Íslensk málnefnd
Þriðjudaginn 25. apríl 1989

     Frsm. menntmn. (Birgir Ísl. Gunnarsson):
    Herra forseti. Menntmn. Nd. hefur fjallað um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 80/1984, um Íslenska málnefnd, og hefur orðið sammála um að mæla með samþykkt þess frv. með brtt. sem fluttar eru á þskj. 923.
    Aðalbreytingin er sú að lagt er til að í Íslenskri málnefnd eigi sæti fimmtán menn í staðinn fyrir nítján eins og gert var ráð fyrir í frv. eins og það upphaflega var lagt fram og jafnframt fækki þeim nefndarmönnum sem ráðherra skipi án tilnefningar úr átta fulltrúum í þrjá, en einn aðili bætist við þá sem tilnefna í nefndina, þ.e. Hagþenkir sem er félag höfunda fræðirita.
    Það var talið eðlilegra að fækka nokkuð nefndarmönnum, ekki síst með tilliti til þess að það voru nokkuð óljósar hugmyndir í frv. um hverjir ættu að skipa þau sæti sem nú er gerð tillaga um að fækka. Nefndin komst að þessari niðurstöðu eftir m.a. að hafa rætt við formann málnefndar og forstöðumann hennar, þ.e. þá Kristján Árnason og Baldur Jónsson. En við leggjum til að frv. verði samþykkt með þessari breytingu.