Almannatryggingar
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Ég vil að það komi alveg skýrt fram að ég mun styðja þetta frv. af því að það er þó lítið spor í rétta átt. En ég verð að segja að það er dálítið skrýtið og það gerir þessa breytingu lítils virði þar sem greinin er þannig að það sé heimilt að kveðja þá til, það er ekki skylt. Ef einhver skýtur máli sínu til tryggingaráðs er tryggingaráði þetta ekki skylt. Auðvitað þyrfti það að vera skylt vegna þess að það er upplýst að tryggingalæknir situr þessa fundi og ef ekki kemur annar læknir eða aðrir aðilar má álykta a.m.k. svo að hann, vegna þess að hann er sérfræðingur eins og a.m.k. er í okkar þjóðfélagi, muni tryggingaráð í mörgum tilvikum fallast á hans læknisfræðilegu túlkun. Ég vil í fullri vinsemd skora á hæstv. ráðherra eða nefndina að breyta þessari heimild í að það sé skylt að kalla þessa menn fyrir, fá aðstoð annarra lækna. Annars getur þetta verið í sjálfu sér marklaust eða marklítið.
    En það var merkilegt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra og kannski skilur maður við hvað er að eiga. Hann upplýsir að það hafi verið til frv. sem hafi verið í þá veru sem ég talaði um áðan, þ.e. að það verði héraðslæknar sem verði formenn úrskurðarnefndar um örorkubætur og örorku. En hvers vegna var þetta dregið til baka? Var það vegna þess að tryggingalæknir, embættismennirnir hafi haft á móti því? Ég veit að hann hefur verið á móti öllum breytingum í þessu efni. En það er löggjafans að hafa kjark og skilning á því að breyta lögum en á ekki að fara eftir því sem embættismennirnir segja, a.m.k. mega þeir engu ráða um afstöðu sem hv. alþm. taka í slíkum málum. Vald embættismannanna er orðið allt of mikið og hv. þm. taka allt of mikið tillit til álits þeirra.
    Ég endurtek að ég óska eftir því við formann nefndarinnar að hann athugi milli umræðna að herða á ákvæðinu til þess að það sé afgerandi. Við vorum að tala áðan um frv. sem var á þann veg að það var til þess að lina ákvæðið. Hér er alveg sama. Það er ekki nema í einstaka tilviki sem slíkt ætti að vera í löggjöf, að eitthvað sé heimilt. Það er oft og tíðum til þess að það sem hv. þm. ætla fer eftir embættismönnum og öðrum hvernig slíkt er notað.