Almannatryggingar
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Herra forseti. Hv. 13. þm. Reykv. sagði í upphafi framsöguræðu sinnar að frv. þetta hefði fengið meiri umfjöllun í nefndinni en litið gæti út fyrir. Það er áreiðanlega orð að sönnu. A.m.k. lítur það svo út frá mínum bæjardyrum séð að það hafi fengið afar litla umfjöllun og óvenjulega litla því í þessu frv. er lagt til að farið sé inn á algjörlega nýja braut að því er varðar meðferð örorkumats og þetta frv. er engum sent til umsagnar, hvorki Öryrkjabandalaginu, læknasamtökunum né neinum yfir höfuð, heldur er það afgreitt endanlega frá nefndinni á fundi þegar svo stóð á að hvorugur stjórnarandstöðuþingmannanna úr Sjálfstfl. gat verið viðstaddur. Höfðum við þó gert töluverðar athugasemdir við umfjöllun um málefni Tryggingastofnunar eða a.m.k. látið þau til okkar taka. Ég verð að segja að þetta finnst mér afar gagnrýni verð meðferð. Við erum að fjalla um mál sem snertir mjög viðkvæma þætti í lífi einstaklinga, oft og tíðum einstaklinga sem geta ákaflega litla björg sér veitt, þannig að ég tel það lágmarksskilyrði, sem vinnubrögð á Alþingi verða að fullnægja, að það sé a.m.k. sent til umsagnar þeim sérfræðingum sem um slík mál fjalla og það sé ekki nægilegt að það liggi fyrir að tryggingaráð hafi óskað eftir því að frv. yrði flutt um þetta mál. Ég tel að það sé ekki nægilegt. Ég tel að það leysi ekki þetta mál eða fríi okkur þeirri vinnubragðavöndun að senda málið til læknasamtakanna sérstaklega því að þarna er fyrst og fremst verið að breyta því grundvallaratriði, sem gildir um örorkumat að því er ég veit best í öllum löndum, að það séu læknar sem leggja mat á örorkustigið, e.t.v. með tilliti til ýmissa annarra þátta. Þarna er verið að heimila það að ýmsir ófaglærðir aðilar geti breytt hinu læknisfræðilega mati á örorkustigunu. Þetta þykir mér svo alvarlegt að ég vil eindregið leggja til að nefndin taki þetta á ný til skoðunar og fari fram á umsagnir frá Læknafélagi Íslands og frá Öryrkjabandalaginu þó að ekki séu fleiri nefndir á þessu stigi, en a.m.k. þessum tvennum aðilum.
    Ég vil, til þess að skýrt sé í hverju það er fólgið sem ég hef mestar áhyggjur af, vísa til 2. gr. frv. sem fjallar um orðalagsbreytingu á 7. gr. laganna. Hér segir svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Rísi ágreiningur um bætur leggur tryggingaráð úrskurð á málið. Ef ágreiningur er lagður fyrir tryggingaráð til úrskurðar og úrlausn hans er að einhverju leyti eða öllu háð læknisfræðilegu mati er tryggingaráði hverju sinni heimilt að kveðja sér til ráðuneytis einn til þrjá lækna sem hafa sérþekkingu á hlutaðeigandi sviði.``
    Í grg. frv. sagði m.a. að 2. gr. frv. væri m.a. orðuð svo til þess að ekki orki tvímælis að tryggingaráð hafi ekki aðeins vald til að leysa úr ágreiningi um það hvort reglur laganna veiti rétt til greiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins heldur einnig til þess að leysa úr ágreiningi um önnur skilyrði slíks réttar. Það er þetta atriði sem getur skipt verulegu máli, t.d. örorkustig viðkomandi.
    Enn fremur segir þessu til skýringar að uppi hafi verið ágreiningur um valdmörk tryggingaráðs annars

vegar og tryggingayfirlæknis hins vegar. Til þess að taka af tvímæli um þessi valdmörk er svo flutt brtt. af meiri hl. nefndarinnar, þ.e. brtt. sem við hv. þm. Geir H. Haarde eigum ekki aðild að og vissum ekki að yrði flutt í nefndinni, en hún orðar það skýrt að slík umfjöllun tryggingaráðs fjalli einnig um örorkumat.
    Það segir í breytingartillögunni á bls. 15 í fundarskjalinu hjá okkur: ,,7. gr. laganna hljóði svo: Rísi ágreiningur um bætur eða örorkumat getur tryggingaráð úrskurðað í málinu. Ef ágreiningur er lagður fyrir tryggingaráð til úrskurðar eða úrlausn hans er að einhverju leyti eða öllu háð læknisfræðilegu, lögfræðilegu eða félagslegu mati er tryggingaráði hverju sinni heimilt að kveðja sér til ráðuneytis einn til þrjá aðila sem hafa sérþekkingu á hlutaðeigandi sviði.``
    Núna er það svo að örorkumat er alfarið læknisfræðilegt. Í þessari grein, sem lagt er til að svo verði orðuð, hefur tryggingaráð heimild til að hnekkja því mati hvort sem þar er læknir eða ekki. Tryggingaráð hefur að vísu heimild til að kveðja sér til ráðuneytis einn til þrjá menn með sérþekkingu. En það er ekki skylt að kveðja sérfræðinga sér til aðstoðar og heldur ekki skylt að fara eftir niðurstöðu þeirra. Með öðrum orðum: Hér er verið að fara inn á þá braut að læknisfræðilegu mati geti leikmenn breytt. Ég tel að við séum að fjalla um miklu alvarlegra mál en einungis það að unnt sé að áfrýja örorkumati. Það er hægt að gera það á þann veg að læknisfræðileg rök séu líka í hinum endanlega úrskurði.
    Þetta held ég að við verðum að athuga miklu betur og ég legg eindregið til að nefndin taki þetta til umfjöllunar á ný í þeim tilgangi að fá umsögn þeirra aðila sem ævinlega eru kvaddir til umsagnar um mál af svipuðu tagi.