Lögreglurannsókn hjá búfjáreigendum
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Fyrst það sem hæstv. landbrh. sagði að um þetta mál hefði ekki verið skrifað til dómsmrn. Í bréfi til Búnaðarfélags Íslands sem samrit var sent af til dómsmrn. segir, með leyfi forseta: ,,Yfirstjórn talningar verður í höndum Búnaðarfélags Íslands, en talningin verði framkvæmd af fulltrúa lögreglustjóra í samráði við forðagæslumenn og viðkomandi sveitarstjórn`` og þetta er sent dómsmrn.
    Í öðru lagi: Þetta kemur ekki við forðagæslulögum vegna þess að í bréfum ráðuneytisins segir: ,,Tilgangurinn er að fá nákvæmari upplýsingar um búfjáreign landsmanna. Slíkar upplýsingar munu nýtast á margan hátt, við t.d. stjórn búvöruframleiðslu, framkvæmd framlaga ríkisins og til margs konar áætlunargerðar.`` Þetta er allt annað en búfjárræktarlög. Tilgangurinn er annar en að þjóna eftirliti með fóðurbirgðum og fóðrun og tölu búfjár þess vegna.
    Hæstv. ráðherra sagði hér seinast að það væri ekki vantraust á sjómenn þó farið væri um borð í skip til eftirlits og ekki vantraust á ökumenn þó athugað væri af lögreglu hvort þeir væru ölvaðir. En málið er það að fyrir því eru lög. Það má vel vera að það geti verið ástæða til að kanna búfjáreign eða aðra eign manna, en þá þarf að hafa lög fyrir því. Það er ekki hæfa að fulltrúar framkvæmdarvaldsins, hæstv. ráðherrar, og þá allra síst hæstv. dómsmrh., fari fram með sínum fyrirskipunum inn á friðhelgi heimilis, inn á persónufrelsi manna og einkaréttindi, án þess að hafa fyrir því lög. Það er þetta sem ég er að tala um að sé óhæfa. Ég er ekkert að tala um að það sé ekki eðlilegt að lögum um skattframtal og jafnvel skattalögreglu sé beitt ef því er að skipta, ef menn liggja undir grun. En menn eiga ekki að fara fram af hálfu framkvæmdarvaldsins án þess að hafa lög fyrir því á hendur almenningi í landinu.