sé gott að segja um þetta frv., þá sé með það eins og önnur mannanna verk, ýmislegt sem beinlínis orkar tvímælis sem hér er lagt til. Vil ég benda á nokkur atriði sem ég geri athugasemdir við. Að vísu vil ég fyrst segja það að ég er dálítið hræddur við þá kröfu sem nú er uppi um að fjölga ráðuneytum. Sérstakt ráðuneyti um hvern málaflokk, eitt um umhverfismál, annað um öryggismál, það þriðja um jafnréttismál o.s.frv. Það er stundum spurning hverju þessi litla þjóð hefur efni á, hvað hún getur á mörgum sviðum fetað í fótspor milljónaþjóðanna. Umsvif stjórnsýslunnar á Íslandi hafa vaxið hröðum skrefum á síðustu árum og eru nú til húsa á þúsundum fermetra hér í borginni. Ég hefði talið réttara að fækka ráðuneytum og tel að ráðherrar ættu alls ekki að vera fleiri en 5--7 á Íslandi.
    Mér sýnist að þrátt fyrir mergð ráðherra þurfi hver og einn á tveimur til þremur aðstoðarmönnum að halda. Fyrir utan það hvað auðveldara hlýtur að vera

að ná samstöðu um málefni með fimm eða sjö mönnum en þegar þeir eru orðnir níu, ellefu eða þrettán eins og einhverjir eru að leggja til sem væri nú ógæfa. Ég hygg að það væri oft léttari störfin hjá hæstv. forsrh. í Stjórnarráðshúsinu ef þeir væru örlítið færri. En þetta var nú útúrdúr. En varnaðarorð um það vandamál sem er að gerast og hefur verið að gerast á síðustu árum. Yfirbyggingin vex. Hefur ekki starfsmönnum ríkisins fjölgað um tvo til fjóra hvern virkan dag í mörg ár?
    Um frv. sjálft vil ég segja þetta: Hér er um mikla byltingu að ræða þar sem endurskoða þarf lög og reglur í stórum stíl, færa til mannafla, hreyfa til fjárveitingar sem eru markaðar ákveðnum stofnunum. Ég tel því að gildistíminn, sem lagt er til í frv. að verði 1. sept., sé fullnærri ef hægt á að vera að koma þessu öllu í kring með skaplegum hætti. Sumarið er ódrjúgur vinnutími bæði út frá fjárveitingum og allri þeirri uppstokkun sem þarf að fara fram. Því hefði verið eðlilegra að miða gildistöku við áramót.
    Hér er gert ráð fyrir að kljúfa margar stofnanir, taka frá þeim verkefni og færa yfir í hið nýja ráðuneyti. Við erum t.d. nýbúnir að endurskoða lög um hollustuhætti. Hér er lagt til að nátengd svið eins og heilbrigðis-, umhverfis- og mengunarvarnaeftirlit heyri undir tvö ráðuneyti. Það má spyrja: Er heppilegt til árangurs að taka upp slíkt fyrirkomulag? Enn fremur: Hver verður staða starfsmanna nýstofnaðs umhverfismálaráðuneytis á meðan starfsmenn þess eiga að vinna að sínum málum en sækja bakhjarl og stoð í lög sem yrðu í endurskoðun?
    Samkvæmt frv. á að endurskoða lögin innan tveggja ára en fullvíst má telja að endurskoðun lagabálkanna taki mun lengri tíma en tvö ár. Verður ekki einhver ringulreið ef við breytum hlutunum svona snöggt? Mér sýnist að hér sé enn fremur stefnt að aukinni miðstýringu, kannski hættulegri ofstjórnun úr ráðuneyti þar sem ráðuneytið sjálft og lögreglan eru tíundaðar sem aðaleftirlitsaðilar eins og fram kemur hér í frv., en þá er það um eftirlit og viðurlög, að auk umhverfismálaráðuneytis og löggæsluaðila á hverjum stað hafa heilbrigðisnefndir, heilbrigðisfulltrúar, skipulagsnefndir, byggingarnefndir og byggingarfulltrúar, náttúruverndarnefndir, gróðurverndarnefndir og
eftirlitsmenn o.s.frv. þetta með höndum.
    Þeir sem í dag fara með heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit eru heilbrigðisfulltrúar sem starfa á vegum sveitarfélaga og í umboði fagnefnda. Við skulum átta okkur á því. Það tel ég að hafi reynst gott fyrirkomulag og kannski ódýrast af öllu dýru. Mörkin eru oft óljós á milli eftirlitssviða, því er mikilvægt að yfirumsjón sé á hendi einnar stofnunar og eins ráðuneytis að mínu viti. Ég tel því vafasamt að taka mengunarvarnir frá heilbrmrn., frá yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins. Ég óttast að slíkt fyrirkomulag skapaði árekstra og reyndar er ég í engum vafa eftir að hafa starfað í stjórn Hollustuverndar í fjögur ár. Ég legg því áherslu á að þingnefndin kanni sérstaklega hvort ekki sé rétt að

jafntengdir málaflokkar og heilbrigðiseftirlit, umhverfiseftirlit og mengunarvarnaeftirlit sé undir yfirstjórn eins ráðuneytis.
    Það vill svo til að ég er hér með í höndunum umsögn um þáltill. sem hér hefur verið flutt, en hún kemur frá forstöðumanni Heilbrigðiseftirlitsins, Þórhalli Halldórssyni. Þar finnst mér vera glögg dæmi um ágreining sem gæti komið upp ef menn færu þá leið að kljúfa mengunarvarnir frá Heilbrigðiseftirlitinu. Við skulum skoða það dæmi, en hann segir:
    ,,Verði hins vegar gerð sú breyting á núgildandi löggjöf að mengunarvarnir verði settar undir nýtt ráðuneyti og aðskilið frá Hollustuvernd ríkisins lítur málið öðruvísi út. Að samþykktri slíkri tillögu gæti heilbrigðisfulltrúi úti á landi staðið frammi fyrir því að rannsóknarniðurstöður á neysluvatni tiltekins þéttbýlisstaðar bentu til þess að vatnið væri efnamengað. Heilbrigðisfulltrúi teldi líklegast að efnamengun stafaði frá gömlum sorphaug í nágrenni vatnsbólsins. Heilbrigðisfulltrúi gerði sér grein fyrir því að hér væri stórmál í uppsiglingu, bæði fjárhagslega og pólitískt. Hann teldi því nauðsynlegt að ráðfæra sig við sitt fagráðuneyti. En hvað er hans fagráðuneyti í þessu tilfelli? Er það heilbrmrn. vegna mengaðs drykkjarvatns eða er það ráðuneyti umhverfismála vegna sorphaugsins sem grunaðs mengunarvalds?
    Vandamál geta einnig komið upp á annan hátt. Kjötvinnslufyrirtæki er staðsett úti á landi á tilteknu eftirlitssvæði. Heilbrigðisfulltrúi hefur gert kröfu til fyrirtækisins um að lóð þess yrði lögð bundnu slitlagi til að hindra að óhreinindi bærust inn í matvælafyrirtækið. Enn fremur að fyrirtækið gengi þannig frá sínu frárennsli að óþrifnaður stafaði ekki af fyrir umhverfið, m.a. með því að setja fitugildru á frárennslislögnina. Eigandi kjötvinnslufyrirtækisins telur að heilbrigðisfulltrúa sé ekki stætt á þessum kröfum og vill neyta réttar síns um málskot til stjórnar Hollustuverndar ríkisins, sérstakrar úrskurðarnefndar skv. 30. gr. laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, eða þá væntanlega samsvarandi aðilja, samkvæmt lagagrein í nýjum lögum um umhverfisvernd. Það getur orðið erfitt fyrir atvinnurekendur ef þeir vilja neyta réttar síns á þennan hátt að ákveða til hvors stjórnvaldsins þeir eiga að snúa sér.
    Þá má enn fremur gera ráð fyrir því að ágreiningur geti komið upp milli þeirra sem sitja annars vegar í stjórn Hollustuverndar ríkisins eða úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit eða hins vegar þeirra sem fyrirhugað umhverfismálaráðuneyti mun væntanlega skipa í sína úrskurðarnefnd um réttmæti niðurstöðunnar.``
    Hér hef ég rætt þetta að ég tel mjög erfitt að kljúfa þetta upp. Ég tel, og það hefur komið hér fram í því sem menn hafa lesið í ályktunum frá heilbrigðisfullrúum, að eðlilegt sé að slíkt heyri undir eitt ráðuneyti.
    Ég vil minnast á annan þátt þessa frv. sem snýr að gróðurvernd, gróðureftirliti og uppgræðslu. Ég er

andstæðingur þess að kljúfa Landgræðslu ríkisins í tvennt. Í 7. gr. segir að umhverfismálaráðuneyti fari með lög um landgræðslu, að því leyti sem tekur til eftirlits með ástandi gróðurs. Ég tel heppilegt að gróðurverndin, gróðureftirlitið og uppgræðslan, heyri undir eitt og sama ráðuneytið og það sé fagráðuneytið. Ég tel enn fremur að þetta fyrirkomulag hafi reynst allvel.
    9. gr. fjallar um að stofna samstarfsnefndir margra ráðuneyta við hið nýja umhverfismálaráðuneyti. Undir þá grein hefði ég þó talið eðlilegt að setja lög um landgræðslu að því leyti sem tekur til eftirlits með ástandi gróðurs. Þar sæti landbúnaðurinn t.d. við sama borð og sjávarútvegurinn um verndun fiskimiða, verndun hvalveiða, verndun hvala og sela, en það er lagt til að sjávarútvegurinn verði þarna með í þessari 9. gr. en ekki þessir þættir sem snerta landbúnaðinn. En þessir málaflokkar heyra áfram undir sjútvrn. en lúta formlegri samvinnu við umhverfismálaráðuneyti.
    Ég hef alltaf talið rétt að þeir sem auðlindir nota beri ábyrgð á skynsamlegri nýtingu þeirra og varðveislu. Ég tel að viðkomandi atvinnumálaráðuneyti eigi að bera ábyrgð á rannsóknum á þeim auðlindum sem það stýrir nýtingu á. Allt annað er í mínum huga að skapa árekstra og búa út flókið kerfi sem nær ekki, því miður, árangri.
    Landgræðslan er fyrst og fremst framkvæmdastofnun sem hefur það að markmiði að stöðva jarðvegs- og gróðureyðingu. Rækta upp örfoka land og vernda gróður
landsins. Verndun gróðurs byggist á náinni samvinnu og gagnkvæmum trúnaði við eigendur eða umráðahafa landsins. Ég óttast að verði eftirlit með ástandi gróðurs tekið af Landgræðslunni og fært yfir í umhverfismálaráðuneyti skapi það vandamál. Ég óttast að verði þessi breyting gerð þá nái sjónarmið þeirra fram sem vilja stjórna gróðurverndarmálum með lögum og tilskipunum án samráðs við bændur. Bændurnir hafa treyst Landgræðslunni fyrir landi sínu og laðast til samstarfs við hana. Bændurnir hafa látið tugþúsunda hektara af landi undir friðuð landgræðslusvæði. Þessari þróun má ekki raska, þessa samvinnu má ekki setja í neina áhættu eins og mér sýnist að mundi eiga sér stað yrði frv. að lögum óbreytt.
    Ég tel enn fremur að rannsókn á gróðurlendum og mat á beitarþoli eigi einnig að heyra undir fagráðuneyti. Eins ber ég efa í brjósti að láta lög um eyðingu refa, minka og fugla heyra undir hið nýja ráðuneyti. Lög um dýravernd einnig. Ég vil koma þessum athugasemdum að við þessa umræðu. Ég þykist hafa bent hér á svo stór vafaatriði að það væri óskynsamlegt að afgreiða þetta mál á þeim tveim vikum sem nú eru eftir af boðuðu þinghaldi.
    Ég óttast að verði málið afgreitt með þessum hætti, þá verði árekstrar víða og þetta ráðuneyti yrði á stuttum tíma mikið bákn og að auki á mörgum sviðum veikt að fást við hin stóru verkefni. Ég legg því til að tíminn fram að næsta þingi verði nýttur til að ná samstöðu þeirra mörgu aðila er þessi mál varða.

Því sumri væri að mínu viti vel varið. Og þegar við kæmum hér til þings á haustdögum tækjum við upp þráðinn á nýjan leik og ættum að geta afgreitt skynsamleg lög áður en næsta jólafrí þingmanna hefst.