Lögreglurannsókn hjá búfjáreigendum
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Það kom ekki á óvart að ræða hæstv. landbrh. var rugl frá upphafi til enda um allt þetta mál, eins og þetta frumhlaup í búfjártalningu er líka frá upphafi til enda. Staðreyndin er sú að með þessari aðgerð er verið að teygja sig lengra af hálfu framkvæmdarvaldsins, af landbrh. og dómsmrh., en lög heimila. Það er verið að fara inn á persónufrelsi manna og friðhelgi heimilis með því að fyrirskipa talningu á búfé, sem er eins konar eignakönnun því það kemur fram að þetta á ekkert skylt við forðagæslu. Það kemur fram að tilgangur talningarinnar er allur annar. Það er líka í forðagæslulögum, sem hæstv. ráðherra ætti að þekkja, gert ráð fyrir að forðagæslumenn skili skýrslu um tölu búfjár eftir haustskoðun, en það er ekkert um slíka tölu búfjár í skýrslu þeirra eftir vorskoðun. Tilgangurinn er allur annar en forðagæslu kemur við, sem er eftirlit með fóðurbirgðum, eftirlit með fóðrun búfjár, eftirlit með aðbúnaði búfjár í húsum. Þetta er lögreglurannsókn af allt öðrum toga, eignakönnun á hendur einni stétt manna í landinu og það án allra lagaheimilda. Það er furðulegt þegar handhafar framkvæmdarvaldsins fara þannig út fyrir það sem lög heimila þeim til að vekja vantraust og vantrú fólks í landinu á eina stétt manna og kveikja með þessum aðgerðum grunsemdir um að þar séu sakamenn á ferð. Hæstv. ráðherra ætti að vita að skýrslur forðagæslumanna að hausti gefa upp tölu búfjár og hæstv. ráðherra ætti að vita að skattskýrslur manna gefa upp tölu búfjár. Ef þetta er ekki nóg á hæstv. ráðherra og hæstv. dómsmrh. að afla sér lagaheimildar til að fara í aðgerð sem á að taka þessum tveimur skýrslum fram. Þá lagaheimild hefur ekki hæstv. ráðherra, hvorki hæstv. landbrh. né því síður hæstv. dómsmrh. Það er sannarlega harkalegt og alvarlegt við að búa þegar hæstv. dómsmrh. og hans starfsmenn gefa fyrirskipanir sem ekki eiga við lög að styðjast. Þess vegna eru svör hæstv. landbrh., eins og ég sagði, rugl frá upphafi til enda, enda sumpart ósatt það sem hann sagði, að ekki hefði verið farið fram á það við dómsmrn. að eiga hlut að þessari rannsókn. Það stendur þó skjallega í bréfum sem frá ráðuneytinu hafa komið og þarf ekki að lesa þau upp aftur. Ég gæti lesið þau ef hæstv. ráðherra vill fá að heyra það. Ég skal gera það þá í seinni ræðu.