Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Flm. (Kristín Halldórsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Þetta er 429. mál þessa þings og meðflm. eru hv. þingkonur Kvennalistans hér í Nd.: Þórhildur Þorleifsdóttir, Kristín Einarsdóttir og Málmfríður Sigurðardóttir. Frv. er í þremur greinum sem hljóða svo, með leyfi forseta:
    ,,1. gr. Við 2. mgr. A-liðar 68. gr. laganna bætist svohljóðandi málsliður:
    Einstæðum foreldrum er heimilt að nýta á sama hátt ónotaðan persónuafslátt barna sinna sem eiga hjá þeim lögheimili.
    2. gr. Við 83. gr. laganna bætist ný málsgrein svohljóðandi:
    Falli annað hjóna frá greiðir eftirlifandi maki eignarskatt eftir sömu reglum og um hjón væri að ræða meðan hann situr í óskiptu búi.
    3. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 1. gr. koma til framkvæmda 1. júlí 1989, en ákvæði 2. gr. gilda um álagningu eignarskatts á árinu 1989 á eignir í árslok 1988.``
    Virðulegi forseti. Í þessu frv. eru lagðar til tvær breytingar á lögunum um tekjuskatt og eignarskatt.
    Sú fyrri felur það í sér að einstæðir foreldrar geti nýtt ónotaðan persónuafslátt barna sinna en samkvæmt núgildandi lögum er aðeins hægt að færa ónotaðan persónuafslátt á milli hjóna, þ.e. eins og segir hér í athugasemdum við 1. gr. að í A-lið 68. gr. laganna er ákvæði um að bæta megi 80% af ónotuðum persónuafslætti annars hjóna við persónuafslátt hins þegar fundinn er tekjuskattur framteljanda. Sem sagt aðeins á milli hjóna og er þannig í raun gert upp á milli sambúðarforma. Hér er lagt til að einstæðir foreldrar geti nýtt ónotaðan persónuafslátt barna sinna með sama hætti og til þess liggja gild rök að mati flytjenda.
    Flest ungt fólk stundar nú nám fram eftir aldri til undirbúnings lífsstarfi sínu og nýtur á meðan margháttaðrar aðstoðar frá foreldrum, svo sem ókeypis fæðis og húsnæðis og annarrar aðstoðar hjá foreldrum. Slíkt þykir öllum sjálfsagt, en er misjafnlega auðvelt eftir aðstæðum. Mörgum einstæðum foreldrum er það erfitt og jafnvel ókleift og er þetta ákvæði fyrst og fremst ætlað til þess að auðvelda þeim þetta hlutverk.
    Auðvitað má segja að ganga hefði mátt enn þá lengra því að vissulega er um margs konar annað sambúðarform að ræða, t.d. systkini. Við völdum að ganga ekki lengra að þessu sinni en að binda þessa heimild við einstæð foreldri og börn þeirra.
    En þess má svo geta að á sínum tíma voru kvennalistakonur andvígar þessu ákvæði um millifærslu persónuafsláttar á milli hjóna og vildu heldur nýta það fé sem þannig er fært til til hækkunar barnabóta, enda í mörgum tilfellum einmitt um það að ræða að annað foreldrið er tekjulágt eða tekjulaust þar sem það helgar sig umönnun eigin barna. Sú skoðun hefur ekki átt upp á pallborðið hér en margir deila með okkur þeirri skoðun að ósanngjarnt sé að gera

upp á milli sambúðarforma. Um þetta hefur að vísu ekki mikið verið ritað, en þeim mun fleiri, sérstaklega einstæðar mæður, hafa haft samband við okkur og vafalaust fleiri hv. þm. um þetta atriði.
    Ég minni á það að einstæður faðir ritaði kjallaragrein í DV í október sl. sem tók á þessu atriði og skýrði hvernig þessi mismunun kemur niður á honum og syni hans. Freistandi væri að lesa hana upp hér fyrir hv. þm., en bæði er nú orðið áliðið og eins er þetta til á prenti svo að hv. þm. geta kynnt sér það. Ég læt mér því nægja að vitna lítillega í bréf frá sama manni, en því fylgdi jafnframt ljósrit af fyrrnefndri grein, svo og gögn frá ríkisskattstjóra sem eru svör við fyrirspurnum greinarhöfundar, Herberts Guðmundssonar. Þetta bréf er dags. 20. des. 1988 og er stílað til áhrifamanna í skattamálum. Og yfirskriftin er: ,,Skattalögin fela í sér hróplega mismunun.`` Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Eins og staðfest er í svari RSK [sem er ríkisskattstjóri] við fyrirspurnum mínum er skattþegnum í sömu eða líkri stöðu og ég er í hróplega mismunað í gildandi skattalögum þegar gerður er samanburður við sams konar fjölskyldu í öðrum innbyrðis tengslum. Mér telst til ef ég nota raunverulegar tölur um mig og son minn á þessu ári að við borgum um það bil 125 þús. kr. hærri beina skatta á árinu en ef sonur minn væri eiginkona mín og aðstæður að öðru leyti þær sömu. Að auki nýt ég ekki húsnæðisbóta, enda utan þess kerfis á meðan ég hef ekki efni á að veita mér eigin húsnæði.
    Eftir birtingu meðfylgjandi kjallaragreinar hafði fjöldi fólks samband við mig, flest sem ég þekki hvorki haus né sporð á með nákvæmlega sömu sögu á bakinu og í mörgum tilfellum enn þá hrikalegri, þar sem um fleiri börn er að ræða. Ég hef hins vegar ekki orðið var við viðbrögð ráðamanna í skattamálum og þar sem mér sýnast fyrirhugaðar skattabreytingar enn ætla að auka á greinda mismunun hlýt ég að vekja athygli ykkar á þessu máli hér og nú. Tæpast hefur það verið ætlun Alþingis að standa fyrir málum á þann veg sem hér um ræðir. Ég hlýt því að vona að í það minnsta verði þessari mismunun aflétt og vissulega væri það þinginu til sæmdar að bæta þeim skaðann sem orðið hafa fyrir barðinu
á svo hróplegri mismunun í skattheimtu og hér um ræðir.``
    Síðan vekur hann athygli á þeim hringlanda sem er ríkjandi við greiðslu mæðralauna, barnabóta og meðlaga og allt eru þetta réttmætar ábendingar sem ástæða væri til að fjalla um en koma kannski ekki akkúrat við þessu máli. En ég vildi vitna til þessa bréfs máli mínu til stuðnings því að ég tel að hér sé um afar mikilvægt sanngirnismál að ræða sem ég vona að flestir hv. þm. séu okkur flytjendum þessa frv. sammála um.
    Síðari breytingin í þessu frv. sem fram kemur í 2. gr. þess varðar skattlagningu á eignir, en í desember sl. samþykkti Alþingi lög um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt þar sem m.a. var tekin upp ný þrepaskipting í eignarskatti. Er nú miðað við 7

millj. kr. eign hjá einstaklingi og þar af leiðandi 14 millj. kr. eign hjá hjónum. Það er vissulega álitamál hvort þessar viðmiðunartölur eru réttar og hvort ekki væri eðlilegra að hafa þrepið hlutfallslega hærra hjá einstaklingum en hjónum. Hins vegar er það að dómi flytjenda þessa frv. ekkert álitamál að tvöföldun eignarskattsstofns annars hjóna við fráfall hins er óréttlæti og baggi sem margir fá ekki risið undir. Það verður að teljast heldur kaldranaleg kveðja frá yfirvöldum við slíkar aðstæður að neyða eftirlifandi maka til algjörrar uppstokkunar á heimilishögum fyrr en viðkomandi er sjálfur tilbúinn til þess. Oft er um eldra fólk að ræða sem á erfitt með að horfast í augu við allt það umstang og viðbrigði sem fylgja búsetuskiptum og þarf miklu lengri umþóttunartíma en skattalöggjöfin gefur færi á. Sé um yngra fólk að ræða eru oft börn á framfæri eftirlifandi sem æskilegt er að þurfi ekki að þola búseturöskun ofan á aðra erfiðleika tengda foreldramissinum. Þá má minna á að mjög margar konur í þessari aðstöðu hafa lágar tekjur og eru jafnvel ekki í lífeyrissjóði.
    Rétt er að minna á það að kvennalistakonur greiddu atkvæði gegn frv. um tekjuskatt og eignarskatt í desember sl. og töldu það algjöra óhæfu að auka svo grimmilega skatta á almennt launafólk, ekki síst þar sem launafólki var þá haldið í fjötrum launafrystingar og samningsbanns. Annað mál er það að við lýstum okkur hlynntar hækkun skatta á eignir umfram hófleg mörk en töldum þau mörk sem fjmrn. setti of lág. Þau voru að vísu hækkuð í meðförum þingnefndar, en e.t.v. ekki nægjanlega. Um það má vitaskuld alltaf deila. En frekari leiðrétting fékkst hins vegar ekki á þeim allt of skamma tíma sem alþm. fengu til þess að fjalla um þessar breytingar á tekjuskatts- og eignarskattslögunum og sérstakt vandamál ekkna og ekkla var algjörlega skilið eftir. Ef ég man rétt, þá var það aðeins mjög lauslega rætt í tengslum við þessar breytingar og ég er sannfærð um að mjög margir hv. þm. hreinlega gerðu sér ekki grein fyrir afleiðingum þessarar lagasetningar.
    Því miður gerist það nú ár eftir ár, í desemberönnunum sérstaklega, að keyrðar eru gegnum þingið vanhugsaðar breytingar á tekjuöflunarkerfi ríkisins til þess að reyna að fá réttar niðurstöður úr fjárlagadæminu. Oftast bíður það svo nýrrar ríkisstjórnar að leiðrétta mistökin sem höfundar vilja ekki kannast við. Eins og ég sagði má endalaust deila um það hvað teljast megi eðlilegar og hóflegar eignir og eins hvort ekki væri t.d. sanngjarnt að hafa eignarskattsþrepið hærra hjá einstaklingum hlutfallslega en hjónum. Hins vegar er það ekkert álitamál að tvöföldun eignarskattsstofns annars hjóna við fráfall hins sem leitt getur til meira en tvöfalt hærri skattgreiðslna af sömu eign er óréttlæti og baggi sem margir fá ekki risið undir. Mig undrar raunar að fjmrn. skuli ekki hafa séð sóma sinn í því að leiðrétta þetta augljósa ranglæti. --- Og er nú hæstv. fjmrh. og annarra ábyrgðarmanna á þessum málum sárt saknað hér í salnum. Þó að hv. þm. sé ætlað að hafa þrek til næturfunda, þá virðist það sama ekki gilda um

ráðherra. --- Því verður tæpast trúað að það hafi verið ætlun yfirvalda að beita ekkjur og ekkla skattpíningu af þessu tagi, þ.e. að nota tækifærið við fráfall annars hjóna til að krefja hitt um meira en tvöfalt hærri skatt af sömu eign heldur en þau greiddu sameiginlega áður, þ.e. beinlínis að græða á dauða manna.
    Vissulega eru möguleikar í skattalögunum á að taka tillit til aðstæðna við tilfelli sem þessi, en þeir möguleikar duga hvergi til. Þessi aðför að ekkjum og ekklum sem hv. Alþingi slysaðist til að samþykkja í desember sl. hefur að vonum orðið mörgum tilefni heilabrota og hneykslunar og ýmsir hafa vakið máls á þessu við þá sem hér stendur, m.a. lögfræðingur með margra ára reynslu af skiptingu dánarbúa og aðstoð við eftirlifandi maka. Við kvennalistakonur sáum ekki aðra lausn betri en lögð er til í þessu frv., þ.e. að við fráfall annars hjóna verði álagning skatta á sömu eign áfram með sama hætti og um hjón væri að ræða svo lengi sem eftirlifandi maki situr í óskiptu búi.
    Virðulegi forseti. Ég tel mig hafa gert grein fyrir þessu frv. Það hefði sannarlega mátt fara miklu fleiri orðum um þetta og hefði auðvitað verið æskilegt að hér væru fleiri viðstaddir, og þá ekki síst þeir sem hafa betri tök á að framkvæma þann vilja sem hér kemur fram. En við því er ekkert að segja annað en það að halda áfram að reyna að vinna málinu brautargengi.
    Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.